Áfengis- og vímuefnaráðgjafar, mikilvæg stétt í heilbrigðiskerfinu
Í tæplega fjóra áratugi hefur verið starfrækt virk meðferð við vímuefnafíkn á Íslandi. Sú starfsstétt sem ber þungan af sjálfu meðferðarstarfinu kallar sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa, þó sú nafngift lýsi ekki nema hluta af starfssviði þeirra. Áfengis- og vímuefnaráðgjafi er sá sem ásamt lækni og hjúkrunarfræðingum er í mestu sambandi við sjúkling í afeitrun, hann er sá aðili í meðferðarstarfi sem er í daglegu og stöðugu sambandi við skjólstæðinginn í inniliggjandi meðferð og hann er sá sem fíknisjúklingar og aðstandendur þeirra hitta í göngudeildum. Það má því segja að áfengis- og vímuefnaráðgjafinn sé andlit þeirrar stofnunnar sem hann starfar hjá.
Um 45 áfengis- og vímuefnaráðgjafar starfa hjá SÁÁ, nokkrir starfa hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi og örfáir starfa alveg sjálfstætt. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar hafa sitt eigið fagfélag sem nefnist Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa – FÁR, þeir fá starfsleyfi sín frá Embætti landlæknis, en stéttarfélag þeirra er SFR.
Áfengis- og vímuefnaráðgjafar leituðu lengi leiða til að sækja sér meiri þekkingar á sviði fíknimeðferðar og sóttu fast að fá viðurkenningu á starfi sínu. Ráðamenn á Íslandi drógu lengi lappirnar í þessum málum og höfðu lítinn áhuga á að koma á viðurkenningu á starfinu og starfsheitinu. Það markaði því mikilvæg tímamót fyrir stéttina þegar Siv Friðleifsdóttir þáverandi heilbrigðisráðherra skrifaði undir reglugerð um lögverndun starfs og starfsheitis árið 2006. Með reglugerðinni fylgdi einnig námsskrá, sú fyrsta sem samin var um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Með reglugerðinni er kveðið skýrt á um að enginn hefur leyfi til að kalla sig áfengis- og vímuefnarágjafa né starfa sem slíkur hér á landi sem ekki hefur fengið til þess útgefið starfsleyfi frá Embætti landlæknis.
Áður en reglugerðin tók gildi höfðu áfengis- og vímuefnaráðgjafar tekið frumkvæði og sett sig í samband við samtök bandarískra áfengisráðgjafa, NAADAC, sem höfðu lengi rekið ráðgjafaskóla fyrir sitt fólk og gert miklar kröfur til sinna félagsmanna um siðferði, fræðilega þekkingu og endurmenntun. Það var gert með það að markmiði að taka þeirra próf. Þetta þótti spennandi og tóku margir áfengis og vímuefnaráðgjafar þessi amerísku próf á árunum áður en íslenska reglugerðin tók gildi. Ráðgjafarnir höfðu frumkvæði að því að setja sér sambærileg markmið hvað varðaði þekkingu, handleiðslu og starfstíma og sanna kunnáttu sína með prófi, á sama hátt og okkar bandarísku kollegar.
Til að fá aðgang að bandaríska skólanum og að prófinu þurfa íslenskir ráðgjafar að uppfylla sömu skilyrði og þeir bandarísku, svo sem eins og að sýna fram á starfsreynslu, þjálfun, handleiðslu og fleira. Til marks um það hvað þessi stétt leggur hart að sér má geta þess að ennþá átta árum eftir að reglugerðin var sett eru ráðgjafarnir að undirbúa sig undir og taka NAADAC prófin þótt þess sé engin þörf lengur.
Til að setja áfengis- og vímuefnaráðgjafanámið eins og það er í dag í samhengi við eitthvað sem við þekkjum þá samsvarar námið bóklegu námi í tvö ár auk starfsþjálfunar í a.m.k. þrjú ár. Á þessu stutta yfirliti sést að áfengisráðgjafar eru tilbúnir að gera miklar kröfur til sín og leggja töluvert á sig til að meðferð vímuefnasjúkra á Íslandi verði áfram ein sú besta í heiminum.
Stjórn FÁR fylgist vel með því sem er að gerast í fræðasamfélaginu á þessu sviði og leggur mikla áherslu á endurmenntun félagsmanna sinna og handleiðslu þeirra. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar hafa með veru sinni í FÁR, undirgengist ákveðinn siðferðisstuðul og reglubundna endurmenntun sem ætti að tryggja skjólstæðingum bestu fáanlega þjónustu hverju sinni.
Höfundur er dagskrárstjóri hjá SÁÁ og hefur starfað sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi í 27 ár.