Þessi grein birtist fyrst í SÁÁ blaðinu í maí 2008. Í greininni er fjallað um nýtt stafrænt geðgreiningartæki fyrir ungmenni og þátttöku SÁÁ í þróun þess og staðfærslu á Íslandi.
Mörg þeirra ungmenna sem koma til vímuefnameðferðar hjá SÁÁ á Vog, glíma við annan meginvanda en vímuefnafíknina. Þau eru vissulega í vanda vegna vímuefnaneyslu, vanda sem verður að leysa, en oft glíma þau líka við einhvern annan geðrænan vanda.
Margir þekkja hve Barna og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, er illa í stakk búin til að mæta þörfum allra barna sem þurfa hjálp vegna geðrænna kvilla. Biðlistar þar hafa verið langir og stjórnvöld hafa reynt að koma á fót neyðarlausnum til að minnka vandann.
Í aldarfjórðung hefur verið í notkun í Bandaríkjunum geðgreiningarviðtal fyrir börn 9 til 18 ára, nefnt DISC. Þetta viðtal, sem er tölvukeyrður staðlaður spurningalisti, er nú í notkun víða um lönd, meðal annars á Spáni, Þýskalandi, Hollandi og í Kína. Hin langa reynsla af viðtalinu og hin útbreidda notkun þess eru meðmæli með þessu greiningartæki.
Meginkostir viðtalsins eru tveir. Annarsvegar tekur viðtalið yfir marga sjúkdómsgreiningarflokka, það nær yfir 34 algengustu geðgreiningar hjá börnum. Þannig er tryggt að skimað sé eftir fleiri einkennum en þeim sem augljósust kunna að vera í hefðbundnu viðtali. Hinn meginkosturinn er að ekki þarf hámenntaða og langskólagengna geðlækna, sem kosta mikið, til að taka viðtalið. Þeir sem taka viðtalið eru sérþjálfaðir en þurfa ekki að búa að klínískri menntun.
Það blasir því við að með notkun þessa tækis væri hægt að fjölga þeim sem skima fyrir geðrænum vanda hjá börnum. Sú skimun gæti farið fram víða í heilsugæslunni og í skólakerfinu. Þannig mætti stytta biðlista á Bugl og veita aðstoð fyrr og markvissar en áður hefur verið gert.
Undir forystu Helgu Hannesdóttur, prófessors í geðheilbrigðisfræðum við Háskóla Íslands hefur verið ráðist í það stórvirki að þíða og staðfæra DISC viðtalið á Íslensku. Sú vinna er viðamikil og hefur staðið yfir í nokkur ár, enda eru um þrjú þúsund spurningar í viðtalinu öllu, þó hver einstaklingur svari aldrei svo mörgum spurningum.
Svona stórvirki verður ekki unnið án víðtækrar samvinnu og kostunar. Í þessu verkefni hafa nokkrir aðilar lagt saman krafta og fé og er SÁÁ þar á meðal. Samtökin hafa styrkt vinnuna fjárhagslega og lagt þróuninni lið með prófunum og yfirlestri.
Núna standa lokaprófanir á viðtalinu yfir hjá SÁÁ. Innan skamms verður hægt að þjálfa starfsfólk samtakanna til að nota þetta tæki og stuðla þannig að því að þau ungmenni sem leita á Vog fái undantekningarlaust tilvísanir í úrræði við hæfi.
Það er einnig mikill og stórhuga áhugi í forystusveit SÁÁ til að nota þetta viðtal í rannsóknarskyni, en DISC viðtalið var upphaflega þróað til þess.
Ég hef notið þeirra forréttinda að taka örlítinn þátt í þróunarvinnunni við DISC viðtalið og hef eins og margir aðrir þá trú að það muni valda svipaðri byltingu á Íslandi fyrir forvarnir, rannsóknir og greiningu í barna- og unglingageðlækningum og það hefur gert víða annarsstaðar. Það er ánægjulegt að fá að koma að svona verkefni og það er ánægjulegt að verða vitni að því þegar fagfólk sameinar krafta sína og yfirburðaþekkingu til að leysa stóran og þjóðfélagslegan vanda með skipulögðum og hagkvæmum hætti.
Hörður Svavarsson