Áfengis- og vímuefnaráðgjafar er stétt sem verið hefur í mótun á Íslandi í tæp þrjátíu ár. Í upphafi voru það nær eingöngu einstaklingar sem höfðu persónulega reynslu af áfengissýki annað hvort sem alkóhólistar eða aðstandendur þeirra sem urðu áfengisráðgjafar. Þessir frumkvöðlar voru reknir áfram af hugsjón til að bæta stöðu alkóhólista og fjölskyldna þeirra á annan hátt en gert hafði verið fram að því. Nýjar hugmyndir um bata við alkóhólisma og aukinn læknisfræðileg þekking á sjúkdómnum gerði ráð fyrir þessari nýju stétt manna og kvenna innan heilbrigðiskerfisins. Í nýjasta ársriti SÁÁ kemur fram að „Áfengis- og vímuefnaráðgjafar SÁÁ eru um 40. Þeir bera hitan og þungan af endurhæfingunni sem fer fram á göngudeildum og endurhæfingarheimilunum Vík og Staðarfelli.“
Eftir því sem meðferð áfengissjúkra hefur þróast hefur hlutverk áfengis- og vímuefnaráðgjafar breyst mjög mikið. Hjá SÁÁ þar sem ég hef starfað síðan 1997 vinna ráðgjafar, eins og þeir eru kallaðir dags daglega, að ákveðnum verkefnum sem skilgreind hafa verið innan stofnunarinnar í samvinnu við lækna og hjúkrunarfólk. Við höfum ákveðna starfslýsingu sem við störfum eftir og nýtum þau tækifæri sem gefast til að mennta okkur og auka hæfni okkar í starfi. Til þess að geta orðið ráðgjafi þá þarf að hafa vilja til að læra og tileinka sér ákveðnar aðferðir sem viðurkenndar eru í vímuefnalækningum.
Fagmennska er grundvölluð á menntun, þekkingu, siðareglum og faglegum gildum. Þörf er á að móta frumskuldbindingu starfsins sem kveður á um tilgang starfsins og hlutverk þess í samfélaginu og þar með þá þjónustu sem því er ætlað að veita. Skilgreina samfélagslega ábyrgð stéttarinnar og setja kröfur um menntun og færni.
Svo vitnað sé aftur í ársskýrslu SÁÁ þar sem stendur „SÁÁ -samtökin hafa menntað sína áfengis- og vímuefnaráðgjafa sjálf nú um tveggja áratuga skeið og myndað með því nýja stétt sérfróðra heilbrigðisstarfsmanna hér á landi. Smám saman hefur kennslan og handleiðslan fyrir nýju ráðgjafana orðið að skipulögðum ráðgjafaskóla sem SÁÁ starfrækir við sjúkrahúsið Vog í góðri samvinnu við FÁR, Félag áfengisráðgjafa.“
Til þess að áfengisráðgjafar, vímuefnafræðingar eða hvað við kjósum að nefna okkur geti þróast og orðið starfsstétt sem gerðar eru sömu kröfur til og aðrar heilbrigðistétta þurfa að koma til reglusetningar og skilgreiningar frá stjórnvaldinu. Það þarf að setja þennan hóp niður innan heilbrigðiskerfisins og skilgreina hvað þurfi til hvað varðar menntun og hæfni svo vinna megi með vímuefnasjúkum eða standendum þeirra. Einnig þarf að setja reglur um hvernig aðkoma stéttarinnar á að vera að forvörnum og vinnu með ýmsum sérhópum s.s. föngum.
Að lokum langar mig að vitna í siðareglur Félags áfengisráðgjafa um fagleg gildi áfengisráðgjafar
„FÁR samanstendur af atvinnuráðgjöfum sem eru ábyrgir atvinnumenn í umönnun og trúa á reisn og virðingu mannsins. Í starfi sínu leggja þeir áherslu á að siðfræðilegar grundvallarreglur sjálfræðis, velvildar og réttlætis verði að stýra hegðun þeirra. Sem atvinnumenn hafa þeir helgað sig meðferð skjólstæðinga sem eru háðir hverskonar vímuefnum og fjölskyldum þeirra. Þeir trúa að þeir geti veitt meðferð sem virkar á einstaklinga og fjölskyldur. Áfengisráðgjafar helga sig því að vinna til heilla samfélagsins, skjólstæðinga, starfsgreinarinnar og starfsfélaga.“
