Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum um áfengis- og vímuefnameðferð undanfarið og sýnist þar sitt hverjum. Undirritaður hefur starfað við áfengis- og vímuefnaráðgjöf síðan 1997 og hefur séð miklar breytingar á starfi áfengis- og vímuefnaráðgjafa og því meðferðarumhverfi sem hefur verið byggt upp á Íslandi undanfarin þrjátíu ár. Meðferðarumhverfi þar sem tilvera SÁÁ hefur verið hrygglengjan í því að aðstoða einstaklinga sem eru veikir af áfengis- og vímuefnafíkn. Ekki ætla ég mér að fara að munnhöggvast við starfsmenn annarra aðila sem vilja láta gott af sér leiða en ástæðan fyrir því að ég set þessi orð á blað er að nokkurs misskilning virðist gæta varðandi meðferð SÁÁ, á hverju hún er byggð og hvernig hún varð til.
Í ársskýrslu SÁÁ fyrir árið 2005 segir á bls 16.
„Frá upphafi hefur SÁÁ litið svo á að áfengis- og vímuefnafíkn sé sjúkdómur. Hlutverk samtakanna er að vinna að því að í landinu sé besta fáanlega meðferð fyrir vímuefnafíkla og aðstandendur þeirra.
Samtökin reka sérhæfðar sjúkrastofnanir og ráða fagfólk til starfa. Hugmyndafræði þessa fagfólks er fyrst og fremst sú, að standa föstum fótum í læknisfræði, sálarfræði og félagsvísindum og samtvinna þetta þrennt með það að markmiði að búa til heilstæða áfengis- og vímuefnameðferð sem býður upp á fjölbreytta möguleika og kemur til móts við sem flesta. Í meðferðinni er reynt að sameina heilbrigðisþjónustu og félagslega endurhæfingu og aðstoð. Hugmyndagrundvöllurinn er fyrst og fremst vísindalegar rannsóknir á sviði heilbrigðisþjónustu, sálarfræði og félagsvísinda.“
Í Blaðinu 20. janúar s.l. fullyrðir Heiðar Guðnason forstöðumaður Samhjálpar að meðferð SÁÁ sé byggð á sporum AA samtakanna. Það er einfaldlega ekki rétt og lýsir kannski vanþekkingu fólks á því hvað meðferð er og hvað ekki. Hefði Heiðar haft fyrir því að kynna sér meðferð SÁÁ þá hefði honum orðið ljóst að það er regin munur á því að fræða áfengis- og vímuefnasjúklinga um AA samtökin, hvetja þá til að notfæra sér þjónustu þeirra og því að ætla að meðferða fólk samkvæmt þekkingu sem var góð og gild fyrir miðja síðustu öld.
Þeim sem vilja kynna sér AA samtökin og hugmyndafræði þeirra er bent á mjög góða grein eftir Hjalta Björnsson NCAC sem er að finna á vef Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa og einnig er hægt að kynna sér þróun meðferðar á vef SÁÁ www.saa.is en þar er ritað um meðferð:
„Þekking á áfengissýki- og vímuefnafíkn hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin 25 ár. Munar hér mestu um undraverðar framfarir í þekkingu okkar á uppbyggingu og starfsemi heilans og áhrifum vímuefna á hann.“
Vímuefnasjúklingur sem kemur til meðferðar kemur ekki vegna þess að hann hafi um það fullkomlega frjálst val. Hann kemur til meðferðar vegna þess að valkostum hans til að lifa eðlilegu lífi hefur fækkað eftir því sem sjúkdómurinn þróast. Sjálfsmyndin hefur orðið fyrir barðinu á sjúkdómnum og hugrekkið til að takast á við daglegt líf án vímuefna fer þverrandi.
Það að efla trú fólks og skilning á sjálfu sér er mikilvægara en fá það til að vitna í Heilaga ritningu og leita svarar þar eins og gert er á sumum stöðum. Við skulum ekki gleyma því að Biblían er byggð á texta sem ekki hefur breyst í árþúsundir og hugmyndafræðin sem birtist í þeirri góðu bók er byggð á þekkingu sem fólk hafði þegar textinn var ritaður. Í grunninn gildir hið sama um texta AA. Meðferð SÁÁ hefur byggst á þeirri vísindalegu þekkingu sem liggur fyrir á hverjum tíma m.a. í líffræði, sálarfræði, félagsvísindum og læknisfræði.
Kjarkleysi og kvíði eru afleiðingar síversnandi vímuefnasjúkdóms en ekki ástæða fyrir neyslu. Það er okkar fagfólks að skoða á hlutlausan hátt og með augum vísindanna hvað er að gerast og hvernig. Það felur í sér að leggja verður á hilluna hverskonar fordóma og siðferðilega mælikvarða og einbeita okkur að vinna með það sem við vitum en gleyma okkur ekki í óskhyggju og því sem við viljum.
Vímuefnasjúklingar eru í upphafi batans mjög háðir meðferðaraðilanum. Þar sækja þeir hvatningu, fyrirmyndir og dómgreind. Þetta hafa mörg trúarsamtök og siðlausir einstaklingar notfært sér til að stýra sjúklingum til þess lífs sem þau vilja en ekki til þess lífs sem einstaklingurinn velur sér sjálfur. Þetta er vel þekkt og rannsakað og má benda á bækur Leo Booths, s.s.When God Becomes a Drug ofl., þessu til stuðnings. Það væri afar heimskulegt að ætla að þetta ætti ekki við í svipuðum aðstæðum á Íslandi. Grundvallargildi SÁÁ er að finna á vef samtakanna www.saa.is
„Samtökin eru laus við fordóma og hvers konar ofstæki, enda byggist starf þeirra á læknisfræðilegri þekkingu og virðingu fyrir fólki. SÁÁ vinnur sína vinnu í hljóði og með þeirri ábyrgð sem hæfir viðfangsefninu. Ódýrar patentlausnir og innantóm slagorð hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá SÁÁ.“
Að lokum vil ég hvetja þingmenn og ráðherra til að leita sér upplýsinga hjá fagaðilum sem mesta reynslu hafa á þessu sviði í landinu en láta ekki undan þrýstingi um ódýrar skyndilausnir sem leiða til þjáninga þeirra sem síst skyldi.
