FÁR 10 ára, grein eftir Hörð J. Oddfríðarson CAC, MBL október 2004

Nú í september eru liðin 10 ár frá því að Félag Áfengisráðgjafa, var stofnað. Á þessum tíu árum hefur ýmislegt gengið vel og annað síður. Nú eru áfengisráðgjafar orðnir meðvitaður starfshópur sem leitast við að auka þekkingu sína og færni. 



Þjálfun og kennsla
Starf ráðgjafans þróaðist með fíknimeðferð hér á landi. Í upphafi meðhöndluðu ráðgjafar nær eingöngu áfengisfíkn og sérstakir fjölskylduráðgjafar voru aðstandendum áfengissjúkra innan handar. Fljótlega eftir að starfssemi SÁÁ varð víðtækari, sameinuðust þessir tveir hópar í eitt og áfengisráðgjafar fóru að meðhöndla alla fíkla og aðstandendur þeirra.

Í gegnum árin hefur SÁÁ þjálfað og kennt nær öllum ráðgjöfum sem vinna að meðferð á Íslandi. Framan af voru það læknar SÁÁ sem önnuðust fræðslu fyrir ráðgjafa auk þess sem fjölmargir áttu kost á að sækja ráðstefnur og námskeið heima og erlendis. Nú eru það reynslumestu ráðgjafarnir sem ásamt læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum veita nýliðum þá fræðslu og þjálfun sem nauðsynleg er til að fíkni- og fjölskyldumeðferð beri góðan árangur.



FÁR
Á níunda áratug síðustu aldar og fram á þann tíunda gerðu ráðgjafar nokkrar tilraunir til að sameinast í einu félagi. Tilgangurinn var að auka samheldni og vinna að sameiginlegum hagsmunum stéttarinnar. Þessi viðleitni varð svo að veruleika í september 1994 og hefur Félag Áfengisráðgjafa starfað óslitið síðan. Á ýmsu hefur gengið en strax á fyrsta stjórnarfundi var rætt um að komast í samstarf við NAADAC Landssamtök ráðgjafa í USA. Tilgangurinn var að sækja þekkingu íslenskum ráðgjöfum til vegsauka. Til eru bréf sem send voru á milli þessara samtaka á árunum 1994 og 1996 þar sem fram kemur vilji beggja til að hefja samstarf. Það samstarf hefur nú komst á fyrir harðfylgi núverandi formanns FÁR, Hjalta Björnssonar og verður nánar greint frá þessu samstarfi síðar. 

En framlag stjórna FÁR hefur verið mikið og óeigngjarnt til að gera starf ráðgjafa að viðurkenndri og fullgildri heilbrigðisstarfsgrein. Það er ekki nægjanlegt að segjast vera alkóhólisti til að verða ráðgjafi og starfa sem slíkur. Nauðsynlegt er að afla sér mikillar þekkingar, læra fagið og fá starfsþjálfun undir leiðsögn reyndra ráðgjafa. Sem betur fer hafa ráðgjafar í FÁR borið gæfu til þess að gera miklar kröfur til sín og sinnar starfsgreinar. Við höfum þar notið stuðnings vinnuveitenda okkar og má þar sérstaklega þakka SÁÁ.
Fagleg þjónusta
Í Félagi Áfengisráðgjafa eru nú milli og 40 og 50 ráðgjafar, læknar og hjúkrunarfólk, sem starfa að meðferð fíknisjúklinga og aðstandenda þeirra. Félögum í FÁR fer stöðugt fjölgandi því sem stærri heild getum við veitt betri og faglegri þjónustu á mismunandi starfsstöðum og getum þannig sameinað þekkingu okkar og reynslu skjólstæðingum okkar til heilla.

Félagar í FÁR leggja mikið á sig til að viðhalda og auka þekkingu sína. Þeir miðla hver öðrum og sækja endurmenntun til starfandi ráðgjafa og annarra heilbrigðisstarfsmanna um heim allan. Þeir starfa undir mjög ströngum siðareglum sem teknar eru upp bæði að erlendri og innlendri fyrirmynd. Þær eru hugsaðar til að vernda skjólstæðinginn, ráðgjafann og þá stofnun sem veitir meðferð. 


Víðtæk þekking
Það getur ekki hver sem er kallað sig áfengisráðgjafa jafnvel þó viðkomandi eigi einhverja reynslu sem tengist fíknisjúkdómum. Ráðgjafinn er fyrst og fremst fagmaður og þarf að hafa víðtæka þekkingu og reynslu. Hann verður að kunna skil á mörgum þáttum fagsins svo sem að greina vanda gera meðferðaráætlanir geta metið stöðu einstaklings í meðferð og ekki síst að hafa innsýn inn í hvernig meðferð er byggð upp og hvernig meðferð er stjórnað. Hann þarf að kunna skil á tækni til að grípa inn í vanda einstaklinga. Hann þarf að hafa innsýn inn í áfallahjálp og vera skipulagður í verkum sínum. Ráðgjafinn þarf að kunna skil á siðfræði hafa lágmarksþekkingu á þeim lagareglum sem kunna að eiga við og vera óhræddur að leita til annarra fagaðila eftir aðstoð. Að auki þarf ráðgjafinn að gera sér grein fyrir eigin viðhorfum og gæta þess að þau trufli hann ekki í starfi. Aðeins þannig getur hann meðhöndlað fólk án tillits til þjóðernis, kynhneigðar, fötlunar eða úr hvernig menningarumhverfi skjólstæðingur hans kemur.

Það segir sig sjálft að áfengisráðgjöf er ekki hægt að læra á stuttu námskeiði. Nám í áfengisráðgjöf tekur í það minnsta tvö ár og þarf námið að vera bæði bóklegt, starfstengt og skipulega uppbyggt til að það nýtist sem slíkt. Í framhaldi af slíku námi er nauðsynlegt að viðhalda þekkingu sinni, afla sér nýrrar og vera í stöðugu og góðu sambandi við samstarfsfólk sitt. Að öðrum kosti brennur einstaklingurinn upp í starfi einangrast og staðnar.

Af þessu má sjá hversu mikilvægt það er að til starfa í áfengisráðgjöf veljist heilsteyptir einstaklingar sem geta nýtt sér þekkingu og reynslu í starfi geta unnið með öðrum stéttum í hóp og sótt sér þekkingu fordómalaust.

Höfundur hefur starfað við áfengisráðgjöf í átta ár og situr í stjórn FÁR, Félags Áfengisráðgjafa.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *