Lyf og lyfjafíkn, grein eftir Hjalta Björnsson CAC, MBL júní 2005

Nýlega birti SÁÁ tölur úr sjúklingabókhaldi sínu og um umfang starfsemi sinnar. Þetta er árlegur viðburður og hefur verið gert með svipuðum hætti áratugum saman. Þannig er hægt að sjá í þessum tölum breytingar sem eru að verða á neyslu vímuefna. Hvaða efni eru að koma inn ný og einnig breytingar á umfangi eldri efna. Tölur þessar eru ekki kannanir heldur beinharðar upplýsingar um það hversu margir þurfa að leita sér aðstoðar vegna hinna ýmsu efna. Allt er skráð þannig að hægt er að skoða neyslu hvers efnis út frá kyni og aldri neytandans. 

Meðal annars má sjá í þessum nýju tölum að vaxandi fjöldi þarf að leita inn á Vog vegna lyfjafíknar. Með öðrum orðum þá eru fleiri og fleiri að koma inn á Vog til að afeitrast vegna neyslu lyfja sem eru ávísuð af læknum. Sem áfengisráðgjafa hlýtur það að vera mér umhugsunarefni þegar vaxandi fjöldi fólks þarf að koma inn á Vog til afeitrunar vegna lyfjafíknar. Það er umhugsunarvert fyrst og fremst vegna þess að hluti af þessum vanda er heimatilbúinn.

Þrjár meginleiðir eru til þess að verða háður róandi ávanalyfjum. Ein þeirra er að gæta ekki að ávanahættu þessara lyfja þegar þau eru notuð við kvíða eða svefnleysi. Fullorðið fólk er í mikilli hættu varðandi þessa leið og mikill fjöldi leitar til SÁÁ, af þessum ástæðum. Vandinn birtist þá þannig að fólk er að detta og slasa sig eða er orðið mjög sljótt og viðutan. Aðstandendur koma gjarnan og eru ekki vissir um hvað er að, hvort um byrjandi heilabilun er að ræða eða hvað. Önnur leið er að nota lyfin endurtekið til að komast í vímu af þeim með eða án annarra vímuefna. Það eru einkum konur sem eru í þeim hópi og eru þá gjarnan með marga lækna á sínum snærum. Lífið snýst þá meira og minna um það að eltast við lækna og verða sér úti um lyf. Dæmi eru um einstaklinga sem eru með tugi lækna sem leitað er til. Þriðja leiðin er að nota þessi lyf til að slá á fráhvörf vegna annarra vímuefna. Stærstur hluti þeirra fíkla eru stórneytendur örvandi efna. Nota þeir þá lyfin til að ná sér niður af örvandi efnum eða til að slá á geðveikiseinkenni eftir slíka neyslu. Hver svo sem leiðin er, þá verða þessir einstaklingar mjög háðir lyfjunum og fara í mikil fráhvörf þegar neyslu þeirra er hætt. Lífhættulegt ástand getur skapast við þessar aðstæður. Engin leið er að afeitrast og hætta á þessum lyfjum nema á sjúkrahúsi undir læknishendi.
Morfínfíkn er þrálát og ill viðureignar. Áfengisráðgjöfum og öðru meðferðarfólki hefur verið það ljóst lengi. Lengi vel voru meðferðarmöguleikar ekki miklir og árangur lítill hjá þeim sem ánetjuðust morfínefnum. Miklar framfarir hafa orðið hin síðari ár hvað varðar möguleika þeirra, sem eru háðir ópíumlyfjum eða morfíni, að ná árangri. Þar ber hæst lyfjameðferð sem fer fram samhliða félagslegri endurhæfingu. Meðferðin er í daglegu tali nefnd viðhaldsmeðferð. Viðhaldsmeðferð felst í því að sjúklingurinn fær lyf sem halda frá fíkn og fráhvörfum þannig að endurhæfingin geti hafist. Einstaklingurinn er ekki í vímu og getur tekið þátt í vinnu og námi. Þessi lyf eru gefin undir eftirliti hjúkrunarfólks og lækna. Stór hópur fólks sem er í þessari meðferð, er í dag að ná árangri í fyrsta sinn og sumir þeirra eru starfandi og hæfni þeirra vex dag frá degi. 
Sem fagmaður tók ég þessari nýju meðferð með eðlilegum fyrirvara. Þannig var um flesta sem vinna af ábyrgð og festu að vímuefnalækningum. Með árunum fjölgar rannsóknum sem sýna að þetta er besta og öruggasta leiðin sem til er í dag. Þeir sem fá þessa meðferð deyja síður en þeir sem fá hana ekki. 

Höfundur er dagskrárstjóri hjá SÁÁ og hefur starfað sem áfengisráðgjafi í 18 ár

Viðhaldsmeðferð eins og hún er stunduð á Vogi er eitt mesta framfaraspor sem orðið hefur í lækningum ópíumfíkla sem nánast voru vonlausar áður. Tugir einstaklinga eru í dag í bata og í framför. Þessir einstaklingar og fjölskyldur þeirra eru í dag að öðlast von um nýtt og innihaldsríkt líf. Það er því sorglegt að vita til þess að ekki fáist nægjanlegir peningar til þessarar meðferðar og að takmarka þurfi aðgang þeirra sem þurfa á þessari meðferð að halda. 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *