Menntunar og réttindamál, grein eftir Hjalta Björnsson CAC, MBL apríl 2006

Miðvikudaginn 22. mars síðastliðinn fóru fram umræður á háttvirtu Alþingi Íslendinga um áfengisráðgjafastarfið. Tilefni umræðnanna var fyrirspurn frá Valdimari L. Sveinssyni alþingismanni til heilbrigðisráðherra um hvernig þessum málum er háttað. Þessi umræða er löngu tímabær og að því er mér sýnist lagalega aðkallandi, því samkvæmt 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, segir að landlæknir eigi að hafa eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Einnig segir í 36 gr. sömu laga að ráðuneytið skuli í samvinnu við menntamálaráðuneytið, Háskóla Íslands, landlækni og hin ýmsu stéttarsamtök heilbrigðisstarfsmanna, eftir því sem við á, stuðla að aukinni þekkingu og endurbót á grunn- og framhaldsmenntun heilbrigðisstarfsmanna í samræmi við þarfir landsmanna á hverjum tíma. Skal það enn fremur í samvinnu við ofangreinda aðila stuðla að viðhaldsmenntun heilbrigðisstarfsmanna. 

Það kann því að skjóta skökku við að engar eru reglurnar um störf áfengisráðgjafa og hverjar kröfur eru gerðar til menntunnar þeirra. Hvernig á að líta eftir einhverju sem enginn veit hvað er? Er það raunverulegur vilji okkar?

Það er eindregin ósk allra í FÁR og nauðsynlegt til gæðastýringar í heilbrigðiskerfinu að settar verði reglur um þær kröfur þær sem gerðar eru til þeirra sem kalla sig áfengis og vímuefnaráðgjafa. Þessar kröfur þurfa að ná til menntunnar, starfsreynslu og handleiðslu. Reglurnar þurfa einnig að vera skýrar um það hverjir eru hæfir til að sjá um kennsluna.

Frá upphafi hefur það verið eitt af markmiðum félags áfengisráðgjafa að auka þekkingu og færni áfengisráðgjafa og efla fagmennsku þeirra. Einnig er FÁR sameiginlegur vettvangur félagsmanna til að vinna að því að minnka fordóma og auka skilning í íslensku þjóðfélagi gagnvart fíknisjúkdómum.
Félag áfengisráðgjafa hefur á undanförnum árum ítrekað lagt til við bæði heilbrigðisráðherra og landlækni að starfsheiti áfengis- og vímuefnaráðgjafa verði löggilt af heilbrigðisráðherra en eins og þessum málum er nú háttað eru engar formlegar kröfur gerðar til þeirra sem vilja kalla sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa af hálfu heilbrigðisráðuneytisins. Hver sem er getur kallað sig áfengis og vímuefnaráðgjafa.

Fyrir þá sem eiga við áfengis- eða vímuefnavandamál að stríða skiptir þjónusta áfengisráðgjafa miklu máli, sömuleiðis fyrir fjölskyldur þeirra, og raunar þjóðina alla. Tilgangurinn með því að setja lög um starfsréttindi þessara aðila er m.a. að vernda þá sem leita eftir þjónustu áfengisráðgjafa. Að þeir geti gengið að því vísu að sá sem kallast áfengis- og vímuefnaráðgjafi hafi hlotið menntun og próf í viðurkenndum fræðum um áfengis- og vímuefnameðferð, auk starfsreynslu á því sviði. Þetta snýst því ekki um þann sem er ráðgjafi heldur sjúklinginn.

Löngu er tímabært að sett verði lög um kröfur til þeirra sem vilja kallast áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Stjórn FÁR hefur árum saman óskað eftir samvinnu um slíka lagagerð. Eitt af fyrstu verkum FÁR eftir stofnun félagsins 1994 var að óska eftir viðræðum um útgáfu starfsréttinda til félaga sinna.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *