Um framsókn, fíkla og fangelsi. grein Harðar Svavarssonar MBL október 2005.

Mánudaginn 26. september síðastliðinn skrifar Marsibil J. Sæmundsdóttir framkvæmdastjóri grein í Morgunblaðið (sem birtist áður á vef framsónarfólks). Greinin er um þörf Marsibil til að meðhöndla unga vímuefnaneytendur, sem hlotið hafa dóm, annars staðar en í því sem hún kallar hefðbundið fangelsi. Marsibil hefur skrif sín á að upplýsa lesendur um að stjórn félags ungra framsóknarmanna í öðru Reykjarvíkurkjördæmanna hafi skorað á dómsmálaráðherra að koma á fót sérhæfðu fangelsi fyrir afbrotamenn sem eru yngri en 25 ára og eiga við vímuefnafíkn að stríða.

Greinin er að mörgu leiti hjartnæm en af lestri hennar verður ekki ljóst hvað gerir stjórn ungra framsóknarmanna í öðru Reykjavíkurkjördæmanna sérstaklega hæfa til að ráðleggja dómsmálaráðherra um vímuefnameðferð. Hitt er þó ljóst öllum sem fylgst hafa með stjórnmálum að stundum hefur það hentað hópum sem átt hafa undir högg að sækja hvað varðar vinsældir almennings, að hefja umræðu um vímuefnavanda og forvarnir í aðdraganda kosninga. Þá eru gerðar miklar kröfur til ráðamanna eða miklu lofað eftir kosningar. 

Það er auðvitað ánægjulegt þegar einstakir áhugamannahópar á borð við stjórn hinna ungu framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður gefa sig út fyrir að hafa áhuga á hagsmunum einstakra minnihlutahópa og það ber auðvitað að þakka. Það virkar þó ekki sérlega geðfellt þegar framkvæmdastjórinn Marsibil, sem vel að merkja rekur einhvers konar meðferðarstöð, talar um vímuefnafíkna afbrotamenn sem markhóp. Það er líka stundum langt seilst eftir tilfinningarökum í grein hennar. Hún talar t.d. um 16 ára börn sem er ekki betur borgið í vistun með ýmiskonar afbrotamönnum. Hve mörg 16 ára börn eru vistuð á Litla-Hrauni? Ætli framkvæmdastjórinn hafi hugmynd um það? Ætli stjórn ungra framsóknarmanna í Reykjavík norður hafi leitað álits sálfræðinga Fangelsismálastofnunar á þessu vandamáli sínu? 
Það gerist allt of oft að fagmenn sem vinna á stofnunum félagslega kerfisins og heilbrigðiskerfisins upplifa það að stjórnmálamenn taka upp á arma sína einhverjar markaðsvænar lausnir, sem stundum eru lausnir við röngum vanda. Allt of oft eru fagmenn hunsaðir. Fagmenn sem vinna að einstökum málaflokkum alla daga, allan ársins hring eru ekki marktækir en þess í stað er látið undan kröfum einstakra háværra þrýstihópa. 

Það verður að hvetja þá sem vilja bæta samfélagið að leita eftir faglegum rökum, skoða tölfræði, vísindalegar niðurstöður rannsókna og tala við þá sérfræðinga sem starfa í viðkomandi málaflokki. Kannski er meiri þörf á að mennta betur fangaverði heldur en að byggja nýtt fangelsi. Kannski ættu þeir sem sinna föngunum að kunna betri skil á vímuefnameðferð og sálgæslu. A.m.k. lýstu fangaverðir því þannig á ráðstefnu um málefni fanga í vor, að lítt væri hlustað á tillögur þeirra. Hugmyndir fangavarða virtust stundum hljóma eins og hvalahljóð úr undirdjúpunum í eyrum ráðamanna. Það starfa vel menntaðir sérfræðingar hjá Fangelsismálastofnun. Þeir sem hafa áhuga á að bæta aðstöðu vímuefnafíkla og fanga, hvort sem þeir eru í Framsókn eða öðrum flokkum ættu að tala við þessa sérfræðinga áður en þeir álykta. 

Ef til vill er það einmitt kostur fyrir ungt fólk sem misst hefur fótanna, eins og Marsibil orðar það, að vera innan um fullorðið fólk sem kann að komast af. Að minnsta kosti verður að draga hugmyndir um „jákvæða jafningjafræðslu“ sem öflugt meðferðartæki í fangelsi í efa. Það er hægt að gera margt til að bæta og efla vímuefnameðferð sem er til staðar í samfélaginu. Meðferð sem virkar. Það er brýn þörf fyrir margt í þeim málaflokki, nýtt ungmennafangelsi er þar ekki efst á blaði.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *