Mikil umræða hefur verið undanfarið um misnotkun og misbeitingu þeirra þegna samfélagsins sem aumastir eru. Það var varla svo að samfélagið hefði jafnað sig á fréttum af misnotkun veiks fólks í Byrginu er yfir okkur dundu fréttir, viðtöl og vitnisburðir um harðræði og misþyrmingar í Breiðavík á árum áður. Væntanlega á fleira eftir að kom upp úr fortíðarpokanum og ekki nema von ef orð formanns fjárlaganefndar Alþingis eiga sér og hafa átt sér fleiri formælendur á Alþingi. Birkir Jón Jónsson hafði þetta til málana að leggja árið 2003 í viðræðum við embættismenn félagsmálaráðuneytisins: „Ef starfsemi Byrgisins á alfarið að fara eftir lögum um heilbrigðisþjónustu þá mun kostnaðurinn verða margfalt hærri en nú er áætlað.“ Hér heggur sá er hlífa skyldi.
Reynslan getur verið harður kennari en verra er ef menn hafa ekki dug til að taka lexíunni og eru ekki tilbúnir að horfast í augu við afleiðingar og breyta um stefnu út frá því. Vissulega er aðhald við meðferð opinberra fjármuna nauðsynlegt en það er ómannúðlegt stjórnkerfi sem metur fjármuni meira en fólk.
SÁÁ eru almannasamtök fólks sem láta sig velferð vímuefnasjúkra og aðstandenda þeirra varða. Nú er staðan sú að tap á rekstri samtakanna er orðið of mikið til þess að samtökin geti brúað bilið. Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun, mæt stofnun sem stjórnmálamenn vísa gjarnan í þegar það hentar þeim, hefði gert athugasemdir við að SÁÁ borgaði of stóran hluta meðferðarinnar klifa menn á því að úrræðið kosti of margar krónur. En hvað fáum við í staðinn? Samkvæmt tölulegum upplýsingum SÁÁ hafa ríflega 18.000 manns lagst inn á sjúkrastofnanir þess frá upphafi, þar af hafa u.þ.b. 79% komið 3 sinnum eða sjaldnar til meðferðar sem ég hygg að teljist góður árangur miðað við sambærilega sjúkdóma.
Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, hefur látið hafa eftir sér að til að spara peninga væri réttast að meðhöndla fleiri á göngudeildum í stað þess að leggja þá inn á sjúkrahús. Á Davíð þar við að heilbrigðisráðuneytið ætli að auka fjárframlög til göngudeildar SÁÁ? Á síðasta ári greiddi ríkið u.þ.b. 25 milljónir en reksturinn kostaði rösklega 60 milljónir sem þýðir að það stóðu 35 milljónir út af í árslok. Er Davíð að segja að ráðuneytið sé tilbúið að greiða þann halla eða er hann að segja að hann vilji meiri þjónustu fyrir sama verð? Ráðuneytisstjórinn hefur ekki tilgreint þá sérfræðinga sem telja að meðhöndla mætti fleiri veika vímuefnasjúklinga á göngudeild, en vitað er um einn erlendan háskólakennara sem dvaldi hérna yfir helgi fyrir tíu árum og skilaði greinargerð sem hann var beðinn um í kjölfar heimsóknarinnar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins velkist ekki í vafa um hvað ráðuneytisstjórinn er að fara þegar hann segir að það heyrist langar leiðir að skrifstofuveldið í stjórnarráðinu sé að láta til sín taka. Í leiðaranum er svo spurt „Hverjum dettur í hug að fólk sé lagt inn á Vog að tilefnislausu?“
Líklegast er að hér sé háttvirtur ráðuneytisstjórinn á sömu buxunum og háttvirtur formaður fjárlaganefndar, þingmaðurinn Birkir Jón, og hann tími ekki að fara að lögum.
