Hvaðan kemur þessi meðferð? Grein Harðar Svavarssonar, MBL, nóvember 2004

Hvaðan fáið þið þessa meðferð. Hvernig var þessi áfengismeðferð búin til? Hver fann upp á þessari meðferð? Þeir sem starfa að áfengislækningum, læknar, vímuefnaráðgjafar og hjúkrunarfólk, eru gjarnan spurðir að svona spurningum. Sumir eru uppnumdir yfir þeim nýju hugmyndum sem að þeim er rétt þegar þeir koma til meðferðar, eru í einhverskonar vakningu og vilja vita meira. Aðrir eru eðlilega gagnrýnir og vilja ekki krukka í hugmyndaheim sinn nem vita á hverju fræðslan byggir. Svo eru þeir sem telja sig vita hverjar forsendur vímuefnameðferðarinnar eru, hún snúist eingöngu um 12 spor AA, hún sé frá Minnesota, eða þá hún sé svokallaður heilaþvottur, en þegar á hólminn er komið stangast eitthvað í fræðslunni og leiðbeiningunum á við þessar hugmyndir. 

Það er því eðlilegt að sjúklingar sem koma til meðferðar vegna alkahólisma eða annarrar vímuefnafíknar spyrji að því hvaðan meðferðin komi. Það er stórt spurt, en til er einhlítt og einfalt svar. Meginþorri þeirra sem sækir í vímuefnameðferð á Íslandi, leitar til SÁÁ og leggst inn á sjúkrahúsið Vog. Þangað kemur fjórði hver karlmaður í Íslandi fyrir sjötugt og þá er hver einstaklingur aðeins talinn einu sinni, en ekki eins og viðskiptavinur í Kringlunni sem eru talinn í hvert sinn sem hann kemur inn í húsið. Það er stór hluti þjóðarinnar sem leitar sér lækninga hjá SÁÁ og við getum staðfest hvaðan meðferðin þeirra kemur.

Meðferðin hjá SÁÁ kemur úr vísindunum. Læknateymi samtakanna er hámenntað fólk sem tryggir að það sem sett er inn í meðferðina byggir á læknisfræðilegum grunni. Til að læknisfræðin samþykki úrræði, þurfa að liggja fyrir sannfærandi rannsóknir og niðurstöður sem gefa til kynna að rétt sé að beita viðkomandi úrræði. Það er fyrst og fremst læknahópurinn, sem stendur vaktina og skoðar nýjar rannsóknarniðurstöður víða að, vegur þær og metur. Þetta tryggir að meðferðin geti þróast. Ef hún byggði á einhverju öðru, til dæmis því að við vissum að 12 spor AA virkuðu og ekkert annað, eða ef hún byggði eingöngu á sérstökum trúarlegum hugmyndum hefðum við höndlað einhvern algildan sannleik. Þá kæmist ekkert nýtt að. Þá stæði þróun meðferðarinnar í stað, meðferðin væri stöðnuð.

Áfengissjúklinga og aðrir vímuefnafíklar á Íslandi eru margir. Um tvö þúsund og fjögur hundruð sjúklingar eru lagðir inn á Vog árlega. Eins og á öðrum heilbrigðisstofnunum starfa með læknunum aðrar heilbrigðisstéttir hjá SÁÁ. Á Vogi starfa sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og áfengisráðgjafar. Sú stétt sem starfar í nánustum tengslum við sjúklingana og ber hitann og þungann af því að koma meðferðinni á framfæri eru ráðgjafarnir. Það gefur því auga leið að áfengisráðgjafinn þarf að vera vel að sér og vera þeim kostum búinn að geta miðlað þekkingu sinni. Starf hans skarast bæði við uppeldis og fræðslustéttir annarsvegar og almennar heilbrigðisstéttir hinsvegar. Áfengisráðgjafinn þarf að þekkja vel til fíkniefna, áhrifa þeirra og afleiðinga af notkun þeirra. Hann þarf að kunna nokkur skil á lyfjafræði og sama má segja um líffræði. Ráðgjafinn þarf að hafa innsýn í sálarfræði og geðsjúkdómafræði. Hann þarf að vera vel að sér í þeim aðferðum sem reynst hafa vel til að drepa í dróma þann lífhættulega sjúkdóm sem áfengissýki er. Áfengis- og vímuefnaráðgjafinn þarf að vera fræðari og fyrirmynd.
Hluti íslenskra áfengisráðgjafa fær ágæta kennslu, það er a.m.k. sá hluti sem starfar hjá SÁÁ, þeir undirgangast nokkra akademíska fræðslu og verulega verklega kennslu og þjálfun. SÁÁ hefur haft frumkvæði að þessari fræðslu, en heilbrigðis og menntayfirvöld gera enga kröfu um menntun áfengisráðgjafa. Og gera enga kröfu um að þeir, sem vinna við áfengismeðferð hjá öðrum aðilum kunni eitthvað fyrir sér. Það er bæði móðgun og lítilsvirðing við þann stóra hóp manna, sem er með áfengis- eða aðra vímuefnasýki. Raunar er það svo að áfengisráðgjafar teljast ekki til heilbrigðisstétta, því eins og Landlæknisembættið lítur á málin, teljast þær stéttir til heilbrigðisstétta sem njóta lögverndaðs starfsheitis. Áfengisráðgjafar eru ekki ein af þeim stéttum.

Það eru þrjátíu starfsstéttir sem njóta lögverndaðs starfheitis og þurfa starfsleyfi heilbrigðisráðherra til starfa. Það eru að sjálfsögðu læknar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar. Það eru einnig fótaaðgerðafræðingar, sjóntækjafræðingar og sjúkraflutningamenn, en ekki áfengisráðgjafar. Það eru tannfræðingar, tanntæknar og aðstoðarmenn tannlækna, en ekki áfengisráðgjafar. Það eru matvælafræðingar, næringarráðgjafar og matartæknar, en ekki áfengisráðgjafar. Þessari upptalningu er ekki lokið en niðurstaðan er augljós. Það þarf sérstaka menntun, og það eru gerðar ákveðnar og strangar kröfur, af heilbrigðisyfirvöldum, til þeirra sem starfa innan heilbrigðiskerfisins. Undantekningin eru áfengisráðgjafar. Það er erfitt að koma auga á ástæðu fyrir þessari afstöðu, nema ef vera skyldi undarleg viðhorf yfirvalda til alkahólisma.

Samstarfsvettvangur áfengisráðgjafa er Félag áfengisráðgjafa – FÁR. Það ber að tryggja alkahólistum og öðrum fíklum bestu fáanlegu meðferð. Þess vegna verður Félag áfengisráðgjafa að gera mjög ákveðna kröfu um lögverndun starfheitis og stjórnvöld verða að bregðast við þeirri kröfu. Í dag sitja alkahólistar ekki við sama borð og aðrir sjúklingar í Íslenska heilbrigðiskerfinu.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *