Hin nýja starfsstétt 2, grein eftir Hjalta Björnsson CAC, MBL nóvember 2004

 Fyrir nokkur skrifaði ég grein í Morgunblaðið um Félag áfengisráðgjafa og hið nýja fag áfengisráðgjöf. Margir höfðu samband við mig eftir það og vildu vita meira um starfið og hvernig er hægt að læra það. Fólki er þetta starf framandi en vill gjarnan vita meira. Margir héldu að það sem til þyrfti væri einungis persónuleg reynsla af vandamálinu og gott hjartalag. 

Þetta er að hluta til rétt en alls ekki nóg. Til við bótar við gott hjartalag og áhuga þarf auðvitað þekkingu. Þekkingu á fíknisjúkdómum. Þekkingu sem er grunnur þess sem unnið er að og hvernig. Þekkingu sem byggir á vísindum.

Fyrir um það bil 27 árum fór af stað landsátak til að koma af stað samtökum til að vera með meðferð fyrir alkóhólista hér á landi. Nokkrir tugir landskunnra drykkjumanna höfðu farið til Bandaríkjanna í áfengismeðferð og fengið þar góðan bata. Þessir einstaklingar fóru fram fyrir alþjóð í fjölmiðlum landsins og töluðu um drykkjuvanda sinn og þetta nýja líf sem þeir höfðu eignast án áfengis. Þetta vakti mikla athygli og á stuttum tíma breyttust viðhorf þjóðarinnar til áfengissýki. Það sem áður var eitthvað til að skammast sín fyrir var nú einungis verkefni til að taka á. Ný þekking og ný viðhorf urðu til þess að þjóðin eignaðist nýjan skilning á áfengisvandamálinu. Landsátakið sem þessir einstaklingar hrundu af stað leiddi til stofnunar SÁÁ. Í lögum SÁÁ var strax varðað að félagið skyldi leiða saman leika og lærða til að vinna að marmiðum sínum. Fljótlega varð til þverfaglegt teymi inna SÁÁ sem samanstóð af ýmsum heilbrigðisstarfsmönnum, s.s. læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Inn í þetta þverfaglega teymi komu síðan ófaglærðir starfsmenn sem fengu þjálfun til að gera ákveðna verkþætti inni í meðferðinni. Þessir nýju ófaglærðu starfsmenn höfðu ekkert formlegt starfsheiti fyrst, en voru kallaðir leiðbeinendur eða ráðgjafar á víxl. Fljótlega festist nafnið “ráðgjafi eða áfengisráðgjafi” við þá. Áður en áttundi áratugurinn var allur voru fagheitin orðin nokkur enda sérhæfing þessara starfsmanna þegar farin að eiga sér stað. Nöfnin sem notuð voru til að skilgreina starfssvið þessara starfsmanna voru orðin nokkur með vísan til þess hvert meginviðfangsefni starfsmannsins var. Nöfnin sem eru notuð eru, ráðgjafi, áfengis/vímuefnaráðgjafi saman eða aðskilin, fjölskylduráðgjafi, unglingaráðgjafi, vímuefnafræðingur og spilafíklaráðgjafi. Þó getur maður sagt að orðið áfengisráðgjafi hafi sigrað og sé í daglegu tali það nafnorð sem vísar til þessara starfa.
Sú hugmyndafræði sem stuðst er við þegar kennsla og þjálfun áfengisráðgjafa fer fram er upphaflega ættuð frá Bandaríkjunum en hefur þróast og tekið til sín þá þekkingu sem tiltæk er hverju sinni. Þeir sem sjá um menntun ráðgjafa í dag eru háskólamenntað fagfólk sem hefur sérhæft sig í áfengislækningum. Staðan á Íslandi er sú að langflestir sem starfa við vímuefnameðferð á sjúkrastofnunum hafa fengið þjálfun sína í Ráðgjafaskóla SÁÁ. Sá skóli er um tveggja ára starfsþjálfunarnám sem fer fram á starfsstöðum SÁÁ. Þar fer neminn í gegnum mikla þjálfun og handleiðslu. Samhliða þjálfuninni fer fram mikil kennsla í þeim þekkingaratriðum sem neminn á að kunna skil á. 

Náminu er stillt upp þannig að á þessum tveimur árum sem námstíminn er nái nemendurnir góðum tökum á þeim fjórum þáttum sem mynda rammann um þekkingarleg og fræðileg atriði námsins. Þessir þekkingarflokkar eru lyfjafræði vímuefna, sál- og félagsfræði, siðareglur og fagleg vinnubrögð. Innan hvers flokks eru margir undirflokkar. Þessi uppsetning á náminu og þeim prófum sem SÁÁ leggur fyrir á námstímanum nýtast vel þeim sem síðar hyggja á réttindanám það sem FÁR hefur verið að færa inn í landið.

Félag áfengisráðgjafa FÁR, er orðið gríðarlega sterkt fagfélag sem hefur áunnið sér traust og virðingu meðal virtra fagfélaga vestanhafs. Innan FÁR eru vel menntaðir áfengisráðgjafar sem eru hluti af heilbrigðiskerfinu og veita þar dýrmæta þjónustu. Í félaginu eru auk ráðgjafa, læknar og hjúkrunarfræðingar.

Hægt er að nálgast lesefni hjá réttindaráði FÁR sem einnig veitir allar upplýsingar um prófin og þjálfunina. Hægt er að nálgast félagið á heimasíðu þess www.far.is og á netfanginu far@far.is 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *