Opið bréf til Ágústs Ólafs Ágústssonar, Hörður Svavarsson, Vefur SÁÁ júlí 2007

Opið bréf til Ágústs Ólafs Ágústssonar alþingismanns

Þessi grein er rituð í formi opins bréfs til Ágústs Ólafs Ágústssonar sem var varaformaður Samfylkingarinnar þegar greinin var rituð.

Vorið 2007 mátti litlu muna að frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum væri samþykkt á Alþingi. Engin teljandi umræða var um málið í fjölmiðlum, andstaða lítil á þingi og í raun réð tímaskortur því að frumvarpið var ekki samþykkt. Sumarið 2007 hófst áróður fyrir þessu máli í nokkrum fjölmiðlum og var greinilega verið að undirbúa jarðveg fyrir komandi þing. Við einsleitum fréttaflutningnum brugðust Ari Mathíasson þáverandi framkvæmdastjóri hjá SÁÁ og undirritaður þáverandi vímuefnaráðgjafi og rannsakandi hjá SÁÁ. Má segja að viðbrögðin hafi markað upphaf almennrar og öflugrar andstöðu við frumvarp um sölu á áfengi í matvöruverslunum, sú andstaða átti drjúgan þátt í því að frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á Alþingi vorið 2008.

Greinin var send fjölmiðlum og Ágústi Ólafi Ágústsyni. Hún var fyrst birt á vef SÁÁ í júlí 2007.

19. júlí 2007 

Sæll Ágúst

Ég skrifa þér þessar línur sem flokksbróðir þinn og einn af fáum Áfengis- og vímuefnaráðgjöfum á Íslandi sem hafa starfsréttindi sem slíkir frá Heilbrigðisráðherra. Tilefnið er ummæli sem eftir þér eru höfð í Blaðinu í dag.

Þar er haft eftir þér að:

“…Sagan sýnir þó að þú nærð ekki að stýra neyslu almennings með opinberri verðlagningu, og hátt áfengisverð hér á landi hefur ekki leitt til þess að landinn fari betur með vín. Áfengisstefna, sem gengið hefur út á að takmarka aðgengi almennings að áfengi og halda verðlaginu háu er því gjaldþrota. Ég legg til að í staðin verði tekin upp áfengisstefna sem byggir fremur á forvörnum en bönnum.”

Það er í sjálfu sér er ekkert við það að athuga þó stjórnmálamaður hafi þá skoðun að áfengisverð sé of hátt. Það sjónarmið kanna að vera hluti af pólitískri heildarsýn einstaklingsins, einhverskonar lífssýn sem hver og einn hefur frelsi til að hafa í lýðfrjálsu landi. Þannig finnst sumum sem vilja lækka áfengisverð að einnig ætti að heimila sölu þeirra vímuefna sem fram til þessa hafa verið ólögleg á Íslandi, eins og áfengi eitt sinn var. Margir þeir einstaklingar sem aðhyllast slík sjónarmið hafa haft kjark til að halda þessum viðhorfum á lofti og er það e.t.v. til þess fallið að stuðla að frelsi einstaklingsins til hugsana og annarra athafna í víðara samhengi en takmarkast af umræðunni einni um lögleiðingu vímuefna. Þannig verða merkisberar umræðunnar gjarnan kunnir af frjálslyndum skoðunum og stundum frjálshyggju.

Ég veit ekki hvað rekur þig til að vilja auðvelda aðgengi að áfengi og það má einu gilda, þér er mín vegna frjálst að hafa þessar skoðanir. Hinsvegar koma fram rangfærslur eða öllu heldur vitleysur í yfirlýsingum þínum og það er slæmt.

Sagan sýnir að verðlagning hefur áhrif á neyslu almennings. Hækki verð dregur úr neyslu. Lækki áfengisverð eykst neysla með auknum fjölda ofdrykkjumanna. Enn fremur sýna hagtölur að samhengi er á milli hækkunar á áfengissköttum og verði og fækkunar vandamála sem rekja má til áfengisdrykkju. Þessar staðreyndir ganga þvert á það sem lesa má út úr yfirlýsingum þínum í Blaðinu í dag.

Áfengisstefna sem gengur út á að takmarka aðgengi er eitt af því fáa sem hægt er að fullyrða með óyggjandi hætti að er áhrifarík leið til að draga úr skaða af völdum áfengis. Heimildir eru einnig um að í áfengisbanni sem hér var við líði á seinustu öld fækkaði afbrotum svo mjög að fangageymslur í Reykjavík tæmdust og hægt var að nýta þær sem félagslegt búsetuúrræði. Þó ég vilji ekki fremur en þú mæla með bönnum er ofsagt að áfengisstefna sem takmarki aðgengi sé gjaldþrota.

Loks er vert að benda á að forvarnir eru mjög loðið og óljóst hugtak og áhrif þeirra illmælanleg. Nokkrum fjármunum er nú varið í svokallaðar forvarnir á Íslandi en þrátt fyrir það eykst áfengisneysla ár frá ári.

Með hliðsjón af ofangreindu má gera ráð fyrir að yfirlýsingar þínar í þessu máli séu vanhugsaðar eða að þú hafi notið slæmrar ráðgjafar. Aðgengi að upplýsingum um áfengismál er ágætt, má þar benda á Lýðheilsustöð og SÁÁ. Sérstaklega er vert að benda á: Áfengi – engin venjuleg neysluvara, sem er samantekt úr bókinni Alcohol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy “ En þessa samantekt má finna á slóð Lýðheilsustöðvar;

http://www.lydheilsustod.is/media/afengi/Afengi_engin.pdf

Eins og ég hef áður sagt veit ég ekki afhverju þú leggur svo mikið á þig til að hafa miklar skoðanir á áfengismálum. En ég hef tekið eftir því að þú ert vandaður og trúverðugur stjórnmálamaður og þessvegna má búast við að það sé tekið mark á þér þegar þú gefur út yfirlýsingar á borð við þær sem þú gafst í Blaðinu í dag.

Þér og öðrum stjórnmálamönnum sem vilja hafa svipaðar skoðanir á áfengismálum þarf að vera ljóst að aukið aðgengi táknar aukna neyslu áfengis. Það táknar aukna ofdrykkju með auknum sársauka fyrir börn, maka og aðra fjölskyldumeðlimi ofdrykkjumanna. Aukið aðgengi mun einnig tákna aukinn heilbrigðisvanda sem mun kosta aukin útgjöld til heilbrigðismála. Það er því til mikils að vinna.

Bestu kveðjur,

Hörður Svavarsson

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *