Faglegt gildi
FÁR/NAADAC (Landssamtök áfengisráðgjafa) samanstendur af atvinnuráðgjöfum sem eru ábyrgir atvinnumenn í umönnun, trúa á reisn og virðingu mannsins. Í starfi sínu leggja þeir áherslu á að siðfræðilegar grundvallarreglur sjálfræðis, velvildar og réttlætis verði að stýra hegðun þeirra. Sem atvinnumenn hafa þeir helgað sig meðferð skjólstæðinga sem eru háðir hverskonar vímuefnum og fjölskyldum þeirra. Þeir trúa að þeir geti veitt meðferð sem virkar á einstaklinga og fjölskyldur. Áfengisráðgjafar helga sig því að vinna til heilla samfélagsins, skjólstæðinga, starfsgreinarinnar og starfsfélaga.
Regla 1: FORDÓMALEYSI
Áfengisráðgjafi má ekki mismuna skjólstæðingum eða starfsmönnum á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, aldurs, kynferðis, fötlunar, þjóðaruppruna, kynhneigðar eða efnahagslegrar stöðu.
Regla 2: ÁBYRGÐ
Áfengisráðgjafi verður að tileinka sér hlutleysi, heilindi og gæta ýtrasta siðgæðis í þeirri þjónustu sem hann veitir.
a) Áfengisráðgjafi sem kennari verður að viðurkenna þá frumskyldu sína, að hjálpa öðrum að öðlast færni og þekkingu í því að fást við vímuefnasjúkdóm.
b) Áfengisráðgjafi sem starfsmaður verður að taka þeirri áskorun og ábyrgð sem ráðgjafastarfið hefur í för með sér.
Regla 3: FÆRNI
Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna að starfsgreinin byggir á vísindalegri þekkingu sem stuðlar að hagsmunum samfélagsins, skjólstæðingsins, ráðgjafans og starfsgreinarinnar í heild. Ráðgjafi verður að viðurkenna þörfina fyrir símenntun sem hluta starfslegrar færni.
a) Áfengisráðgjafi verður að koma í veg fyrir áfengisráðgjöf af hálfu óhæfra eða réttindalausra einstaklinga.
b) Áfengisráðgjafi sem verður var við siðlausa hegðun eða óatvinnumannslega starfshætti verður að skýra siðaráði FÁR frá slíkum brotum.
c) Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna takmörk og takmarkanir, hæfni ráðgjafans og bjóða þjónustu og aðferðir innan sinna takmarkana.
d) Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna áhrif skerðingar starfsgetu á starfshæfni og hann verður að vera fús til að leita viðeigandi meðferðar fyrir sjálfan sig og eða fyrir starfsfélaga. Ráðgjafi verður að styðja sjálfshjálparsamtök í þessu tilliti.
Regla 4: LAGALEGIR OG SIÐFERÐILEGIR MÆLIKVARÐAR
Áfengisráðgjafi verður að halda laga- og siðareglur þær sem lúta að fagmannlegri hegðun.
a) Áfengisráðgjafi má ekki lýsa yfir, hvorki beint né óbeint, starfseiginleikum/færni sem hann býr ekki yfir.
b) Áfengisráðgjafi má ekki notfæra sér tengslin við FÁR/NAADAC í augnmiði sem er ekki í samræmi við yfirlýstan tilgang félagsins.
c) Áfengisráðgjafi má ekki tengjast eða leyfa að nafn hans sé notað í tengslum við nokkra þjónustu eða vöru á rangan eða villandi hátt.
d) Áfengisráðgjafi sem tengist þróun eða auglýsingu bóka eða annarrar vöru sem boðin er til sölu verður að bera ábyrgð á að tryggja að bækur þessar eða vörur séu kynntar fagmannlega og sannleikanum samkvæmt.
Regla 5: OPINBERAR YFIRLÝSINGAR
Áfengisráðgjafi verður að virða takmarkanir núverandi þekkingar við opinberar yfirlýsingar varðandi alkóhólisma og aðra vímuefnasýki.
a) Áfengisráðgjafi sem kemur fram fyrir hönd starfsgreinar sinnar gagnvart skjólstæðingum, öðrum fagmönnum og/eða almenningi, verður að skýra satt og rétt frá viðeigandi upplýsingum.
b) Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna og skrá efni og aðferðir sem hann notar.
c) Áfengisráðgjafi sem veitir þjálfun í hæfni og/eða aðferðum verður að skýra áheyrendum frá þeirri þjálfun/hæfni sem krafist er til að stunda starfið á fullnægjandi hátt.
Regla 6: ÚTGÁFUVIÐURKENNING
Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna alla þá sem hafa lagt fram skerf að útgefnu efni, svo og verk sem útgefið efni byggir á.
a) Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna meðhöfund, mikilvægt framlag faglegs eðlis, fleiri einstaklinga til sameiginlegs verkefnis. Höfundur sá sem hefur lagt efnislega höfuðskerf til útgáfu skal skráður efst á lista.
b) Áfengisráðgjafi verður að viðurkenna neðanmáls eða í inngangi minni framlög faglegs eðlis, mikilvæga stofnun- eða svipaða aðstoð og annað minni háttar framlag.
c) Áfengisráðgjafi verður að láta getið sérstaklega óbirts og birts efnis sem hefur haft bein áhrif á rannsóknir hans eða skrif.
d) Áfengisráðgjafi sem safnar framlögum annarra og býr til prentunar verður að skrá sjálfan sig sem ritstjóra, svo og aðra aðstandendur verksins.
Regla 7: VELFERÐ SKJÓLSTÆÐINGSINS
Áfengisráðgjafi verður að virða af heilindum og vernda velferð einstaklings þess hóps sem hann vinnur með.
a) Áfengisráðgjafi verður að skilgreina fyrir sjálfum sér og öðrum eðli og stefnu trúnaðar og ábyrgðar og upplýsa alla aðila um þessar skuldbindingar.
b) Áfengisráðgjafi verður, þegar um faglega hagsmunaárekstra er að ræða, að hafa hagsmuni skjólstæðings í fyrirrúmi.
c) Áfengisráðgjafi verður að slíta ráðgjafar- og/eða meðferðarsambandi þegar honum er það ljóst að skjólstæðingur nýtur ekki góðs af því.
d) Í tilvísunartilvikum verður áfengisráðgjafi að taka á sig ábyrgð á velferð skjólstæðings, annaðhvort með uppsögn samkvæmt sameiginlegu samkomulagi og/eða að skjólstæðingur tengist öðrum fagmanni.
Í tilvikum þegar skjólstæðingur hafnar meðferð, tilvísun eða ráðleggingum verður áfengisráðgjafi að taka tillit til velferðar skjólstæðings með því að vega og meta kosti áframhaldandi meðferðar eða stöðvun hennar.
e) Áfengisráðgjafi sem biður skjólstæðing sinn að skýra frá persónulegum upplýsingum frá öðrum fagmönnum eða leyfir að birta slíkar upplýsingar, verður að skýra skjólstæðingnum frá eðli slíkra boðskipta. Upplýsingar þær sem veittar eru eða fengnar með upplýstu samþykki má einungis nota í yfirlýstu augnamiði.
f)Áfengisráðgjafi má ekki nota skjólstæðing í sýningarhlutverki í vinnuhópsumhverfi þar sem slík þátttaka kynni að skaða skjólstæðinginn.
g) Áfengisráðgjafi verður að tryggja viðeigandi vinnuumhverfi til að vernda skjólstæðinginn fyrir skaða og ráðgjafann og starfsgreinina fyrir ámæli.
h) Áfengisráðgjafi verður að vinna með öðrum heilbrigðisstéttum við að veita skjólstæðingi sem fær lyf samkvæmt læknisráði umhverfi sem hlúir að skjólstæðingnum.
Regla 8: TRÚNAÐUR
Áfengisráðgjafi verður að taka sem frumskuldbindingu skylduna að vernda einkalíf skjólstæðings og má ekki greina frá trúnaðarupplýsingum sem hann hefur fengið við kennslu, störf eða rannsóknir.
a) Áfengisráðgjafi verður að skýra skjólstæðingi frá og fá leyfi á sviðum sem líkleg eru til að hafa áhrif á þátttöku skjólstæðings, svo sem hljóðritun viðtals, notkun efnis úr viðtali til þjálfunar og áheyrn þriðja aðila að viðtali.
b) Áfengisráðgjafi verður að gera ráðstafanir til að viðhalda trúnaði og til endanlegrar ráðstöfunar trúnaðarskráa.
c) Áfengisráðgjafi má ekki greina frá trúnaðarmálum nema greinileg hætta vofi yfir skjólstæðingnum og/eða öðrum og þá einungis viðeigandi fagmönnum eða opinberum aðilum.
d) Áfengisráðgjafi má einungis ræða upplýsingar sem hann hefur fengið í meðferðar- eða ráðgjafarsambandi í viðeigandi umhverfi og þá einungis í faglegu augnamiði sem greinilega tengist málinu. Skriflegar og munnlegar skýrslur skulu einungis greina frá atriðum sem snerta tilgang matsins og leitast skal við í hvívetna að forðast óþarfa röskun á einkalífi.
e) Áfengisráðgjafi má einungis nota sjúkraskrár og önnur gögn sem efni kennslu eða í rituðu máli ef einkenni persóna sem koma við sögu hafa verið dulin á viðeigandi hátt.
Regla 9: TENGSL VIÐ SKJÓLSTÆÐING
Áfengisráðgjafi verður að skýra skjólstæðingi frá höfuðþáttum hugsanlegs sambands.
a) Áfengisráðgjafi verður að upplýsa skjólstæðing um og fá samþykki hans á sviðum sem líkleg eru til að hafa áhrif á þátttöku skjólstæðings, svo sem hljóðritun viðtals, notkun efnis úr viðtali til þjálfunar og/eða áheyrn þriðja aðila að viðtali.
b) Áfengisráðgjafi verður að greina tilsjónarmanni eða ábyrgðarmanni frá kringumstæðum sem kunna að hafa áhrif á sambandið ef skjólstæðingur er ófullveðja eða sviptur sjálfræði.
c) Áfengisráðgjafi má ekki stofna til sambands við fjölskyldumeðlimi, nána vini eða samstarfsmenn eða aðra sem slíkt tvöfalt samband gæti stofnað í fagmennsku hans og siðfræðigunni í hættu.
d) Áfengisráðgjafi má ekki hafa nein kynferðisleg samskipti við skjólstæðing.
Regla 10: TENGSL VIÐ AÐRA Í STARFI
Áfengisráðgjafi verður að umgangast starfsfélaga með virðingu, kurteisi og sanngirni og verður að sýna öðrum starfsgreinum sömu faglegu háttvísi.
a) Áfengisráðgjafi má ekki bjóða fagþjónustu skjólstæðingi sem nýtur ráðgjafar annars fagmanns nema með vitund hins fagmannsins eða að loknu sambandi skjólstæðings við hinn fagmanninn.
b) Áfengisráðgjafi verður að vinna með rétt skipuðum siðanefndum fagmanna og veita nauðsynlegar upplýsingar án tafar nema trúnaðarkröfur hamli því.
Regla 11: GREIÐSLUR
Áfengisráðgjafi verður í starfi að haga fjármálum í samræmi við faglegar reglur sem tryggja bestu hagsmuni skjólstæðings, ráðgjafa og starfsgreinar.
a) Áfengisráðgjafi verður, við ákvörðun taxta fyrir fagþjónustu að gæta vandlega að greiðslugetu skjólstæðings.
b) Áfengisráðgjafi má ekki inna af hendi eða taka á móti neinum umboðslaunum, afslætti eða nokkru öðru formi greiðslu fyrir tilvísun skjólstæðinga til faglegrar þjónustu. Hann má ekki taka þátt í að deila þóknun.
c) Áfengisráðgjafi í föstu starfi á stofnun eða sjálfstætt má ekki nýta samband við skjólstæðing sér til framdráttar persónulega eða til viðskiptalegs hagnaðar stofnunar eða fyrirtækis af nokkurri tegund.
d) Áfengisráðgjafi má ekki taka við einkagreiðslu eða nokkurri annarri gjöf eða umbun fyrir fagvinnu af einstaklingi sem á rétt á slíkri þjónustu. Stefna stofnunar kann að kveða sérstaklega á um einkavinnu með skjólstæðingum af hálfu starfsmanna og í slíkum tilvikum verður stefnan að vera gagnsæ og gera grein fyrir öllum stefnuþáttum sem snerta skjólstæðinginn.
Regla 12: SAMFÉLAGSLEGAR SKULDBINDINGAR
Áfengisráðgjafi verður að vera talsmaður breytinga á opinberri stefnu og löggjöf sem stuðla að tækifærum og valkostum fyrir alla sem hafa orðið fyrir barðinu á sjúkdómnum alkóhólisma og annarri vímuefnafíkn.
Ráðgjafar verða að upplýsa almenning með borgaralegri og faglegri þátttöku í félagsmálum um afleiðingar alkóhólisma eða vímuefnafíknar og á allan hátt reyna að tryggja öllum, einkum þurfandi og afskiptum einstaklingum, aðgang að nauðsynlegum úrræðum og þjónustu. Áfengisráðgjafi verður að taka persónulega og faglega afstöðu sem stuðlar að almannaheill.