Greinar

Kristbjörg Halla Magnúsdóttir

kristbjorg h magnusd

Hvernig konur fara í áfengismeðferð ?

Um þriðjungur þeirra sem leita til SÁÁ eru konur. 4% íslenskra kvenna 15 ára og eldri hafa komið á sjúkrahúsið Vog, um 7000 einstaklingar frá upphafi og yfir 500 konur á ári. 200-250 kvennanna fara í áframhaldandi meðferð á endurhæfingarheimilinu Vík á Kjalarnesi. Þar er boðið upp á sérstaka kvennameðferð.

Kvennameðferð SÁÁ

Kvennameðferðin var sett á laggirnar árið 1995 og var miðuð við þarfir og sérstöðu kvenna með fíknisjúkdóm. Árið 2003 var ákveðið að kynjaskipta meðferðarhópunum alfarið og allar konur sem fara í inniliggjandi meðferð hjá SÁÁ eru nú í kvennahópum en ekki blönduðum hópum eins og áður var boðið uppá. Á Vík fer þó fram önnur meðferð samhliða kvennameðferðinni.

Í kvennameðferðinni er lögð áhersla á að mæta konum sem glíma við alkóhólisma og verða oft fyrir meiri fordómum og skilningsleysi en karlmenn með sama sjúkdóm. Sjálfsmynd þeirra er oft brotin því þær upplifa að þær hafi brugðist, margar koma úr erfiðum samböndum og hafa orðið fyrir ofbeldi, þeim er hætt við að einangra sig og því þarf að gæta vel að stuðningi eftir meðferðina.

Að vinna sig út úr einangrun

Í meðferðinni er áhersla lögð á að kenna og hjálpa konum að ráða við fíkn, vinna sig út úr einangrun, ná eðlilegu sambandi við maka og börn, bæta sjálfsvirðinguna, ná lágmarksjafnvægi og fjalla um ýmis viðkæm málefni kvenna, með áherslu á að fræða þær um eðli fíknisjúkdómsins og hjálpa þeim að undirbúa sig undir breytinguna sem verður þegar neysla er stöðvuð, auk þess að gera þær færar um að fást við þau mál sem upp geta komið á fyrstu stigum edrúmennsku.

Hluti af meðferðarvinnunni er að aðstoða konur við að raða verkefnum sínum í rétta röð svo góður árangur náist þegar heim er komið. Þegar fólk er veikt af alkóhólisma er það svo fyrirferðamikill hluti af lífi fólks að til að ná tökum á öðrum þáttum í lífinu skiptir miklu máli að ná tökum á þeim skæða sjúkdómi sem alkóhólismi er og komast í jafnvægi.

Kvennameðferðin er sett upp í þrjá hluta. Sá fyrsti byrjar á 10-15 daga dvöl á sjúkrahúsinu Vogi þar sem konur fara í undirbúningshóp áður en þær fara í endurhæfingu á Vík. Á Vogi eru verkefni mismunandi og áherslur aðrar en í almenna prógramminu. Konurnar eru í sér hóp og fá fyrirlestra og fræðslu sniðnar að þeim. Þegar þær eru búnar með undirbúningshópinn og eru orðnar líkamlega og andlega tilbúnar fara þær áfram á Vík.

Endurhæfingarheimilið Vík

Endurhæfingarheimilið Vík tekur um 32 sjúklinga. Kvennameðferðin fer þar fram. Hún tekur 28 daga og er mikil áhersla lögð á fræðslu, hópvinnu og einkaviðtöl með það að leiðarljósi að konurnar fái betri innsýn í sinn vanda og verkefnin sem bíða þeirra þegar út í lífið er komið. Einnig er þeim hjálpað við að komast í góða rútínu með svefn, mataræði og hreyfingu. 

Eftir að meðferð á Vík er lokið er ársstuðningur í boði í göngudeild SÁÁ í Efstaleiti, VON. Fyrstu þrjá mánuðina er eftirfylgni tvisvar í viku og svo tekur við níu mánaða skeið þar sem konur koma einu sinni í viku, en að þeim tíma loknum eru þær útskrifaðar úr meðferðinni með það í farteskinu að þær geti leitað til SÁÁ og verið í sambandi þó að formlegri kvennameðferð sé lokið.

Á Akureyri er eftirfylgni í boði einu sinni í viku í heilt ár. Í eftirfylgninni er unnið áfram að markmiðum sem á undan eru nefnd, en vaxandi áhersla lögð á að konurnar séu virkar félagslega og hópstarfið sé skemmtilegt, styðjandi og upplífgandi.

Meðferðarformið hefur gefið góða raun og hjálpað mörgum konum út úr sínum áfengis og vímuefnavanda. Konurnar sem koma til okkar eru eins mismunandi og þær eru margar, með mismunandi mynstur í sínum neysluvenjum. Þær drekka „bara bjór“, nota vímuefni, hafa vanda vegna læknalyfja, drekka daglega, sjaldan, í túrum og allt þar fram eftir götunum. Þær koma frá allskonar heimilum, sinna allavega störfum í þjóðfélaginu, eiga börn, eru ömmur,eru barnlausar, búa út á landi, í útlöndum, í Reykjavík og svona væri lengi hægt að telja.

Alvarlegur krónískur heilasjúkdómur

Þær eiga það allar sameiginlegt að glíma við alkóhólisma sem er langvinnur, alvarlegur, krónískur heilasjúkdómur sem hefur tilhneigingu til að versna og versna með tímanum. Meðferðin er í stöðugri þróun þótt grunnurinn sé alltaf sá sami og eflaust myndu konur sem hafa nýtt sér þessa meðferð á árum áður ekki þekkja allt sem meðferðin býður uppá í dag. Meðferðin breytist, og í sumum tilfellum breytist sjúklingahópurinn.

Ég vona að með aukinni umræðu verði hindranirnar færri fyrir konur sem leita sér aðstoðar. Þær hafa oft á tíðum verið lengi á leiðinni að leita sér hjálpar og tengja kvíðann, þunglyndið og stjórnleysið sem oft fylgir neyslunni ekki saman. Þær eru því lengur á leiðinni til okkar og hafa verið í miklum feluleik með áfengis- eða vímuefnanotkunina.

Konurnar geta verið illa á sig komnar þegar þær koma til okkar og við gerum allt sem við getum til að taka vel á móti þeim, styðja þær og styrkja. Við hjálpum þeim að byggja upp sjálfstraust og veita þeim verkfæri til að takast á við verkefnin í lífi án áfengis og vímuefna. Það er alltaf réttur tími til að gera eitthvað í málunum !

Réttar upplýsingar fást hjá réttum aðilum 

Í tilefni umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga um mál menntunar áfengis- og vímuefnaráðgjafa og hlutverk þeirra í meðferð þá langar mig að leggja orð í belg.

Umræðan hefur verið einhliða frá félagi sem berst fyrir málefnum kvenna með áfengis og fíknvanda, málefni sem mér finnst þarft og alltaf pláss að ræða hvernig hægt er að bæta hag alkóhólista og hvað má gera betur.Það sem mér þykir undarlegt er að þær sem harðast gagnrýna og hafa skoðanir á þessum málum virðast ekki hafa kynnt sér málin nægilega vel og geta sér til um og álykta og hafa ekki haft samband til að fá að vita hvernig málum er háttað.Ég gleðst yfir  áhuga á málaflokknum, harma aðferðirnar.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar eru ný fagstétt í raun og veru, fengu löggildingu, viðurkenningu og skilgreiningu á starfinu og hvað þyrfti til að geta kallað sig þessum starfstitli 2006.Þó árum saman hafi áfengisráðgjafar verið til og starfað í þverfaglegu teymi.Við höfum barist fyrir því að fá nám okkar metið og fögnum áhuganum á því að standa vörð um að fagfólk sinni áfengissjúkum. 
Það að segja að nám okkar sé í skötulíki og að ekkert sé að gerast finnst mér best lýsa þörfinni á að kynna þetta betur fyrir fólki hvað það er sem áfengis- og vímuefnaráðgjafar gera í sínu starfi og til að geta kallað sig þeim starfstitli.Til er námsskrá sem samþykkt var árið 2006 á sama tíma og reglugerð um starf og starfsheiti og hefur verið kennt samkvæmt henni síðan. Að sjálfsögðu má ræða það hvort hún sé nægilega góð eða þurfi að enduskoða hlutina.

Mjög víðtæk og markviss fræðsla í margskonar málefnum tengdum alkahólistum, mannlegu eðli, lyfjafræði, viðtalatækni, siðfræði,kenningum í  sálarfræði, áhugahvetjandi samtalstækni,hópvinnu og svona væri lengi hægt að telja. Okkar þekking er í stöðugu mati og endurmati og þrátt fyrir að hafa unnið í þessum geira í rúm 9 ár, tekið formleg próf fengið löggildingu frá landlækni og löngu orðin „útskrifuð“ þá vitum við að þegar unnið er með fólki þá er maður líklega seint fullnuma. Þess vegna er horft á okkur vinna reglulega, við gagnrýnd studd og hjálpað til að geta verið sem færust í okkar starfi.Við sækjum okkur endurmenntun allt árið um kring innanlands og utan.Í okkar hópi er margra áratuga reynsla af þessari vinnu, þekking sem er uppfærð reglulega og viljum við svo sannarlega vanda til verka og höfum mikinn metnað í okkar starfi.Við erum ekki sálfræðingar, geðlæknar eða félagsráðgjafar og gefum okkur ekki út sem slíkir og vinnum ekki þeirra störf.

Að halda því fram að meðferðin okkar sé byggð á 12.spora vinnu og áfengis- og  vímuefnaráðgjafar séu fólk sem styðst eingöngu við   persónulega reynslu er röng staðhæfing og umræða  á villigötum. Rétt er það að mörg okkar höfum reynslu af þessum málefnum, enda er það mjög oft það sem kveikir áhuga margra á starfinu þó það sé ekki algilt. Því hryggir það mig að sjá umræðu sem gæti fælt fólk frá því að leita sér aðstoðar.

Og að tjá sig um þesskonar mál sem eiga heima hjá landlækni í fjölmiðlum og mála upp svarta mynd af starfseminni og sjúklingunum sem hingað leita í einhliða alhæfingum og á ómálefnalegann hátt er í besta falli óheppilegt fyrir þá aðila sem hafa komið eða þurfa að koma og leita sér aðstoðar. Án þess að vilja gera lítið úr þeim málum sem upp geta komið.
Öll mál sem koma upp á heilbrigðisstofnunm fara í ákveðna verkferla, hægt er að tilkynna, láta rannsaka og fá upplýsingar um hvernig best er að snúa sér í þeim málum og hvet ég þá sem telja sig eiga erindi í slíka vinnu að gera það.Gagnrýni er af hinu góða, ef að fólk þekkir efnistökin vel og er að rýna til gagns. Gisk, ályktanir og umræða byggð á vanþekkingu á málefninu er ekki neinum til góðs.

Við hvern er ég að tala?

Þegar ég hef þurft að sækja mér þjónustu þá hef ég gengið  út frá því að ég sé að tala við fagfólk. Læknarnir sem ég hef talað við í gegnum tíðina viti meira um lyf og starfsemi líkamans en ég, að tölvuviðgerðarþjónustan kunni sitt fag og ég er fullkomlega sannfærð um að bifvélavirkinn sem gerir við bílinn minn sé betri í því en ég. Það hefur margsannað sig í gegnum tíðina að svona sé þessu háttað hjá mér og ég veit að ég eins og fleiri án sérstakrar ákvörðunnar treysti því að ég sé að tala við fagmann þegar ég sæki mér þjónustu.Ekki síst í heilbrigðiskerfinu.

Enda þurfum við ekki að treysta blint á það, það eru til lög fyrir heilbrigðisstarfsfólk.Í þeim er m.a fjallað um hvaða stéttir eru löggiltar heilbrigðisstéttir, hverjir fá starfsleyfi,réttindi,skyldur, faglegar kröfur og fleira. Ég er heilbrigðiststarfsmaður. Löggiltur Áfengis og vímuefnaráðgjafi og hef starfað við áfengisráðgjöf 9 ár. Okkar stétt er fámenn og fékk lögverndun á starfsheitið 2006 og gat í raun hver sem er fram að því kallað sig áfengisráðgjafa sýndist þeim svo.

Áður en lögverndun starfheitisins kom til hafði fagið verið í mótun í  rúm 30 ár svo starfið er ekki nýtt þó lögverndunin sé ekki gömul. Á upphafsárum voru ráðgjafar  fyrst og fremst hugsjónarfólk með persónulega reynslu í farteskinu af áfengissýki og  höfðu óbrennandi áhuga á því að bæta hag alkóhólista og aðstandenda þeirra og með tímanum bætist við þekking og ómetanleg reynsla sem kemur fram í skipulögðu námi og mikilli áherslu á að gera vel,veita góða og faglega þjónustu.

Til er reglugerð um um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa(nr.974/2006) Hægt að læra áfengis og vímuefnaráðgjöf á tveimur stöðum í dag, hjá Sáá og Landspítalanum og hvergi annarstaðar þó til séu stutt námskeið utan þessara staða sem skilar fólki ekki löggiltum réttindum til að starfa sem áfengis og vímuefnaráðgjafar. Í náminu fær maður mikilvægann grunn, markvissa þjálfun og handleiðslu ásamt kröfu um endurmenntun að formlegu námi loknu. Enda verður maður seint fullnuma þegar kemur að því að vinna með fólki.

Við störfum við hlið annara heilbrigðiststarfsmanna og erum ekki að vinna sem eyland í þessum geira, við höldum ekki út prógrammi sem er til þess ætlað að meðhöndla alkóhólista á eigin spýtur án eðlilegs eftirlits og samstarfs við aðrar stéttir. Við þurfum ekki að horfa langt aftur í tímann til að sjá skaðann sem getur orðið þegar “einhverjir” vinna þetta mikilvæga starf án menntunar, eftirlits og gæðastjórnunar

Áfengis og vímuefnaráðgjafar eru mikilvægir hlekkir í meðferðarkeðjunni. Í meðferð við sjúkdómi sem snert hefur flest heimili Íslands á einn eða annan hátt. Áfengissýki er algengur sjúkdómur og er fjöldinn allur af fólki allt árið um kring að leita leiða til að ná tökum á sínum sjúkdómi.Þar sem ég vinn erum við hluti af þverfaglegu teymi þar sem verkaskiptingin er öllum ljós og starfsfólk veit hvaða hlutverk það gegnir í þeim hópi.Við vitum líka hvert við eigum að leita ef við erum óviss, þurfum að fá álit annara eða eitthvað vefst fyrir okkur í okkar daglegu störfum. Þannig virkar skipulögð teymisvinna

Lög um heilbrigðisstarfsmenn eru í mörgum liðum og er markmið laganna að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með kröfum um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðiststarfsmanna og starfshátta þeirra, ásamt því að hafa ákvæði um þá sem eru að sinna þessum störfum án þess að hafa formlega þjálfun eða eftirlit á bakvið sig.

Í 10.gr í lögum um heilbrigðiststarfsmenn er fjallað um óheimila notkun starfsheita og fjallar um í okkar tilfelli að það má ekki hver sem er  veita áfengismeðferð eða kalla sig áfengis og vímuefnaráðgjafa eða sinna störfum þeirra þó þeir kalli sig eitthvað annað. Það er ekki nóg að hafa farið á námskeið, hafa áhuga eða hafa farið sjálfur í gegnum áfengismeðferð til að geta veitt slíka þjónustu. Einnig eru komin inn refsiákvæði (28gr)sem leggja enn meiri áherslu á að tryggja öryggi sjúklinga og aðstandenda þeirra og tekið er fram að brot á þessum lögum varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum

Ekki myndi ég sækja mér læknisþjónustu til einstaklings sem hefur þá einu reynslu að hafa oft farið til læknis sjálfur, lesið læknablaðið eða farið á stutt námskeið eða færi með bílinn í viðgerð til einhvers sem hefur mikla reynslu af því að sitja í bíl og kann að nefna margar mismunandi tegundir af bílum.

Það er ekki bara óheppilegt eða óábyrgt ef að einhverjir sem ekki til þess hafa réttindi kalli sig áfengis og vímuefnaráðgjafa eða sinni þeim störfum undir öðrum nöfnum. Það varðar við lög. Alkóhólistar og aðstandendur þeirra eiga rétt á bestu mögulegu meðhöndlun í sínum veikindum. Það er eðlileg spurning að spurja hver það er sem gefur út starfsleyfi þess sem við erum að fá ráðleggingar frá, hver er bakvið stofnunina og hvaða þjálfun fólk hefur fengið.Við þurfum að vita við hvern við erum að tala.

Kristbjörg Halla Magnúsdóttir
Áfengis- og vímuefnaráðgjafi á sjúkrahúsinu Vogi