Fimmtán ára afmæli FÁR er um þessar mundir. FÁR stendur fyrir Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, en sú stétt hefur verið í mótun á Íslandi í um þrjátíu ár. Upphaflega voru ráðgjafarnir nærri eingöngu einstaklingar sem af eigin raun höfðu reynslu af áfengissýki, sem alkóhólistar eða sem aðstandendur. Þeir voru frumkvöðlar sem reknir voru áfram af hugsjón til þess að bæta stöðu alkóhólista og fjölskyldna þeirra.
Stéttin ber hitann og þungann af þeirri endurhæfingu sem fer fram á göngudeildum og endurhæfingarheimilunum Vík og Staðarfelli. Aukin þekking á sjúkdómnum gerði ráð fyrir þessari nýju stétt innan heilbrigðiskerfisins. Það var þó ekki fyrr en árið 2006 sem starfsheitið áfengisráðgjafi varð löggilt fyrir tilstuðlan Sivjar Friðleifsdóttur þáverandi heilbrigðisráðherra, eftir margra ára baráttu FÁR.
Ráðstefna FÁR er haldin á hverju vori. Þá koma áfengis- og vímuefnaráðgjafar saman til þess að fræðast, fara sameiginlega yfir markmið stéttarinnar og efla tengsl starfandi ráðgafa. Á starfsdögum FÁR sem haldnir eru öðru hverju eru tekin fyrir ákveðin málefni. Þá fræða ráðgjafar aðra félaga um ákveðna fíknisjúkdóma. Spilafíkn var tekin fyrir síðasta starfsdag sem var þann 5. desember.
Upp úr síðustu aldarmótum gerði FÁR samkomulag við bandarísku ráðgjafasamtökin, NAADAC, um að fá leyfi til þess að mennta ráðgjafa hér á Íslandi. Síðan hafa fimmtán íslenskir ráðgjafar lokið réttindaprófi bandarískra ráðgjafa. Tíu þeirra eru starfandi í dag.