Áfengisauglýsingar, grein eftir Hjalta Björnsson CAC, MBL desember 2004

Þegar ég var aðalast upp voru til templarar. Fólk sem trúði á bindindi og reglusemi. Þetta fólk hafði flest alist upp við það að einhver nákominn þeim hafði orðið bakkusi að bráð. Templarar áttu sér því hugsjón um betra líf. Tilgangur minn með þessari grein er ekki að gera grein fyrir upphafi þeirra eða aðkomu að áfengismálum, heldur einungis að benda á það að eitt sinn voru þeir til umsagnar um það hvernig höndla ætti með brennivínið. 

Mér varð það snemma ljóst að boðskapur templara náði ekki eyrum almennings. Menn reyndu boð og bannleiðina en hún gekk sem kunnugt er ekki, hvorki á Íslandi né annarsstaðar. Ef til vill endurspeglaði þetta þó einungis tíðarandann. Þjóðin var á góðri leið með að drekka sig í hel en var þó að reyna að setja sér einhverja stefnu í áfengismálum og hafði ákveðin markmið að vinna að. 

Um aldir hafa allir siðlegir menn gert sér ljóst að kynning, dreifing og sala vímuefna hlyti að lúta öðrum lögmálum en verslun með almennan neysluvarning. Einnig að allir sem eitthvað vita um áfengismál vita, að þó að við höfum gefið okkur leyfi til að nota áfengi eitt allra vímuefna þá gilda öll sömu lögmál um áfengi og önnur vímuefni. Um þetta hefur verið sátt í okkar þjóðfélagi. Menn hefur þannig frekar greint á um leiðir frekar en markmið. 

Það er þess vegna líklegt að þeir séu ekki margir sem stuðla vilja að því að áfengi megi selja og veita hvar sem er, hvenær sem er og hverjum sem er. Þetta sést ef til vill í óljósri lagasetningu um bann við áfengisauglýsingum. Engum siðlega þenkjandi manni sem kom að þeirri lagasetningu datt í hug að setja þyrfti sérstaklega nákvæm lög sem tækju til allra mögulegra aðstæðna eða atvika. Það er greinilegt að þeir sem komu að þessari lagasetningu ætluðu hagsmunaaðilum ákveðið siðferði. En annað er nú komið á daginn. Áfengisauglýsingar eru nú daglega í öllum fjölmiðlum og hafa verið misserum saman. Áfengissalar og framleiðendur auglýsa sem aldrei fyrr. Alþingi situr aðgerðarlaust og lögreglan segist ekkert geta gert. 
Sem áfengisráðgjafi hef ég skrifað undir og skuldbundið mig til að fara eftir ákveðnum siðareglum. Í einni þeirra segir að “áfengisráðgjafi verði að vera talsmaður breytinga á opinberri stefnu og löggjöf sem stuðlað geti að tækifærum og valkostum fyrir alla sem hafa orðið fyrir barðinu á sjúkdómnum alkóhólisma og annarri vímuefnafíkn” einnig segir þar að “ráðgjafar verða að upplýsa almenning með borgaralegri og faglegri þátttöku í félagsmálum og fjölmiðlum um afleiðingar alkóhólisma eða vímuefnafíknar og á allan hátt reyna að tryggja öllum, einkum þurfandi og afskiptum einstaklingum, aðgang að nauðsynlegum úrræðum og þjónustu”. Áfengisráðgjafi verður því að taka persónulega og faglega afstöðu sem stuðlar að almannaheill og koma á framfæri því sem sannanlega getur dregið úr afleiðingu áfengissýkinnar. Þetta leggur mér þær skyldur á herðar að hvetja auglýsendur áfengis að hætta því nú þegar. Ekki vegna þess að það sé lagalega rangt, heldur vegna þess að það siðlaust. 

Í ágætri grein eftir Sigurð Ragnarsson, sem birtist í morgunblaðinu 30. Nóvember undir yfirskriftinni “Þarf að vernda ungmenni okkar fyrir áfengisauglýsingum” gerir hann grein fyrir ýmsum rannsóknum sem styðja þá skoðun okkar að dreifing og sala vímuefna hljóti að lúta öðrum lögmálum en verslun með almennan neysluvarning. Ég vil engu bæta við þessa grein öðru en því að það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra að minnka skaðsemi áfengisdrykkju. Það gerum við ekki ef við höldum áfram að auka heildarneyslu áfengis eins og undanfarin ár, því skaðinn er í réttu hlutfalli við heildarneysluna. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að við erum að auka neyslu áfengis og erum nú að nálgast það magn sem talið eru hættumörk. 

Innan FÁR, eru vel menntaðir áfengisráðgjafar. Þeir eru hluti af heilbrigðiskerfinu og veita þar dýrmæta og sérhæfða þjónustu. Í félaginu eru auk ráðgjafa, læknar og hjúkrunarfræðingar. Innan félagsins er starfandi siðaráð sem er vel til þess fallið að gefa siðferðileg álit þegar þess er þörf. Það ætti því að vera sjálfsagt og eðlilegt fyrir löggjafarvaldið og hagsmunaaðila að leita álits hjá félaginu þegar setja þarf reglur um kynningu, sölu og dreifingu áfengis.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *