Fagmenn eða seiðmenn ? Grein Sigurðar R. Guðmundssonar. MBL maí 2006

Undanfarið hefur verið umræða á Alþingi um starfskröfur áfengisráðgjafa. Þetta starfsheiti hefur verið til í um 25 ár og enn þann dag í dag hafa ekki skapast neinar reglur eða lög um hvaða menntun eða siðareglur þurfi að uppfylla til að meðhöndla alkóhólista eða aðstandendur þeirra. Í raun getur því hver sem er kallað sig áfengisráðgjafa, burtséð frá menntun, bakgrunni eða öðru.

Í sjö ár hefur Félag áfengisráðgjafa, FÁR, staðið fyrir ráðstefnu í nafni félagsins. Í ár verður ráðstefnan haldin í Skógaskóla þann 5.-7. maí. Tilgangur þess að halda ráðstefnu fyrir fólk sem vinnur með alkóhólista er fjölþættur. Endurmenntun er mikilvæg fyrir alla meðferðaraðila. Menntun víkkar sjóndeildarhringinn og er kjörin leið til að hindra kulnun. Þekking og siðareglur eru kjölfestan í fagmennsku og eru því námstefnur kjörin leið til að auka hvorutveggja.

Í lögum FÁR kemur meðal annars fram að tilgangur félagsins sé að efla samvinnu og samstarf félagsmanna, bæta hag þeirra og hvetja til aukinnar menntunnar í starfi. FÁR vinnur líka að því að fá lögverndun á heitinu áfengisráðgjafi og hefur undanfarið átt farsælt starf með systursamtökum í Bandaríkjunum sem kallast NAADAC. Nú er svo komið að FÁR hefur fengið sæti í réttindaráði NAADAC fyrst allra erlendra þjóða og er það mikill heiður og viðurkenning á því starfi sem félagið vinnur.

Mikilvægi þess að starfa í fagfélagi eins og FÁR snýst þó ekki síst um sjúklingana sem félagsmenn meðhöndla. Þess vegna hefur FÁR lagt mjög mikla áherslu á siðareglur í lögum sínum. Siðareglur stuðla að miklu leyti að fagmennsku. Að sjúklingurinn fái þá þjónustu sem honum ber. Þannig vernda siðareglurnar bæði ráðgjafann og sjúklinginn.


Á ráðstefnum undanfarinna ára hefur félagið haldið siðareglunum á lofti og gert þær að umtalsefni á nánast öllum ráðstefnum. Sífellt fleiri aðilar hafa komið að ráðstefnunni og þannig aukið samstarf og þekkingu innan stéttanna sem fást við sama sjúklingahópinn. Á meðal þeirra sem hafa mætt á ráðstefnur FÁR eru: starfsmenn áfangahúsa, áfengisráðgjafar hjá SÁÁ og LSH, Sálfræðingar, Læknar, starfsmenn Regnbogabarna, starfsmenn Barnaverndarstofu, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og svo mætti lengi telja.

Það sem fer fram á ráðstefnum FÁR er margþætt. Fyrirlestrar eru þó uppistaðan. Fyrirlestrarnir eru um margvísleg málefni sem snúa þó flestir að meðferð alkóhólista/fíkla, siðareglum og vinnu þeirra sem flytja fyrirlesturinn. Einnig hefur verið vinsælt að hafa umræðuhópa um ákveðin atvik eða klípur sem meðferðaraðilar geta lent í. Þessar klípusögur eru oft tilefni mikilla og heitra umræðna. Þar að auki er mikilvægt starf sem felst í því að spjalla saman og fræðast óformlega um vinnuna og vinnufélagana. Kvöldvökur eru því ekki síður mikilvægar og nauðsynlegar til að brjóta ísinn og kynnast þeim sem eru að vinna að sömu málum.

Ráðstefna FÁR á við flesta þá sem starfa að málum alkóhólista eða aðstandenda þeirra og hægt er að hafa samband og fá upplýsingar um ráðstefnuna á heimasíðu FÁR www.far.is

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *