Neysla áfengis í félagslegum tilgangi er viðurkennd og sjálfsögð athöfn í okkar samfélagi. Það telst sjálfsagt og eðlilegt að gleðjast í góðra vina hópi með vín í hönd og ekkert við þau viðhorf að athuga. Læknisfræðin viðurkennir hófdrykkju sem eðlilegt fyrirbæri og hefur þess vegna skilgreint hófdrykkjumörk eftirfarandi hátt: Karlar (20-65 ára): Tveir drykkir eða minna á dag að jafnaði. Aldrei meira en fimm drykkir í hvert sinn. Samanlagt fjórtán drykkir á viku eða minna. Konur (og karlar eldri en 65 ára): Einn drykkur eða minna á dag að jafnaði. Aldrei meira en fjórir drykkir í senn. Samanlagt minna en sjö drykkir á viku. Þegar talað um drykk í þessari skilgreiningu þá er einn drykkur, vínskammtur sem inniheldur um 12 g af hreinu áfengi. Slíkur skammtur svarar til u.þ.b. eins barskammts (sjúss) sem eru 30 ml af brenndu víni, um 150 ml af léttu víni eða um 400 ml af bjór. Ofangreind mörk hófdrykkju geta verið of há fyrir aldrað fólk eða þá sem eru með vissa sjúkdóma. Ef fólk er í vafa um hver mörk þess eru, ætti það að ráðfæra sig við lækninn sinn. Börn yngri en 18 ára eiga ekki að nota áfengi!
Nýlega birti hagstofan tölur yfir sölu áfengis á síðasta ári. Þar kemur í ljós að áfengissala á Íslandi hefur verið að aukast árum saman. Á sama tíma er heldur að draga úr drykkju hjá nágrannaþjóðum okkar. Áfengisneysla á hvern íbúa 15 ára og eldri hefur aukist úr 4,33 alkóhóllítrum árið 1980 í 6,71 alkóhóllítra árið 2004. Þessi áfengissala svarar til þess að hvert einasta mannsbarn 15 ára og eldra á Íslandi drekki 447 drykki á ári eða 8,6 drykki á viku. Sér þá hver heilvita maður að neyslan er meiri en sem svarar til hófdrykkjumarka kvenna. Einfaldir útreikningar sýna líka að innan fimm ára verður heildarsala áfengis á Íslandi orðin svo mikil að hún verður komin yfir læknisfræðileg hófdrykkjumörk hvers einasta lifandi Íslendings fimmtán ára og eldri. Ekki er þá horft til þess að í þessum mælingum eru þrír árgangar barna sem alls ekki ættu að drekka áfengi og 5 árgangar sem hafa ekki lögum samkvæmt leyfi til að drekka áfengi.
Áhugavert er að velta fyrir sér hvað veldur þessari þróun sem vissulega er ógnvænleg, því sá sem drekkur að jafnaði meira en hófdrykkjumörk segja til um, stefnir heilsu sinni á einn og annan hátt í voða. Kannski á stefnuleysi stjórnvalda einhvern þátt í þessari þróun. Jóhannes Kári Kristinsson læknir og doktor í faraldsfræði er ekki í vafa um það en hann segir í Morgunblaðinu þann 18.apríl: “Ríkisstjórn okkar hefur mjög óljósa stefnu í forvarnamálum. Á sama tíma og norrænir félags- og heilbrigðismálaráðherrar lýsa áhyggjum sínum yfir mikilli og vaxandi áfengisneyslu á öllum Norðurlöndunum koma einstakir íslenskir alþingismenn fram og vilja með öllum ráðum auka hana. Hinar alvarlegu atlögur eru tvíþættar.”
Atlögur alþingismanna til aukinnar áfengisdrykkju sem Jóhannes nefnir svo, felast í frumvörpum til laga um að lækka áfengiskaupaaldur og frumvarpi til laga um að færa sölu áfengis inn í matvöruverslanir. Það er auðvitað skiljanlegt að Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hennar vilji slá sig til riddara í augum ungmenna sem eru orðin 18 ára en mega ekki kaupa áfengi lögum samkvæmt. Þessi hópur má kjósa og sjálfsagt að þingmenn sem eiga allt sitt undir vinsældum geri eitthvað sem líklegt er til vinsælda.
Það þarf hins vegar að vera þingmönnum ljóst þegar þeir greiða atkvæði um þessi frumvörp hvaða afleiðingar samþykki þeirra hefur. Það mætti t.d. ferja í hjólböruvís, inn á Alþingi, þær rannsóknir allstaðar að úr heiminum sem staðfesta að auknu aðgengi að áfengi fylgir aukin neysla þess. Aukinni neyslu áfengis fylgir aukinn heilsufarsvandi. Auknum heilsufarsvanda fylgir aukinn kostnaður. Fyrir þá sem meta árangur sinn í pólitík í hagfræðilegum niðurstöðutölum hlýtur þetta að vera umhugsunarefni.
Í könnun Lýðheilsustofnunar frá 2004 kemur fram að ungt fólk drekkur mikið af bjór í hvert sinn sem það neytir áfengis. Ungir menn drekka að meðaltali 1,8 lítra af bjór eða 5-6 venjulega bjóra í hvert sinn og ungar konur 1,3 lítra. Samkvæmt könnuninni hefur mesta aukningin í hreinum vínanda orðið meðal ungs fólks á aldrinum 18-34 ára, þá sérstaklega ungra kvenna, sem hafa aukið áfengisneyslu um 28% frá árinu 2001. Sambærileg aukning hjá ungum körlum er 22% í hreinum vínanda. En í öðru fyrrgreindu frumvarpinu er einmitt verið að leyfa sölu neyslu léttvína og bjórs til þessa aldurshópa. Því hlýt ég að kalla eftir viðbrögðum frá þingmönnum og óska eftir útskýringum á þessum frumvörpum og á hvaða forsendum þingmenn ætla að samþykkja þau.
Félag áfengisráðgjafa, FÁR, sendi nýlega frá sér ályktun þar sem kallað er eftir stefnumótun í málefnum sem varða aukna drykkju barna og ungmenna. Þar kemur fram að verði frumvörpin að lögum mun það verða til þess að heildarneysla áfengis og drykkja barna og ungmenna mun aukast verulega í landinu.
