Brellur og töfrabrögð, grein Harðar J Oddfríðarsonar CAC, MBL febrúar 2007

Nýjasta tromp heilbrigðisráðuneytisins er þessi gamla og úrelta hugmynd að það sé mögulegt að meðhöndla nánast alla afeitrun, greiningu og meðferð vímuefnasjúklinga á göngudeildum. 

Nú er rétt að spyrja Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóra og Siv Friðleifsdóttur ráðherra hvort þau geri sér ekki grein fyrir þeim fjölda einstaklinga sem koma á göngudeildir vegna áfengis- og vímuefnafíknar og afleiðinga hennar á ári hverju. Gera þau sér ekki grein fyrir því að það voru t.d. yfir 33.000 viðkomur á göngudeildum SÁÁ árið 2006? Vita þau ekki af þeim fjölda sem fær þjónustu á göngudeild LSH fyrir áfengis- og vímuefnafíkla. Og hvernig þau sjá það fyrir sér að til dæmis lyfjafíknar eldri konur komi daglega á göngudeild í 20–30 daga í röð til afeitrunar, að áfengissjúkir karlmenn sem standa ekki undir sjálfum sér fyrstu dagana eftir að drykkju er hætt, komist daglega í 10–12 daga í göngudeildarafeitrun og hvernig unga fólkið okkar á að standast nokkurra daga afeitrun á göngudeild í samfélagi þar sem áfengi og vímuefnum er veifað að þeim nánast á hverju horni? Það er líka rétt að nota tækifærið og fá svör við því hvernig þetta ágæta fólk telur að starfsfólk afeitrunargöngudeildar eigi að bregðast við hinum ýmsu fylgikvillum fíknar og neyslu, sem ekki er hægt að meðhöndla nema liggjandi inni á sjúkrahúsi? Finnst þeim betra að það fólk sé meðhöndlað að hluta á dýru hátækniháskólasjúkrahúsi, en á sérhæfðu sjúkrahúsi til afeitrunar? Þá er best að spyrja að því hér hvaða greiningarvinnu á að stunda á göngudeild afeitrunar – hvað á að greina, hvernig á að greina og hvaða úrræði verður hægt að bjóða upp á? En stóru spurningarnar sem alltaf koma upp í þessari umræðu og þau verða að svara fyrr en síðar eru „hver á að borga?“ „hvað má þjónustan kosta?“ og „er ríkið einfaldlega að velta lögbundinni þjónustu yfir á einstaklinga og félagasamtök með því að færa þessa heilbrigðisþjónustu af sjúkrahúsi yfir á göngudeild vegna nísku stjórnmálamanna og embættismanna?“ Svör óskast hið fyrsta. 

Það er saga til næsta bæjar ef stjórnandi fagráðuneytis heilbrigðismála tímir ekki að kosta heilbrigðisstarfssemi. Það er líka eftirtektarvert ef ráðherra úr þeim flokki sem hvað harðast gekk fram í að lofa milljarði eða meiru í lausn á vímuefnavandanum, er ekki tilbúinn að standa við stóru orðin. Það sem er þó undarlegast er að þau virðast fyrirverða sig fyrir að þurfa að sinna veiku fólki. 
Ætla heilbrigðisráðherra og embættismenn hennar að brjóta lög landsins og þar með gegn réttindum sjúklinga og neita fólki um eðlilega heilbrigðisþjónustu með óljósum tilvitnunum um að það sé ódýrara að framkvæma hið óframkvæmanlega á göngudeild. Ætla þau að nýta aðferð formanns fjárlaganefndar, sem lýsir því í tölvupóstum að lögbrot sé valkvæð aðgerð svo framalega að lögbrotið spari ríkinu fé? 

Ekki veit ég hvaða sérfræðinga Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri hefur fengið erlendis frá til að uppfræða sig um meðhöndlun áfengis- og vímuefnasjúka, en hitt veit ég frá fyrstu hendi að áfengis- og vímuefnaráðgjafar í Bandaríkjunum og aðrir sem starfa við afeitrun og meðferð þar í landi gráta glataða þekkingu, horfin tækifæri og afturhvarf til fortíðar. Þau gráta allt það fólk sem hefur látist löngu fyrir tímann vegna þeirrar stefnu sem tekin var upp þar. 

Í Bandaríkjunum var inniliggjandi afeitrun og meðferð nánast aflögð nema fyrir þá sem höfðu handbært fé til að greiða fyrir þjónustuna. Hugmyndafræðin var að framkvæma afeitrun á göngudeild og stytta tímann sem fór í meðhöndlun á veiku fólki. Um leið var gert ráð fyrir að verulegir fjármunir spöruðust hinu opinbera og tryggingafélögunum. Niðurstaðan í Bandaríkjunum varð sú að meðferð áfengis- og vímuefnasjúkra dróst verulega saman og þekkingin hvarf, vegna þess að sjúklingarnir leituðu ekki til göngudeildanna. Þeir leituðu ekki til göngudeilda vegna þess að þjónustan hæfði ekki fíknisjúkdómnum. Sjúklingarnir fundu fyrir því að árangurinn snarminnkaði og þeir héldu úrræðið ekki út. Þeir sem hafa lágmarksþekkingu á fíknisjúkdómum skilja þetta. Þeir skilja vonleysið og getuleysið til að leysa úr einföldustu verkefnum daglegs lífs á tímabili afeitrunar og fyrst eftir afeitrun. Þeir hafa það fram yfir ýmsa æðstu starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins að sjá og kunna að meta árangur af því starfi sem unnið er og þeir geta lagt fram tölfræðilega úttekt á árangri þegar þess er óskað. Þeir geta metið þörf og lagt fram raunhæfar kostnaðaráætlanir. Það er að minnsta kosti meira en ráðherra heilbrigðismála og ráðuneytisstjóri hennar virðast geta. Þau hafa í marga mánuði reynt að töfra fram með ýmsum brellukúnstum sparnað fyrir ráðuneytið og segja jafnframt að minna fé sé hærri framlög. Það sér allt heilbrigt fólk hversu óheilbrigð stefna ráðuneytisstjórans og ráðherrans er.

Höfundur er deildarstjóri forvarnardeildar SÁÁ.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *