Hin nýja starfsstétt 1, grein eftir Hjalta Björnsson CAC, MBL september 2004

Hin nýja starfsstétt.
Hjalti Þór Björnsson NCAC, formaður Félags áfengisráðgjafa skrifar um áfengismál.

Nú í september eru liðin tíu ár frá stofnun Félags Áfengisráðgjafa, FÁR.  

Frá upphafi hefur það verið eitt af markmiðum félagsins að auka þekkingu og færni áfengisráðgjafa, efla fagmennsku þeirra, auk þess að hafa samskipti við fagfélög áfengisráðgjafa í öðrum löndum. Einnig er FÁR sameiginlegur vettvangur félagsmanna til að vinna að minnkun fordóma og aukins skilnings í íslensku þjóðfélagi gagnvart fíknisjúkdómum. Í félaginu eru áfengis/vímuefnaráðgjafar, fjölskylduráðgjafar og forvarnarfulltrúar.

Allt frá stofnun FÁR 1994 var það meginverkefni stjórnar að koma á samningi við NAADAC “National Association of Alcohol and Drug  Addiction Counselors” um aðild og að FÁR gæti notað prófin þeirra til að leggja fyrir þá ráðgjafa sem þess óska. NAADAC eru virtustu samtök í Bandaríkjunum fyrir fagfólk sem starfar við vímuefnameðferð og þau próf og staðalar sem þau samtök hafa sett eru viðmið annarra. Það var því eðlilegt að FÁR leitaði samstarfs þar. 

Fyrstu ráðgjafarnir voru allir einstaklingar sem höfðu persónulega reynslu af  því að hafa farið í meðferð. Flestir höfðu farið í meðferð á Freeport og Veritas Villa. Þessir einstaklingar höfðu ekki hlotið neina formlega menntun sem ráðgjafar en notuðu persónulega reynslu sína af meðferð og áfengisvandamálinu.  Eftir því sem árin liðu varð menntun ráðgjafanna formlegri og faglegri. Í dag tekur menntun ráðgjafa tvö ár og er sérhæfing að verða hluti af  starfinu.

Þau tímamót urðu síðan þann 22. Nóvember 2003 að 4 félagar í FÁR, Félagi áfengisráðgjafa gengust undir og náðu prófi  NAADAC, prófið sem þessir ráðgjafar tóku, var NCAC. Þessi áfangi markaði tímamót í samskiptum FÁR og NAADAC. Fyrir það fyrsta var það að fá að taka prófin þeirra hér á landi merkur áfangi, ráðgjafar sem eru í FÁR geta nú tekið sömu próf og félagar þeirra í Bandaríkjunum.  Í öðru lagi er mjög gott að fá að nota kennsluefni, og að geta kennt og gefið út viðurkenningar með samþykki NAADAC. Þetta var mikil viðurkenning á faglegum styrk FÁR. Samkomulagið fól það í sér að prófin yrðu tekin á Íslandi. Það er Professional Testing Center, PTC, í New York sem annast prófunina og yfirferð þeirra. Prófin eru tekin á Ensku og eru sömu próf og ráðgjafar í Bandaríkjunum taka.  Það hefur mikið gildi fyrir þá sem taka prófin því ekki einungis er tekið próf heldur fá próftakar í hendur réttindi sem gilda um öll Bandaríkin ef þeir standast tilskyldar lágmarkskröfur.  

Í fyrstu umferð máttu allir ráðgjafar sem unnið höfðu í 7 ár eða lengur taka prófið. Þær kröfur voru einungis í fyrstu umferð. Núna geta allir sem unnið hafa við ráðgjöf í þrjú ár eða lengur fengið að taka þessi próf, hafi þeir fengið til þess næga kennslu í þeim þekkingaratriðum sem til þarf. Kennt er í fjórum megin flokkum þekkingaratriða sem eru: Lyfjafræði vímuefna, fagleg mál, einstaklings, para og hópráðgjöf, fræði og kenningar ráðgjafastarfsins. 

Í ágúst 2004 fengu síðan þrír ráðgjafar til viðbótar afhent réttindi sín frá NAADAC og hafa þá alls sjö ráðgjafar lokið réttindanámi og prófi NAADAC/FÁR. Með þeim hafa sjö ráðgjafar lokið prófi í áfengisráðgjöf og fjölskyldumeðferð og fengið réttindi sín. Í nóvemberlok munu síðan fjórir ráðgjafar þreyta áfengisráðgjafapróf  jafnhliða þremur sem spreyta sig á réttindaprófi spilafíklaráðgjafa. Með þessum ráðgjöfum verður því kominn á annan tug ráðgjafa með réttindi.

Árlega hefur félagið haldið ráðstefnur og starfsdaga fyrir ráðgjafa ásamt því að undirbúa ráðgjafa undir að taka réttindapróf NAADAC sem er fagfélag áfengisráðgjafa í Bandaríkjunum. Félagið undirbýr einnig ráðgjafa sem vilja sérhæfa sig og verða spilafíklaráðgjafar og taka próf  NCGC, sem eru samtök spilafíklaráðgjafa. Um fjörutíu félagar eru í Félagi áfengisráðgjafa, ráðgjafar, læknar og hjúkrunarfræðingar. Innan félagsins eru starfandi fagráð, réttindaráð og siðaráð.

Næsta verkefni félagsins er að vinna að skilgreiningu áfengisráðgjafastarfsins á Íslandi og að það verði viðurkennd starfsstétt með vel skilgreind réttindi og skyldur, en það er að verða mjög aðkallandi.

Þessi nýja starfstétt sem hefur verið að störfum nú í um þrjátíu ár er komin til að vera. Áfengisráðgjafar eru hluti af íslenska heilbrigðiskerfinu og veita þar sérhæfða og dýrmæta þjónustu. 

Hægt er að nálgast lesefni hjá réttindaráði FÁR sem einnig veitir allar upplýsingar um prófin. Netfang, far@far.is  Hægt er að nálgast félagið á heimasíðu þess www.far.is og á far@far.is 

Höfundur er dagskrárstjóri hjá SÁÁ og hefur starfað sem áfengisráðgjafi í 18 ár.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *