Nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa eftir Huldu M. Eggertsdóttur áfengis- og vímuefnaráðgjafa, CAC, MBL 1. febrúar 2014

Nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa

Sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi með löggildingu frá Landlæknisembættinu og með amerísku NAADAC-réttindin þá langar mig aðeins að upplýsa hvað felst í því að mega nota þessa titla.

Löggilt starfsheiti

Það var ekki fyrr en árið 2007 sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar fengu löggildingu frá landlækni eftir mikla baráttu meðal annars fagfélagsins FÁR, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, fyrir því að fá viðurkenningu á þessari fagstétt. Það er útbreiddur misskilningur að til þess að geta kallað sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé nóg að hafa drukkið slatta af áfengi eða reykt nokkur kíló af kannabis og vera góður AA-maður. Bara til að komast í kynningaviku fyrir starfsnámið þá fór ég í starfsviðtal hjá Þórarni Tyrfingssyni, yfirlækni á Vogi, Hjalta Björnssyni, dagskrárstjóra SÁÁ, og Sigurði Gunnsteinssyni, skólastjóra yfir starfsnáminu. Þetta eru menn sem hafa samanlagt yfir 100 ára reynslu og þekkingu á áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Sækja ráðstefnur erlendis árlega og taka þátt í alþjóðlegu starfi um áfengis- og vímuefnameðferð. Í mínu námi hef ég þurft að fara sífellt í gegnum mat og endurmat á þekkingu minni

Ég hef starfað í tæp sjö ár undir handleiðslu þessara og fleiri góðra manna og kvenna. Hvað þýðir það? Þeir hafa horft á mig halda fyrirlestra um fíknisjúkdóminn þar sem er farið inn á læknisfræði, geðlæknisfræði og sálfræðikenningar. Kennt mér viðtalstækni eins og motivational interviewing. Kennt mér á mannlegt eðli, að snúa mótþróa í samvinnu og vonleysi í von. Setið í meðferðarhópum og fylgst með mér vinna. Setið með mér í viðtölum. Bent mér á, gagnrýnt og stutt. Ég hef tekið þrjú skrifleg próf um almenna þekkingu í afeitrun og meðferðarvinnu, lyfjafræðipróf og próf um sálfræðikenningar og viðurkenndar aðferðir í meðferð. Í þessum prófum þarf maður að fá 7 til að ná og þetta eru krossapróf þar sem eru fjórir valmöguleikar og fleiri en einn getur verið réttur.

Starfsnámið

Í starfsnáminu þarf maður að vinna 6.000 tíma í meðferðinni, standast þessi þrjú próf, 200 tíma undir handleiðslu og sitja 300 fræðslutíma. Svo þegar maður sækir um til landlæknis þá fer það fyrir sérstaka nefnd. Auk þess að hafa farið í gegnum allt þetta þá þarf að fylgja með bréf þar sem segir að maður sé góð manneskja með gott siðferði og hafi öðlast þá þekkingu sem er krafist. Þetta var bara það sem maður þarf að gera til að fá réttindabréf frá landlækni.

Svo eru það NAADAC-réttindin. Þá þarf að gangast undir 250 spurninga krossapróf á ensku þar sem eru fjórir valmöguleikar, margir geta verið réttir en þá er það sá sem er réttastur. Í því prófi þarf að fá 7. Þetta próf kemur frá Bandaríkjunum og er sama prófið og tekið á sömu forsendum og ráðgjafar gera þar. Mjög strangar reglur eru um yfirsetu og próftökuna, svo er prófið sent út og farið yfir það þar. Íslensku ráðgjafarnir hafa verið að standa sig betur en þeir amerísku í þessu prófi þrátt fyrir að vera að taka próf á öðru tungumáli og vera að taka próf sem er sniðið að bandarískri menningu. Svo er það aðalprófið sem þarf að ganga í gegnum og það er að standast prófið gagnvart sjúklingnum. Það er á hverjum degi erfiðasta prófið og þeir eru miklu strangri en Þórarinn Tyrfings í einkunnagjöf. Maður fær annaðhvort 7 eða –10…

Þekkingin er til staðar

Að segja að nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé í ólestri og í skötulíki finnst mér óvægið. Áfengis- og vímuefnameðferðin er ung, læknisfræði er mörg þúsund ára gömul til að mynda. En meðferðin er alltaf að þróast og alltaf má bæta og laga. Ég fagna því að fólk berjist fyrir því. Eins þarf að styrkja stöðu þessarar starfsstéttar og standa vörð um þá miklu þekkingu sem hefur orðið til hérna á Íslandi. Það þarf til að mynda að fræða betur heilbrigðisstéttir um áfengis- og vímuefnafíkn. Því heilbrigðisstarfsfólk er oft í lykilaðstöðu að hafa áhrif á alkóhólista þannig að þeir leiti sér hjálpar fyrr. En þegar fólk stígur inn í meðferðina þá kannski áttar það sig ekki á hvað liggur að baki meðferðinni. Hugmyndafræðin, þekkingin á bak við og hvað ráðgjafinn hefur þurft að læra. Þetta er ekki eitthvað sem við finnum upp á, á kaffistofunni og notum handahófskennt. Vissir þú þetta?

Höfundur er áfengis- og vímuefnaráðgjafi CAC hjá SÁÁ-sjúkrastofnunum.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *