Fyrir nokkrum áratugum síðan var starfrækt í heimabæ mínum veitingastaður, þar sem var einnig lítil sjoppa. Matsalan eins og þessi stofnun var kölluð dags daglega hafði uppá fleira að bjóða, þar sá ég í fyrsta sinn spilakassa. Háreistur og glansandi stóð hann og hafði yfir sér þá dulúð sem einungis forboðnir hlutir hafa og nokkrum sinnum fékk maður að setja tíkall í og slá hann inn með virðulegri sveiflu. Aldrei fór það svo að ég auðgaðist á viðskiptum mínum við kassann en það var allt til að styðja góðan málstað, smá plástur á sálina fyrir tapaðan aur. Þetta rifjast stundum upp fyrir mér þegar til mín leitar fólk sem á í spilavanda, fólk sem er stundum á barmi sturlunar vegna þess að það hefur spilað frá sér allt, ekki bara peninga heldur líka fjölskyldu vini, atvinnu og stöðu sína í samfélaginu.
Gera verður skýran greinarmun á sjúklegri spilaáráttu og fjárhættuspili til skemmtunar. En hver er munurinn? Spilafíkn er allt annað en hafa gaman af fjárhættuspili og heldur ekki það sama og eyða til þess miklu fé. Margir sem ég hef rætt við um spilafíkn virðast vaða í þeirri villu að spilafíkill spili sér til óbóta vegna skemmtunar eða af því honum finnist svo gaman að spila. Þetta er jafn fjarlægt sannleikanum og að tunglið sé gert úr osti.
Spilafíkn er mjög illvígur sjúkdómur sem krefst sérhæfðar og markvissrar meðhöndlunar. Það varð oft hlutskipti áfengisráðgjafa og annarra sem komu að vímuefnameðferð að koma spilafíklum til hjálpar því spilafíkn er vel þekkt samfara vímuefnafíkn. Fljótlega kom í ljós að spilafíklar höfðu sérstakar þarfir sem þurfti að koma til móts við þó að margt í vímuefnameðferðinni ætti ágætlega við. Nokkrir ráðgjafar sérhæfðu sig í að hjálpa spilafíklum og upp úr miðjum sjöunda áratugnum var fyrsta sérhæfða meðferðin fyrir spilafíkla sett á laggirnar í Bandaríkjunum. Hún hefur síðan þróast og skapast hefur traustur þekkingargrunnur á spilasjúkdómnum sem byggður er á læknisfræði, félagsfræði og sálfræði.
Spilafíkn hefur verið eitt af viðfangsefnum vímuefnameðferðar SÁÁ frá upphafi og uppúr 1990 var farið að taka sérstaklega á henni í meðferð. Árið 1992 gerði SÁÁ tilraun til að koma sérstaklega til móts við þarfir spilafíkla. Boðið var upp á viðtöl við ráðgjafa sem aflað höfðu sér sérþekkingar á spilafíkn og einnig var sett á laggirnar hópastarf. Frá upphafið var lagt mikið upp úr því að afla fræðslu og ráðlegginga frá færustu sérfæðingum á þessu sviðið og má þar nefna Robert Hunter, Ph.D og Howard O. Cornbleth, báðir brautryðjendur á sviðið spilafíklameðferðar. Þetta hefur skilað því að í dag leita til SÁÁ um 60 einstaklingar á ári sem greinast með spilafíkn. Þeir fá sérhæfða þjónustu sem veitt er mest megnis af ráðgjöfum sem leitað hafa sér menntunar á þessu sviði.
Aðal vandi spilafíklameðferðar er að fá þann sem er haldinn sjúkdómnum til að haldast í meðferð. Spilafíkill sem leitar sér hjálpar er oftast yfirkominn af skömm, óttast að vera dæmdur af samfélaginu og á við margháttaða fjárhagslega, félagslega og sálfræðilega erfiðleika að etja. Hann þarf að takast á við þessa erfiðleika í samfélagi þar sem sjálfsagt þykir og eðlilegt að henda nokkrum krónum í spilakassa eða spila önnur fjárhættuspil.
Til þess að hann geti tekist á við batann þarf að byggja upp meðferðarsamfélag sem samanstendur af meðferðaraðilum (sérfræðingum), þeim spilafíklum sem hafa náð bata og þeim sem eru að leita sér hjálpar. GA samtökin eru nauðsynlegur hluti bata spilafíkilsins. Þar fær hann félagslega endurhæfingu, fræðslu og samfélag meðal jafningja.
Félag Áfengisráðgjafa hefur skrifað undir samstarfssamning við “National Council on Problem Gambling” og hefur þar með tækifæri til að notfæra sér þekkingu samtakanna á spilafíkn og getur boðið ráðgjöfum að taka þau próf sem ráðið bíður uppá. Eitt af megin markmiðum okkar er að gera félagsmönnum kleyft að afla sér þekkingar. Þetta höfum við m.a. gert með því að fá til landsins sérfræðinga sem hafa áratuga reynslu og menntun á sínu sviði. Einn af þessum sérfræðingum er Joanna Franklin sem er ein af virtustu leiðbeinendum spilafíkla ráðgjafar í heiminum. Með hjálp góðra aðila gátum við boðið henni til Íslands í nóvember á síðasta ári þar sem Joanna lagði áherslu á að spilafíklaráðgjöf krefst sérþekkingar, þolinmæði og stuðnings annarra fagaðila s.s. lækna og sálfræðinga.
