Viðtal við Hjalta Björnsson CAC, SFR tíðindi Október 2004

Í um það bil þrjá áratugi hefur verið starfrækt virk meðferð við vímuefnafíkn á Íslandi. Sú starfsstétt sem ber þungan af sjálfu meðferðarstarfinu kallar sig áfengisráðgjafa, þó sú nafngift lýsi ekki nema hluta af starfssviði þeirra. Áfengisráðgjafi er sá sem ásamt lækni og hjúkrunarfræðingum er í mestu sambandi við sjúkling í afeitrun, hann er sá aðili í meðferðarstarfi sem er í daglegu og stöðugu sambandi við skjólstæðinginn í inniliggjandi meðferð og hann er sá sem fíknisjúklingar og aðstandendur þeirra hitta í göngudeildum. 

Flestir Áfengisráðgjafar starfa hjá SÁÁ, nokkrir starfa hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi og örfáir starfa alveg sjálfstætt.

Áfengisráðgjafar hafa með sér fagfélag sem nefnist Félag Áfengisráðgjafa – FÁR, en stéttarfélag þeirra sem starfa hjá LSH og SÁÁ er SFR.

Áfengisráðgjafar hafa mjög lengi leitað leiða til að sækja sér meiri þekkingu á sviði fíknimeðferðar að sögn Hjalta Björnssonar dagskrárstjóra hjá SÁÁ, en Hjalti er jafnframt formaður FÁR. Hjalti benti á, í stuttu samtali við Félagstíðindi, að ráðamenn á Íslandi hefðu lengi dregið lappirnar í þessum málum og lítinn áhuga haft á að koma á virku námi í áfengisráðgjöf. 

“Þess vegna tókum við áfengisráðgjafar frumkvæðið og settum okkur í samband við samtök bandarískra áfengisráðgjafa, NAADAC. Þeir hafa lengi rekið ráðgjafaskóla fyrir sitt fólk og gert miklar kröfur til sinna félagsmanna um siðferði, kunnáttu og viðhald kunnáttu. Okkur þótti það spennandi og tókum þess vegna frumkvæðið sjálf að því að setja okkur sambærileg mörk og fengum að lokum það í gegn að við eigum nú möguleika á að fá námsefnið sem þeir nota og sanna kunnáttu okkar með prófi, á sama hátt og bandarískir kollegar okkar. Til að fá aðgang að bandaríska skólanum og að prófinu þurfa íslenskir ráðgjafar að uppfylla sömu skilyrði og þeir bandarísku, svo sem eins og að sýna fram á starfsreynslu, þjálfun, handleiðslu og fleira.”

Og Hjalti sagði að þetta væru engin málamyndaskilyrði, því í fyrstu atrennu þyrfti fólk að hafa starfað við áfengisráðgjöf á viðurkenndri stofnun í fjögur ár (það verður að leggja áherslu á að bandaríkjamenn vinna bæði lengri vinnudag og fleiri vinnudaga á ári en íslendingar) og lokið að minnsta kosti 370 klukkustunda námi til að fá heimild til að taka prófið frá skólanum. Til að setja þetta í samhengi þá þýðir þetta lærdóm sem samsvarar bóklegu námi í kvöldskóla í tvö ár auk starfsþjálfunar í amk. fjögur ár. Á þessu sést að áfengisráðgjafar eru auðvitað tilbúnir að gera miklar kröfur til sín og leggja töluvert á sig til að meðferð á Íslandi verði áfram ein sú besta í heiminum.

“Við fengum námsefnið sent hingað til Íslands og fengum einnig kennara frá þeim nokkrum sinnum til að fara yfir ákveðna þætti með okkur. Fulbrightstofnunin sá um prófframkvæmdina. Þegar við loksins sáum prófið fyrst kom það okkur aðeins í opna skjöldu – það var mun erfiðara en við hugðum fyrirfram, þannig að aðeins fjórir af þeim tíu sem þreyttu prófið náðu í fyrstu atrennu. Árangurinn var betri hjá næsta hóp, því þá var komin reynsla á prófið, þeir sem höfðu farið í fyrstu atrennu gátu miðlað af reynslu sinni” sagði Hjalti aðspurður um hvernig námsefnið og prófin væru framsett. Hann býst við því að sá hópur sem þreytir prófið nú í nóvember nái góðum árangri, “enda hafa þau mikið lagt á sig við undirbúninginn.

Prófið sjálft samanstendur af 250 spurningum, þar sem spurt er út úr fjórum grunnþáttum áfengisráðgjafar. Náminu er einnig stillt upp þannig að nemendurnir nái góðum tökum á þessum fjórum þáttum, þ.e. lyfjafræði vímuefna, sál- og félagsfræði, siðareglur og fagleg vinnubrögð. Þessi uppsetning á náminu og prófinu nýtist þeim sem vinna hjá SÁÁ mjög vel, því hér fáum við góða og reglubundna starfsþjálfun og hvatningu til að leita okkur menntunar í faginu, auk þess sem stöðug fræðsla og endurmenntun er í gangi hjá SÁÁ.

Við megum heldur ekki gleyma því að SFR hefur stutt okkur áfengisráðgjafa rækilega að ná þessu markmiði okkar. Við höfum notið aðstoðar félagsins við þetta nám, bæði þannig að félagið hefur greitt hluta af kostnaðinum og svo fá einstaklingar góðan styrk úr Starfsmenntunarsjóði SFR.

Þegar á heildina er litið hafa undanfarin tvö ár verið sem ævintýri líkust að því leyti að NAADAC er sá aðili í Bandaríkjunum sem gerir hvað mestar kröfur um kunnáttu, menntun og siðgæði þeirra sem starfa í Bandaríkjunum og nú reyndar víðar. Þeir gerðu nákvæma athugun á okkur, við þurftum að senda þeim miklar upplýsingar og að lokum komust þeir að því að við stóðumst kröfur þeirra og væntingar. 

NAADAC hefur á þessum tíma stöðugt þurft að verjast aðilum sem setja lægri viðmið og hafa viljað kaupa NAADAC út úr því að gefa út viðurkenningar. Stjórn FÁR leit yfir þetta svið og við erum sannfærðir um að ef við ætlum að halda uppi kunnáttu og gæðum áfengisráðgjafa á Íslandi þá er það okkar hagur að vera í þessu samstarfi við NAADAC. Það verður samt aldrei þannig að allir sem starfa við áfengisráðgjöf hafi þessi próf, heldur fyrst og fremst hafa áfengisráðgjafar, með veru sinni í FÁR, undirgengist ákveðinn siðferðisstuðul og reglubundna endurmenntun” sagði Hjalti Björnsson að lokum. Félagstíðindi þakka honum fyrir og óska honum og samstarfsfólki hans velfarnaðar í störfum sínum

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *