Hvað gerir áfengisráðgjafi? Grein Magnúsar Einarssonar, CAC, MBL, desember 2004

Undanfarnar vikur hefur margt verið ritað um menntun, gildi og stöðu áfengisráðgjafa á Íslandi og langar mig að leggja orð í belg. 

Þegar ég er stundum spurður að því hvernig gangi að þurrka upp “liðið” á Vogi þá svara ég að það gangi vel, stóri þurrkarinn sé stöðugt í gangi og allar snúrur fullar. Ég pirra mig á því hve fáránlega er spurt og sný mér að öðru. Það er kannski ekki við því að búast að allir viti hvað það er sem ég geri í vinnunni. 

Áfengisráðgjöf er ekki gömul starfsgrein en hefur samt tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Fyrstu áfengisráðgjafarnir voru nær undantekningalaust alkóhólistar sem höfðu eigin reynslu af meðferð og sumir „lentu“ í þessu því þeir vildu gefa til baka það sem þeim hafði verið gefið. Ekki var mikið hugsað um launin í krónum og aurum heldur var það eldmóðurinn sem rak þá áfram, oft í mjög neikvæðu og fordómafullu umhverfi. Það varð íslenskum áfengisráðgjöfum til happs að þeir voru í mjög nánu og persónulegu sambandi við starfsbræður sína í Bandaríkjunum og fengu tækifæri til að mennta sig og auka færni sína með heimsóknum á meðferðarstaði þar í landi, oft á eigin kostnað og með mikilli fyrirhöfn.

Ein af stærstu breytingum í velferðarmálum alkóhólista var tilkoma AA samtakanna árið 1935. Bill W. og Dr Bob, stofnendur AA samtakanna, lögðu strax mikla áherslu á mikilvægi þess að afla þekkingar á alkóhólisma og efla meðferðarstarf. Þekking á viðfangsefninu er grundvöllur þess að árangur náist og ekki er nóg að sú þekking spretti upp af sjálfri sér hún þarf að þola vísindalega skoðun og samræmast vísindalegum vinnureglum. Þetta er það sem áfengisráðgjöf byggir á.
Áfengisráðgjafar eru ekki einungis góðhjartaðir alkar sem vilja hjálpa öðrum heldur heilbrigðisstarfsmenn sem byggja á vísindalegum grunni læknisfræði, sálarfræði og félagsfræði. Þessa þekkingu þarf áfengisráðgjafi að tileinka sér, en samt er það svo að ekki geta allir unnið við áfengiságjöf þrátt fyrir góða menntun. Grunn gildin eru þau sömu og hjá fyrstu áfengiságjöfunum, að vilja láta gott af sér leiða og virðing fyrir einstaklingum og rétti hans til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þegar við byrjum að vinna þá þurfum við að fara í gegnum strangt þjálfunar og skoðunarferli, þar sem við þurfum að sýna að við getum lært, tileinkað okkur þekkingu og fáum tækifæri að máta okkur í starfið. Margir heltast úr lestinni af ýmsum ástæðum, stundum eru væntingar til starfsins aðrar en í raun reynist eða vinnuálagið of mikið.

Margir halda að starf ráðgjafans felist að mestu í því að gefa ráð eins og nafnið bendir til en í starfinu fellst í raun margt annað. Starf ráðgjafans er margþætt, allt frá fyrstu hjálpar sálgæslu til beinna afmarkaðra ráðlegginga um ólíklegustu atriði lífsins, en mestur tími ráðgjafans fer í að veita upplýsingar og fræða. Oft þurfa áfengisráðgjafar að hjálpa fólki að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína og er það siðferðileg skylda okkar að láta okkar eigin viðhorf og skoðanir ekki stýra hvað við ráðleggjum, heldur halda okkur við vísindalega þekkingu og þær siðareglur er við höfum sett okkur.

Áfengisráðgjafa má oft líkja við fararstjóra nema hvað þessi fararstjóri þarf að sannfæra og hjálpa samferðafólki sínu til að fara eftir þeim kortum sem til eru en ekki teikna upp sín eigin eftir því sem á ferðina líður. 

Að lokum vil ég benda þeim sem vilja kynna sér hvað áfengisráðgjafar gera á vefina www.far.is og http://saa.is en þar er að finna margskonar fróðleik. 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *