Stöndum vörð um Vog eftir Pál Geir Bjarnason áfengis- og vímuefnaráðgjafa, CAC, MBL 12. nóvember 2013

Stöndum vörð um Vog

SÁÁ stígur um þessar mundir það heillaspor að reisa nýja byggingu við sjúkrahúsið Vog. Byggingu sem er sérhönnuð til að taka við og meðhöndla okkar allra veikustu áfengis- og vímuefnasjúklinga. Mikil þörf er fyrir sjúkrabygginguna og við hæfi að hún skuli rísa nú á þrjátíu ára afmæli sjúkrahússins Vogs. 

Frá árinu 1977 hefur SÁÁ meðhöndlað áfengis- og vímuefnasjúklinga og veitt þeim hjálp til að öðlast bata frá sjúkdómi sínum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og er tala þeirra einstaklinga sem komið hafa til meðferðar hjá SÁÁ farin að nálgast 25.000. Afraksturinn sést ekki síst í þeirri staðreynd að viðhorf landsmanna gagnvart áfengis- og vímuefnasýki hefur tekið miklum og jákvæðum breytingum. Sífellt fleiri skilja að um alvarlegan sjúkdóm er að ræða. Á meðan fækkar þeim sem telja áfengis- og vímuefnasýki einhvers konar  ístöðuleysi og aumingjaskap. 

Samtökin hafa á þessum áratugum skipað sér sess sem helsti valkostur þeirra sem veikir eru af áfengis- og vímefnasjúkdómi. Faglærðir heilbrigðisstarfsmenn sinna sjúklingunum en á Vogi starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sálfræðingar, félagsráðgjafi og sérmenntaðir áfengis- og vímuefnaráðgjafar með starfsleyfi frá Landlæknisembættinu. Metnaður er lagður í að sækja nýjustu þekkingu á sviði fíknisjúkdóma og þjálfa öflugt starfsfólk. Staðreyndin er sú að langflestir sem sækja sér aðstoð við fíknisjúkdómum leita til SÁÁ.

Óvéfengjanlegt er að áfengis- og vímuefnameðferð ber árangur. Afrakstur hennar er hverri þjóð til hagvaxtar sem kemur fram á öllum sviðum mannlegs samfélags. Brýnt er að standa vörð um þá miklu reynslu og þekkingu sem SÁÁ hefur byggt upp. Rannsóknir sýna að engin úrræði skila jafn miklum og víðtækum árangri og góð meðferð. Ef auka á fjármagn á einhverju sviði sem fæst við áfengis- og vímuefnasjúkdóminn eða afleiðingar hans ætti það fyrst og fremst að vera á sviði meðferðar. Sjúklingar í bata eru ómetanleg verðmæti og það fé sem lagt er í meðferð skilar sér margfalt til baka.

SÁÁ hefur ávallt reist sinn húsakost án þess að þiggja fé úr opinberum sjóðum. Sjúkrahúsið Vogur, Meðferðarheimilið að Vík og Göngudeild SÁÁ við Efstaleiti eru allt byggingar sem reistar eru fyrir sjálfsaflafé. Þetta hefur verið hægt því velvilji í garð SÁÁ er mikill hjá þjóðinni. Þjóðin veit hversu mikilvægt það er að hafa gott aðgengi að faglegri áfengis- og vímuefnameðferð og flestir Íslendingar eiga einhvern nákominn sér sem hlotið hefur nýtt líf vegna þessa góða aðgengis. SÁÁ leitar því sem fyrr til þjóðarinnar til hjálpar. Söfnunarátak er hafið og viðbrögð landsmanna hafa verið góð. En betur má ef duga skal og hvetjum við fólk til að taka söfnuninni vel og leggja fram hjálparhönd.  Við vitum öll að veiku fólki þarf að sýna nærgætni og virðingu. Enginn sjúklingur, hvaða sjúkdómi sem hann er haldinn, hefur gott af því að vera geymdur í gámi úti á Granda.

Áfram Vogur!

Páll Geir Bjarnason
Áfengis- og vímuefnaráðgjafi og Dagskrárstjóri SÁÁ á Vogi

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *