Greinar

Hulda Margrét Eggertsdóttir

Hulda

Hlutverk áfengis- og vímuefnaráðgjafans í meðferðinni

Í framhaldi af grein minni um nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa langar mig að útskýra hvert hlutverk ráðgjafans er í meðferðinni. Ég hef mjög oft mætt því viðhorfi að með því að fara í 10 daga á Vog þá sótthreinsist fólk bara eins og heilinn á því hafi verið settur í gegnum heilaþvottavél. Jú, áfengis- og vímuefnafíkn er heilasjúkdómur en þetta er ekki alveg svona einfalt. Ég skil að væntingar fólks séu miklar, bæði sjúklingsins og aðstandenda hans.

Oft hefur mikið gengið á áður en fólk er tilbúið að stíga þessi þungu skref að fara í áfengismeðferð. Þá oft á tíðum á bara að græja þetta og búið. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar starfa á öllum stigum meðferðarinnar í samvinnu við aðrar stéttir eins og lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sálfræðinga og félagsráðgjafa. Í meðferðinni er unnið eftir ákveðinni hugmyndafræði sem hefur verið rannsökuð á vísindalegan hátt. Notað er sérstakt greiningarkerfi ameríska geðlæknisfélagsins DSM-IV til að greina hvort viðkomandi sé með fíknisjúkdóm.

Á göngudeild kemur fólk í viðtal og hægt er að skima með ákveðnum listum hvort það séu vísbendingar um áfengis- og vímuefnavanda. Endanleg greining er gerð af læknum á Vogi.

Hlutverk ráðgjafans er að komast að því með viðkomandi hvort áfengis- og vímuefnafíkn sé vandamál og hvað hann vilji gera ef svo er. Á Vogi er unnið í svokölluðu meðferðarteymi, þar koma að meðferðinni læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar.

Hlutverk ráðgjafans er að halda fyrirlestra um fíknisjúkdóminn, halda utan um meðferðarhóp, taka sjúklinginn í viðtöl og fylgjast með hvernig afeitrun gengur.  

Á Vogi er lágmark 10 dagar en sumir þurfa að vera lengur. Afeitrun tekur mislangan tíma eftir ástandi fólks og notkun vímugjafa. Í fyrstu tekur ráðgjafinn á móti sjúklingnum og hjálpar honum að komast inn í meðferðardagskrána. Fólk er í mismunandi ásigkomulagi, andlega og líkamlega. Sumir eru mjög veikir í byrjun og þurfa mikla aðhlynningu hjúkrunarfólks.

Hlutverk ráðgjafans á Vogi er að hjálpa viðkomandi að átta sig á hvort hann sé með þennan sjúkdóm, áfengis- og vímuefnafíkn. Sjúklingurinn situr þrjá fyrirlestra á dag sem fluttir eru af læknum og ráðgjöfum, til þess að átta sig á hvort hann sé á réttum stað. Hvort áfengis- og vímuefnafíkn sé aðalvandinn. Eins stjórnar ráðgjafinn meðferðarhóp þar sem áfram er unnið með svipuð markmið.

Fólk kemur á Vog af ýmsum ástæðum. Það er ekki nóg að makanum finnist maður vera alkóhólisti, það hefur ákveðið vægi, en sjúklingurinn þarf að sjá það sjálfur og geta talað um sig sem slíkan. Það er ekki sjálfgefið að fólk sem hefur farið í meðferð áður geti gert grein fyrir sér sem alkóhólisti. Í þessu ferli erum við líka að kynnast fólki, hverjar eru félagslegar aðstæður þess. Á það heimili, er drykkja heima, er lítill stuðningur, er viðkomandi með tekjur, er viðkomandi með vinnu, í hvernig tengslum er hann við fólkið sitt?

Ekki að það sé hlutverk ráðgjafans að laga þetta heldur að hjálpa alkóhólistanum að átta sig á hvaða stuðning hann hefur þegar út er komið. Svo ef viðkomandi er á því eftir þessa fræðslu og afeitrun að hann sé með þennan sjúkdóm þá þarf ráðgjafinn að hjálpa sjúklingnum að átta sig á hvað hann vill gera. Vill hann hætta neyslu og breyta um lífsstíl, vill hann fara í eftirmeðferð og fræðast meira um sjúkdóminn og leiðir til að öðlast edrú líf? Vill hann bara taka afeitrun á Vogi og svo spreyta sig sjálfur?

Ef viðkomandi vill fara í eftirmeðferð þá geta verið ýmis vandamál sem standa í vegi fyrir því og þá þarf að ræða lausnir á því. Allt þetta þarf að gera á 10 dögum þar sem fólk kemur inn í miklu ójafnvægi, oft er allt í klessu, fólk veit ekki hvort hjónabandið muni halda, hvort það haldi vinnunni, missi ökuskírteinið, fái dóm og svo framvegis. Það er oft búið að ganga mjög nærri sér áður en það er tilbúið að stíga þetta skref að fara inn á Vog.

Svo þarf það að velta því fyrir sér hvort það sé með þennan heilasjúkdóm sem mörgum finnst ekki vera sjúkdómur heldur bara aumingjaskapur. Svo hefur kannski ekki runnið af fólki almennilega í mörg ár og það er með allskyns fráhvarfseinkenni. Í þessu öllu saman þarf fólk að nota heilann sinn sem víbrar af álagi og streitu til þess að taka stórar ákvarðanir um líf sitt. Svo kemur inn í þetta vonleysi, vanlíðan, afneitun, óþolinmæði og depurð. Þannig að í raun eru 10 dagar mjög stuttur tími.

Ef fólk fer í eftirmeðferð, þá eru það 28 dagar á Staðarfelli eða Vík með stuðningi á göngudeild í allt að ár eða göngudeildarmeðferð. Margir mega ekki vera að þessu, eru búnir að sitja alla fyrirlestrana. Þurfa að drífa sig heim að gera og græja málin. Það vill helst bara vera átta og hálfan dag. Það tekur tíma að breyta lífi sínu, venjum og viðhorfum. Það gerist ekki bara á 10 dögum á Vogi eða 28 dögum í eftirmeðferð. Heilinn þarf tíma til að jafna sig og geta fólks til að vinna úr sínum málum eykst eftir því sem viðkomandi er lengur edrú og streituþröskuldur fólks hækkar.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafinn lagar mann ekki en hans hlutverk að beina fólki í réttan farveg.

Nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa

Sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi með löggildingu frá Landlæknisembættinu og með amerísku NAADAC-réttindin þá langar mig aðeins að upplýsa hvað felst í því að mega nota þessa titla.

Löggilt starfsheiti

Það var ekki fyrr en árið 2007 sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar fengu löggildingu frá landlækni eftir mikla baráttu meðal annars fagfélagsins FÁR, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, fyrir því að fá viðurkenningu á þessari fagstétt. Það er útbreiddur misskilningur að til þess að geta kallað sig áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé nóg að hafa drukkið slatta af áfengi eða reykt nokkur kíló af kannabis og vera góður AA-maður. Bara til að komast í kynningaviku fyrir starfsnámið þá fór ég í starfsviðtal hjá Þórarni Tyrfingssyni, yfirlækni á Vogi, Hjalta Björnssyni, dagskrárstjóra SÁÁ, og Sigurði Gunnsteinssyni, skólastjóra yfir starfsnáminu. Þetta eru menn sem hafa samanlagt yfir 100 ára reynslu og þekkingu á áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Sækja ráðstefnur erlendis árlega og taka þátt í alþjóðlegu starfi um áfengis- og vímuefnameðferð. Í mínu námi hef ég þurft að fara sífellt í gegnum mat og endurmat á þekkingu minni

Ég hef starfað í tæp sjö ár undir handleiðslu þessara og fleiri góðra manna og kvenna. Hvað þýðir það? Þeir hafa horft á mig halda fyrirlestra um fíknisjúkdóminn þar sem er farið inn á læknisfræði, geðlæknisfræði og sálfræðikenningar. Kennt mér viðtalstækni eins og motivational interviewing. Kennt mér á mannlegt eðli, að snúa mótþróa í samvinnu og vonleysi í von. Setið í meðferðarhópum og fylgst með mér vinna. Setið með mér í viðtölum. Bent mér á, gagnrýnt og stutt. Ég hef tekið þrjú skrifleg próf um almenna þekkingu í afeitrun og meðferðarvinnu, lyfjafræðipróf og próf um sálfræðikenningar og viðurkenndar aðferðir í meðferð. Í þessum prófum þarf maður að fá 7 til að ná og þetta eru krossapróf þar sem eru fjórir valmöguleikar og fleiri en einn getur verið réttur.

Starfsnámið

Í starfsnáminu þarf maður að vinna 6.000 tíma í meðferðinni, standast þessi þrjú próf, 200 tíma undir handleiðslu og sitja 300 fræðslutíma. Svo þegar maður sækir um til landlæknis þá fer það fyrir sérstaka nefnd. Auk þess að hafa farið í gegnum allt þetta þá þarf að fylgja með bréf þar sem segir að maður sé góð manneskja með gott siðferði og hafi öðlast þá þekkingu sem er krafist. Þetta var bara það sem maður þarf að gera til að fá réttindabréf frá landlækni.

Svo eru það NAADAC-réttindin. Þá þarf að gangast undir 250 spurninga krossapróf á ensku þar sem eru fjórir valmöguleikar, margir geta verið réttir en þá er það sá sem er réttastur. Í því prófi þarf að fá 7. Þetta próf kemur frá Bandaríkjunum og er sama prófið og tekið á sömu forsendum og ráðgjafar gera þar. Mjög strangar reglur eru um yfirsetu og próftökuna, svo er prófið sent út og farið yfir það þar. Íslensku ráðgjafarnir hafa verið að standa sig betur en þeir amerísku í þessu prófi þrátt fyrir að vera að taka próf á öðru tungumáli og vera að taka próf sem er sniðið að bandarískri menningu. Svo er það aðalprófið sem þarf að ganga í gegnum og það er að standast prófið gagnvart sjúklingnum. Það er á hverjum degi erfiðasta prófið og þeir eru miklu strangri en Þórarinn Tyrfings í einkunnagjöf. Maður fær annaðhvort 7 eða –10...

Þekkingin er til staðar

Að segja að nám áfengis- og vímuefnaráðgjafa sé í ólestri og í skötulíki finnst mér óvægið. Áfengis- og vímuefnameðferðin er ung, læknisfræði er mörg þúsund ára gömul til að mynda. En meðferðin er alltaf að þróast og alltaf má bæta og laga. Ég fagna því að fólk berjist fyrir því. Eins þarf að styrkja stöðu þessarar starfsstéttar og standa vörð um þá miklu þekkingu sem hefur orðið til hérna á Íslandi. Það þarf til að mynda að fræða betur heilbrigðisstéttir um áfengis- og vímuefnafíkn. Því heilbrigðisstarfsfólk er oft í lykilaðstöðu að hafa áhrif á alkóhólista þannig að þeir leiti sér hjálpar fyrr. En þegar fólk stígur inn í meðferðina þá kannski áttar það sig ekki á hvað liggur að baki meðferðinni. Hugmyndafræðin, þekkingin á bak við og hvað ráðgjafinn hefur þurft að læra. Þetta er ekki eitthvað sem við finnum upp á, á kaffistofunni og notum handahófskennt. Vissir þú þetta?


Höfundur er áfengis- og vímuefnaráðgjafi CAC hjá SÁÁ-sjúkrastofnunum.