Drykkjuskapur hinna eldri, grein eftir Sigurður Gunnsteinsson CAC, MBL maí 2005

Umræða í fjölmiðlum og samfélaginu varðandi áfengis og vímuefnavanda undanfarin misseri hefur nær eingöngu varðað neyslu yngsta aldurshópsins. Af því mætti ætla að áfengis og vímuefnavandi væri einskorðaður við þann hóp og neysla áfengis og annarra vímuefna væri ekki vandamál hjá hinum sem komnir eru til vits og ára.

Ef rýnt er í innlagnartölur SÁÁ fyrir árið 2004, sem nýlega voru birtar á vef samtakanna, kemur í ljós að af 1.726 sjúklingum sem lagðir voru inn á Sjúkrahúsið Vog árið 2004 voru 298 fimmtíu ára eða eldri, ríflega 17 % af heildar innlögnum. Þar af 83 konur og 215 karlar.
Vandi við greiningu áfengissýki hjá þeim sem komnir eru af léttasta skeiði er fjölþættur og þarf oft mikla kunnáttu til að koma auga á að ekki er allt með felldu. Fjölskyldumeðlimir og aðrir ástvinir hafa tilhneigingu til að fela og afneita vandamálinu. Sterkar vísbendingar um áfengisvanda eru þá jafnvel skrifaðar á ellimörk eða tilfallandi atburði sem leiðir til þess að vandinn vefur uppá sig og verður erfiðari viðureignar. Starfsmenn heilsugæslunnar sem komast í samband við þennan hóp eru lítið á verði gagnvart vandanum og einblína oft á að leysa afleiðingar hans frekar en að komast að rótinni. Þeir eru samt oft í lykil aðstöðu til að íhlutast og koma að leiðbeiningum.

Að þekkja áfengisvanda hjá eldra fólki er mjög mikilvægt vegna hinna fjölþættu heilsufarslegu afleiðinga sem áfengisdrykkja hefur á einstaklinginn þegar hann eldist.

Rannsóknir frá Bandaríkjunum sýna að 3-9% karlmanna eldri en 65 ára drekka 2-3 sterka drykki á dag eða samsvarandi alkóhól magn í öðrum drykkjum. 20-50% af sjúklingum sem leggjast inn á spítala eru í þessum hópi aldraðra drykkjumanna. 20% af eldri sjúklingum á geðdeildum eru stórneytendur á áfengi. 10-40% af fólki 60 ára og eldri koma á slysavarðstofur vegna beinbrota og annarra smá slysa, tengt áfengis misnotkun. Eldri karmenn eru umtalsvert líklegri til að greinast með áfengissýki en eldri konur og má vísa aftur í tölur SÁÁ því til staðfestingar.

Greina má áfengissjúka eldri karlmenn í tvo hópa. Í fyrsta lagi þá sem hafa átt við áfengis og vímuefnavanda að stríða í langan tíma og í öðru lagi þá sem hafa notað áfengi og lyf lengi en vegna aldurs og breyttra aðstæðna lenda í erfiðleikum á síðari hluta ævinnar. Fyrri hópurinn er u.þ.b. 70% af heildinni, þeir lifa með áfengissýki mest alla ævina, margir þessara einstaklinga eiga mjög sterka fjölskyldusögu um áfengissýki og eiga jafnvel margar meðferðir að baki. Hinn hópurinn, u.þ.b. 30%, lendir í vanda eftir miðjan aldur vegna ytri aðstæðna t.d. makamissis, veikindi maka, brotthvarfs af vinnumarkaði eða vegna sjúkdóma og er því að leita sér hjálpar í fyrsta skipti.


Afleiðingar áfengissýki á einstakling í þessum aldurshópi eru margvíslegar og draga mjög mikið úr lífsgæðum. Þar má nefna einangrun og skerta félagshæfni. Annar þáttur vandans hjá þessum hópi er röng notkun ávísaðra lyfja. Þá eru lyf ekki tekin á réttum tíma, sjúklingar eiga oft erfitt með að lesa leiðbeiningar um lyfjanotkun og gleyma oft að taka lyfin.

SÁÁ kom af stað sérstöku meðferðarúrræði fyrir eldri karmenn í upphafi árs 2004. Meðferðin er fyrst og fremst styðjandi, sjálfsstyrkjandi og miðar m.a. að því að rjúfa félagslega einangrun og byggja upp og styrkja félagslegan stuðning. Meðferðin er einstaklingsmiðuð með mismunandi áherslum í verkefnum og hópastarfi. Verkefnavinna meðferðarinnar tekur á atriðum eins og, einmanaleika, þunglyndi, missi eða sorg, heilsueflingu og afþreyingu sem eykur lífsgæði viðkomandi. Enn fremur er lögð áhersla á að koma heilsugæslu og lyfjagjöfum í gott horf. Meðferðin byrjar á Vogi, en þar fer fram greining og afeitrun, að henni lokinni tekur við endurhæfing sem fer fram á meðferðarheimilinu Vík á Kjalarnesi og stendur yfir í 28 daga. Að lokinni endurhæfingu tekur við eftirfylgni í hópstarfi á göngudeild Sjúkrahússins Vogs. Til þessarar meðferðar valdi SÁÁ mjög færa og þjálfaða ráðgjafa sem hafa öðlast mikla reynslu í meðhöndlun þessa aldurshóps.

Eftirspurn eftir meðferðinni hefur aukist mjög á því rúma ári sem hún hefur verið í boði og hefur hún þótt mæta þörfum og væntingum þeirra sem hana hafa sótt.

Daganna 6.-8. maí n.k. mun FÁR, Félag áfengisráðgjafa, halda námsstefnu í Skógum þar sem fjallað verður m.a. um meðferð aldraðra ásamt fjölda annarra fyrirlestra.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *