Viðtal við Hjalta Björnsson CAC í blaði Geðhjálpar, október 2005

„Það er alveg ljóst að fólk með geðsjúkdóma er í mikilli áhættu á að ánetjast lyfjum. Áfengissýki og lyfjafíkn eru tíð hjá þessu fólki vegna þess að það er að nota lyf sem eru ávanabindandi. Lyfin sem það þarf að taka gegn sínum geðsjúkdómum eru oft þau lyf sem leiða til fíknar.“ segir Hjalti Björnsson áfengisráðgjafi hjá SÁÁ og dagskrárstjóri á meðferðarheimilinu Vogi.

Hjalti segir að það komi mikið af ungu fólki inn á Vog sem þarf að hitta geðlækni og þá eru einkenni geðsjúkdóma að koma í ljós hjá þeim í fyrsta skipti. „Það er mjög mikið af einstaklingum að greinast í fyrsta sinn hér inni en þeir eru þá að koma í vímuefnameðferð. Geðsjúkir eru mikill áhættuhópur því þeir eru veikir fyrir og lenda oft til hliðar og þá er mikil hætta á að þeir lendi inn í fíklahópum. Ef að menn eru að fá geðræn einkenni ungir og eiga erfitt í skóla þá gerist þetta.“

Að sögn Hjalta er mikil áhætta fólgin í því að vera fíkill með geðsjúkdóm; „Fólk er að taka lyf við geðrænum einkennum og ef það er ekkert haldið utan um það þá getur það lent í óreglu. Neysla er í raun smitandi, fólk hefur sinn félagsskap hvert af öðru, það er kannski ekki að vinna vegna sjúkdómana og fer að drepa tímann saman með óreglu, þá verður þetta óviðráðanlegt.“ 



Geðræn einkenni af völdum vímuefna
Hjalti segir að séu einstaklingar veikir fyrir geti vímuefnaneysla sett af stað geðsjúkdóma. „Maður sér það á einstaklingum sem eru veikir fyrir að vímuefni geta oft brotið veika skurn.“ Ef heilbrigður einstaklingur er í vímuefnaneyslu getur hann fengið geðræn einkenni af völdum hennar en það þýðir ekki að hann sé með geðsjúkdóm. Að sögn Hjalta geta ákveðin fíkniefni leitt til geðrænna einkenna. „Kannabisefni eins og hass og marijuana gerir fólk sljótt og þunglynt. Örvandi efni láta fólk fá ranghugmyndir, gera það tortryggið og það fæ ofsóknarhugmyndir. E-pilla, kókaín og amfetamín eru þau örvandi efni sem eru vinsælust og valda einkennum geðveiki. En þegar þetta heilbrigða fólk hættir að nota efnin þá ganga þessi einkenni til baka sem þýðir að það er ekki með geðsjúkdóm. Maður hefur séð að foreldrar fara með unglinga, sem eru með þessi einkenni fíkniefnaneyslu, til læknis og fá geðlyf við þeim. Auðvitað gengur það aldrei upp því það er verið að reyna að meðhöndla afleiðingar vímuefnaneyslu með geðlyfjum. Þetta fólk kemur svo inn á Vog og þá kemur í ljós að það er ekkert að því annað en fíkn.“



Enginn geðlæknir á Vogi
En hvaða ferli fer í gang á Vogi þegar einstaklingur kemur í vímuefnameðferð og á við bága geðheilsu að stríða? „Árum saman höfðum við geðlækni í föstu starfi en það var skorið svo mikið niður að við urðum að segja honum upp. Núna þurfum við að kalla til sérfræðing í ráðgjöf ef grunur er um geðsjúkdóm. Stundum fer fólk þá inn á geðdeild. Mjög margir sem koma hingað inn eru með áður greinda geðsjúkdóma og eru í tengslum við geðlækna eða endurhæfingu og þá hvetjum við þá til að halda því samstarfi áfram.
En vegna óreglu hefur fólk kannski ekki verið í tengslum við sinn lækni í langan tíma og þá komum við þeim tengslum á aftur. Það kemur líka vikulega barna- og unglingageðlæknir hingað og talar við þá unglinga sem þurfa á því að halda og stundum er niðurstaða hans að þeir þurfi á geðmeðferð að halda. Annars er bara kallað í geðlæknana eftir þörfum.“

Áhyggjur Hjalta eru þær að þeir á Vogi geti ekki almennilega þjónað þeim sem eru með geðsjúkdóma vegna skorts á fjármagni og úrræðum. „Við sjáum mikið af þessu fólki á götunni. Bati hjá svonum einstaklingum er mjög hægur og erfiður og föll eru mjög algeng og viðbrögðin eru oft þau að vísa fólki úr húsnæði sem er engin lausn því fólkið hverfur ekki. Við reynum að fylgja þeim, sem fara héðan út, eftir þannig að það sé farið af stað ferli sem heldur utan um einstaklinginn úti í samfélaginu.“



Þurfa mikla aðstoð alla ævi
Hjalti segir suma koma aftur og aftur í meðferð og ná litlum árangri. Þá er í lang flestum tilfellum um erfiðan geðsjúkdóm að ræða og bati verður oft seinn og hægur.
„Langflestir fíklarnir sem koma hingað eru ekki með geðsjúkdóma. Flestir hérna ná árangri mjög fljótt en við sitjum alltaf með einhverja sem ná ekki árangri. Það er mjög misjafna hvað fólki gengur vel og fólkið sem kemur hingað aftur og aftur er enginn baggi á þjóðfélaginu. Ef að þjóðfélagið hefur ekki efni á að hugsa um minnstu meðbræður sína þá fer maður að efast um þau gildi sem það stendur á. Geðsjúkdómar eru margir erfiðir og illvígir og það er enginn varanlegur bati til við þeim, menn eru bara með þetta og við eigum ekki að vísa því fólki í burtu. Þótt að þetta fólk nái ekki sama árangri og aðrir þá er það ekki ómerkilegra eða minna virði. Það þarf ákveðna hæfileika til að fara í gegnum svona meðferð og breyta sínu lífi, skipta um félagsskap og lifnaðarhætti. Sumir hafa ekki getu til þess.“

Hjalti er á því að heilbrigðskerfið sé að bregðast geðsjúkum með því að þrengja að og loka deildum. „Þar sem geðsjúkir fá aðhlynningu og hvatningu er hægt að halda þeim stöðugum. Þetta er ekki átaksverkefni sem stendur yfir í stuttan tíma heldur er þetta eitthvað sem þarf að huga að alla ævi, mér finnst fólk oft missa áhugann og úthaldið og yfirgefa þetta fólk of snemma. Ég vil eyða mínum skattpeningum í að hlúa að þeim sem þurfa á því að halda, það á að vera forgangsatrið. Mér finnst of mikið um það að við séum að ætla þessu fólki að standa sig, að allir einstaklingar séu það sterkir að þeir geti bjargað sér sjálfir við litla aðstoð, en geðsjúkir þurfa mikla aðstoð alla ævi,“ segir Hjalti að lokum.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *