Nýlega birtust tvær greinar með viku millibili í Morgunblaðinu eftir þær Sæunni Kjartansdóttur og Sigrúnu Júlíusdóttur. Í greinunum rekja þær í stuttu máli hvernig ráðgjafahugtakið hefur verið eyðilagt og er í dag ofnotað og rangnotað ef ekki misnotað. Ég ráðlegg öllum sem hafa áhuga á faglegum málum og velferð skjólstæðinga sinna að lesa greinarnar. Í meginatriðum er ég sammála því sem þær skrifa að það er mikil þörf á opinberu eftirliti og reglum um það hvernig fólk öðlast rétt til að kalla sig fagmann.
Áfengisráðgjöf er gott dæmi um það, að hver sem er getur kallað sig áfengisráðgjafa. Til að kalla sig áfengisráðgjafa þarf margra ára menntun og handleiðslu, brjóstvitið og gott hjartalag er ekki nóg. Sjálfur ætla ég að þrengja umræðuna ögn og líta aðeins á hvernig þessum málum er háttað hjá áfengisráðgjöfum og aðeins kynna félag áfengisráðgjafa, FÁR. Áfengisráðgjafanafnið varð til fljótlega eftir stofnun SÁÁ. Þessir starfsmenn urðu þar hluti af meðferðarteyminu og störfuðu undir skipulagðri handleiðslu og stjórn fagfólks s.s. lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. Þeir fengu þjálfun til að gera ákveðna verkþætti inni í meðferðinni og nýttust mjög vel. Þessir nýju ófaglærðu starfsmenn höfðu ekkert formlegt starfsheiti fyrst, en voru kallaðir leiðbeinendur eða ráðgjafar á víxl. Fljótlega festist nafnið “ráðgjafi eða áfengisráðgjafi” við þá. Það var þó aldrei tilgangur eða hugmynd SÁÁ að þessir einstaklingar færu að starfa sjálfstætt eða einir, enda þjálfun þeirra og menntun þannig uppbyggð að þeir störfuðu í þverfaglegu teymi meðferðarinnar. Eftir því sem árin hafa liðið hefur menntun ráðgjafa aukist mjög og í dag eru margir ráðgjafar með réttindi NAADAC “National Association of Alcohol and Drug Addiction Counselors”
Einyrkjar í heilbrigðisþjónustu þurfa gríðarlega menntun og gera þarf miklar kröfur til þeirra. Þetta er öllum ljóst. Flestir sem starfa sjálfstætt í heilbrigðiskerfinu hafa lokið margra ára námi í háskóla og auk þess fengið margra ára þjálfun og handleiðslu sérfræðinga. Þetta hefur okkur í félagi áfengisráðgjafa verið ljóst og þess vegna eru kröfur til þeirra sem ætla að verða áfengisráðgjafar miklar. Til að taka réttindapróf þarf að hafa starfað í fjögur til sjö ár á stofnun sem uppfyllir viss skilyrði eftir því hvaða réttindi er sóst eftir. Réttindin eru þrenns konar, stig I sem er almennt og allir geta tekið sem hafa fengið tilskylda fræðslu og handleiðslu auk þess að standast réttindapróf NAADAC, stig II og MAC, “Master Alcohol Conselor” eru hinsvegar viðbótarnám við annað formlegt háskólanám. Félagsráðgjafar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og fleiri geta tekið MAC prófið hafi þeir áður lokið meistaranámi. Stig II geta þeir tekið sem lokið hafa BA námi eða sambærilegu. Réttindi þau sem FÁR er að bjóða uppá eru miðuð við það að fólk sé starfandi í teymi sem býr yfir þeirri þekkingu sem skjólstæðingurinn þarf á að halda. Það er grundvallaratriði í allri þjálfun og kennslu að ráðgjafinn kunni ekki allt og geti ekki allt. Í því felst fagmennska áfengisráðgjafa meðal annars, að vita hvað þeir geta tekið að sér og hverju ber að vísa til annarra sérfræðinga. Réttindi áfengisráðgjafa eru ekki klínísk sérfræðiréttindi eins og þau eru skilgreind og því geta þeir ekki tekið að sér sjálfstæð meðferðarstörf.
Nýlega fór FÁR fram á það við landlækni, menntamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að hefja nú þegar samstarf við Félag áfengisráðgjafa um að skilgreina starfsréttindi áfengisráðgjafa og meta hvaða nám þurfi að liggja að baki því að heilbrigðisráðherra geti gefið út lögvernduð starfleyfi til þeirra sem vinna að meðferð áfengissjúklinga og kalla sig áfengisráðgjafa og hvernig eftirliti með því yrði háttað. Þetta er löngu tímabært og er forgangsverkefni stjórnar FÁR.
Eins og er getur hver sem er kallað sig áfengisráðgjafa eða fjölskylduráðgjafa, engin starfsleyfi eru til og engar reglur um það hvernig störfum þeirra er háttað. Þess vegna fagna ég allri umræðu um þessi mál og vona að hún leiði til framfara og breytinga. Félag áfengisráðgjafa er tilbúið í þessa umræðu og er félagið með mótaðar hugmyndir um það hvernig þessum málum yrði best háttað hér á landi.
Félag áfengisráðgjafa FÁR, er sterkt fagfélag sem hefur áunnið sér traust og virðingu meðal virtra fagfélaga erlendis. Félagið hefur sínar eigin siðareglur fyrir félagsmenn og sérstakt siðaráð sem tekur á málum sem upp geta komið. Innan FÁR eru vel menntaðir áfengisráðgjafar sem eru hluti af heilbrigðiskerfinu og veita þar dýrmæta þjónustu. Í félaginu eru auk ráðgjafa, læknar og hjúkrunarfræðingar.
Hægt er að nálgast upplýsingar um Félag áfengisráðgjafa á vefsíðu félagsins www.far.is. Þar eru einnig upplýsingar um prófin sem félagið býður uppá og þjálfunina sem þarf til að fá að taka prófin. Hægt er að nálgast félagið á netfanginu far@far.is