Greinar

Magnús Einarsson

portrait magnus e

Mikil umræða hefur verið undanfarið um misnotkun og misbeitingu þeirra þegna samfélagsins sem aumastir eru. Það var varla svo að samfélagið hefði jafnað sig á fréttum af misnotkun veiks fólks í Byrginu er yfir okkur dundu fréttir, viðtöl og vitnisburðir um harðræði og misþyrmingar í Breiðavík á árum áður. Væntanlega á fleira eftir að kom upp úr fortíðarpokanum og ekki nema von ef orð formanns fjárlaganefndar Alþingis eiga sér og hafa átt sér fleiri formælendur á Alþingi. Birkir Jón Jónsson hafði þetta til málana að leggja árið 2003 í viðræðum við embættismenn félagsmálaráðuneytisins: "Ef starfsemi Byrgisins á alfarið að fara eftir lögum um heilbrigðisþjónustu þá mun kostnaðurinn verða margfalt hærri en nú er áætlað." Hér heggur sá er hlífa skyldi.

Reynslan getur verið harður kennari en verra er ef menn hafa ekki dug til að taka lexíunni og eru ekki tilbúnir að horfast í augu við afleiðingar og breyta um stefnu út frá því. Vissulega er aðhald við meðferð opinberra fjármuna nauðsynlegt en það er ómannúðlegt stjórnkerfi sem metur fjármuni meira en fólk.

SÁÁ eru almannasamtök fólks sem láta sig velferð vímuefnasjúkra og aðstandenda þeirra varða. Nú er staðan sú að tap á rekstri samtakanna er orðið of mikið til þess að samtökin geti brúað bilið. Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun, mæt stofnun sem stjórnmálamenn vísa gjarnan í þegar það hentar þeim, hefði gert athugasemdir við að SÁÁ borgaði of stóran hluta meðferðarinnar klifa menn á því að úrræðið kosti of margar krónur. En hvað fáum við í staðinn? Samkvæmt tölulegum upplýsingum SÁÁ hafa ríflega 18.000 manns lagst inn á sjúkrastofnanir þess frá upphafi, þar af hafa u.þ.b. 79% komið 3 sinnum eða sjaldnar til meðferðar sem ég hygg að teljist góður árangur miðað við sambærilega sjúkdóma.


Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, hefur látið hafa eftir sér að til að spara peninga væri réttast að meðhöndla fleiri á göngudeildum í stað þess að leggja þá inn á sjúkrahús. Á Davíð þar við að heilbrigðisráðuneytið ætli að auka fjárframlög til göngudeildar SÁÁ? Á síðasta ári greiddi ríkið u.þ.b. 25 milljónir en reksturinn kostaði rösklega 60 milljónir sem þýðir að það stóðu 35 milljónir út af í árslok. Er Davíð að segja að ráðuneytið sé tilbúið að greiða þann halla eða er hann að segja að hann vilji meiri þjónustu fyrir sama verð? Ráðuneytisstjórinn hefur ekki tilgreint þá sérfræðinga sem telja að meðhöndla mætti fleiri veika vímuefnasjúklinga á göngudeild, en vitað er um einn erlendan háskólakennara sem dvaldi hérna yfir helgi fyrir tíu árum og skilaði greinargerð sem hann var beðinn um í kjölfar heimsóknarinnar. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins velkist ekki í vafa um hvað ráðuneytisstjórinn er að fara þegar hann segir að það heyrist langar leiðir að skrifstofuveldið í stjórnarráðinu sé að láta til sín taka. Í leiðaranum er svo spurt "Hverjum dettur í hug að fólk sé lagt inn á Vog að tilefnislausu?"

Líklegast er að hér sé háttvirtur ráðuneytisstjórinn á sömu buxunum og háttvirtur formaður fjárlaganefndar, þingmaðurinn Birkir Jón, og hann tími ekki að fara að lögum.

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum um áfengis- og vímuefnameðferð undanfarið og sýnist þar sitt hverjum. Undirritaður hefur starfað við áfengis- og vímuefnaráðgjöf síðan 1997 og hefur séð miklar breytingar á starfi áfengis- og vímuefnaráðgjafa og því meðferðarumhverfi sem hefur verið byggt upp á Íslandi undanfarin þrjátíu ár. Meðferðarumhverfi þar sem tilvera SÁÁ hefur verið hrygglengjan í því að aðstoða einstaklinga sem eru veikir af áfengis- og vímuefnafíkn. Ekki ætla ég mér að fara að munnhöggvast við starfsmenn annarra aðila sem vilja láta gott af sér leiða en ástæðan fyrir því að ég set þessi orð á blað er að nokkurs misskilning virðist gæta varðandi meðferð SÁÁ, á hverju hún er byggð og hvernig hún varð til.

Í ársskýrslu SÁÁ fyrir árið 2005 segir á bls 16.

"Frá upphafi hefur SÁÁ litið svo á að áfengis- og vímuefnafíkn sé sjúkdómur. Hlutverk samtakanna er að vinna að því að í landinu sé besta fáanlega meðferð fyrir vímuefnafíkla og aðstandendur þeirra.
Samtökin reka sérhæfðar sjúkrastofnanir og ráða fagfólk til starfa. Hugmyndafræði þessa fagfólks er fyrst og fremst sú, að standa föstum fótum í læknisfræði, sálarfræði og félagsvísindum og samtvinna þetta þrennt með það að markmiði að búa til heilstæða áfengis- og vímuefnameðferð sem býður upp á fjölbreytta möguleika og kemur til móts við sem flesta. Í meðferðinni er reynt að sameina heilbrigðisþjónustu og félagslega endurhæfingu og aðstoð. Hugmyndagrundvöllurinn er fyrst og fremst vísindalegar rannsóknir á sviði heilbrigðisþjónustu, sálarfræði og félagsvísinda."

Í Blaðinu 20. janúar s.l. fullyrðir Heiðar Guðnason forstöðumaður Samhjálpar að meðferð SÁÁ sé byggð á sporum AA samtakanna. Það er einfaldlega ekki rétt og lýsir kannski vanþekkingu fólks á því hvað meðferð er og hvað ekki. Hefði Heiðar haft fyrir því að kynna sér meðferð SÁÁ þá hefði honum orðið ljóst að það er regin munur á því að fræða áfengis- og vímuefnasjúklinga um AA samtökin, hvetja þá til að notfæra sér þjónustu þeirra og því að ætla að meðferða fólk samkvæmt þekkingu sem var góð og gild fyrir miðja síðustu öld.

Þeim sem vilja kynna sér AA samtökin og hugmyndafræði þeirra er bent á mjög góða grein eftir Hjalta Björnsson NCAC sem er að finna á vef Félags áfengis- og vímuefnaráðgjafa og einnig er hægt að kynna sér þróun meðferðar á vef SÁÁ www.saa.is en þar er ritað um meðferð:
"Þekking á áfengissýki- og vímuefnafíkn hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin 25 ár. Munar hér mestu um undraverðar framfarir í þekkingu okkar á uppbyggingu og starfsemi heilans og áhrifum vímuefna á hann."


Vímuefnasjúklingur sem kemur til meðferðar kemur ekki vegna þess að hann hafi um það fullkomlega frjálst val. Hann kemur til meðferðar vegna þess að valkostum hans til að lifa eðlilegu lífi hefur fækkað eftir því sem sjúkdómurinn þróast. Sjálfsmyndin hefur orðið fyrir barðinu á sjúkdómnum og hugrekkið til að takast á við daglegt líf án vímuefna fer þverrandi.

Það að efla trú fólks og skilning á sjálfu sér er mikilvægara en fá það til að vitna í Heilaga ritningu og leita svarar þar eins og gert er á sumum stöðum. Við skulum ekki gleyma því að Biblían er byggð á texta sem ekki hefur breyst í árþúsundir og hugmyndafræðin sem birtist í þeirri góðu bók er byggð á þekkingu sem fólk hafði þegar textinn var ritaður. Í grunninn gildir hið sama um texta AA. Meðferð SÁÁ hefur byggst á þeirri vísindalegu þekkingu sem liggur fyrir á hverjum tíma m.a. í líffræði, sálarfræði, félagsvísindum og læknisfræði.

Kjarkleysi og kvíði eru afleiðingar síversnandi vímuefnasjúkdóms en ekki ástæða fyrir neyslu. Það er okkar fagfólks að skoða á hlutlausan hátt og með augum vísindanna hvað er að gerast og hvernig. Það felur í sér að leggja verður á hilluna hverskonar fordóma og siðferðilega mælikvarða og einbeita okkur að vinna með það sem við vitum en gleyma okkur ekki í óskhyggju og því sem við viljum.

Vímuefnasjúklingar eru í upphafi batans mjög háðir meðferðaraðilanum. Þar sækja þeir hvatningu, fyrirmyndir og dómgreind. Þetta hafa mörg trúarsamtök og siðlausir einstaklingar notfært sér til að stýra sjúklingum til þess lífs sem þau vilja en ekki til þess lífs sem einstaklingurinn velur sér sjálfur. Þetta er vel þekkt og rannsakað og má benda á bækur Leo Booths, s.s.When God Becomes a Drug ofl., þessu til stuðnings. Það væri afar heimskulegt að ætla að þetta ætti ekki við í svipuðum aðstæðum á Íslandi. Grundvallargildi SÁÁ er að finna á vef samtakanna www.saa.is

"Samtökin eru laus við fordóma og hvers konar ofstæki, enda byggist starf þeirra á læknisfræðilegri þekkingu og virðingu fyrir fólki. SÁÁ vinnur sína vinnu í hljóði og með þeirri ábyrgð sem hæfir viðfangsefninu. Ódýrar patentlausnir og innantóm slagorð hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá SÁÁ."

Að lokum vil ég hvetja þingmenn og ráðherra til að leita sér upplýsinga hjá fagaðilum sem mesta reynslu hafa á þessu sviði í landinu en láta ekki undan þrýstingi um ódýrar skyndilausnir sem leiða til þjáninga þeirra sem síst skyldi.

Áfengis- og vímuefnaráðgjafar er stétt sem verið hefur í mótun á Íslandi í tæp þrjátíu ár. Í upphafi voru það nær eingöngu einstaklingar sem höfðu persónulega reynslu af áfengissýki annað hvort sem alkóhólistar eða aðstandendur þeirra sem urðu áfengisráðgjafar. Þessir frumkvöðlar voru reknir áfram af hugsjón til að bæta stöðu alkóhólista og fjölskyldna þeirra á annan hátt en gert hafði verið fram að því. Nýjar hugmyndir um bata við alkóhólisma og aukinn læknisfræðileg þekking á sjúkdómnum gerði ráð fyrir þessari nýju stétt manna og kvenna innan heilbrigðiskerfisins. Í nýjasta ársriti SÁÁ kemur fram að „Áfengis- og vímuefnaráðgjafar SÁÁ eru um 40. Þeir bera hitan og þungan af endurhæfingunni sem fer fram á göngudeildum og endurhæfingarheimilunum Vík og Staðarfelli.“

Eftir því sem meðferð áfengissjúkra hefur þróast hefur hlutverk áfengis- og vímuefnaráðgjafar breyst mjög mikið. Hjá SÁÁ þar sem ég hef starfað síðan 1997 vinna ráðgjafar, eins og þeir eru kallaðir dags daglega, að ákveðnum verkefnum sem skilgreind hafa verið innan stofnunarinnar í samvinnu við lækna og hjúkrunarfólk. Við höfum ákveðna starfslýsingu sem við störfum eftir og nýtum þau tækifæri sem gefast til að mennta okkur og auka hæfni okkar í starfi. Til þess að geta orðið ráðgjafi þá þarf að hafa vilja til að læra og tileinka sér ákveðnar aðferðir sem viðurkenndar eru í vímuefnalækningum. 
Fagmennska er grundvölluð á menntun, þekkingu, siðareglum og faglegum gildum. Þörf er á að móta frumskuldbindingu starfsins sem kveður á um tilgang starfsins og hlutverk þess í samfélaginu og þar með þá þjónustu sem því er ætlað að veita. Skilgreina samfélagslega ábyrgð stéttarinnar og setja kröfur um menntun og færni. 

Svo vitnað sé aftur í ársskýrslu SÁÁ þar sem stendur „SÁÁ -samtökin hafa menntað sína áfengis- og vímuefnaráðgjafa sjálf nú um tveggja áratuga skeið og myndað með því nýja stétt sérfróðra heilbrigðisstarfsmanna hér á landi. Smám saman hefur kennslan og handleiðslan fyrir nýju ráðgjafana orðið að skipulögðum ráðgjafaskóla sem SÁÁ starfrækir við sjúkrahúsið Vog í góðri samvinnu við FÁR, Félag áfengisráðgjafa.“ 
Til þess að áfengisráðgjafar, vímuefnafræðingar eða hvað við kjósum að nefna okkur geti þróast og orðið starfsstétt sem gerðar eru sömu kröfur til og aðrar heilbrigðistétta þurfa að koma til reglusetningar og skilgreiningar frá stjórnvaldinu. Það þarf að setja þennan hóp niður innan heilbrigðiskerfisins og skilgreina hvað þurfi til hvað varðar menntun og hæfni svo vinna megi með vímuefnasjúkum eða standendum þeirra. Einnig þarf að setja reglur um hvernig aðkoma stéttarinnar á að vera að forvörnum og vinnu með ýmsum sérhópum s.s. föngum. 

Að lokum langar mig að vitna í siðareglur Félags áfengisráðgjafa um fagleg gildi áfengisráðgjafar 
„FÁR samanstendur af atvinnuráðgjöfum sem eru ábyrgir atvinnumenn í umönnun og trúa á reisn og virðingu mannsins. Í starfi sínu leggja þeir áherslu á að siðfræðilegar grundvallarreglur sjálfræðis, velvildar og réttlætis verði að stýra hegðun þeirra. Sem atvinnumenn hafa þeir helgað sig meðferð skjólstæðinga sem eru háðir hverskonar vímuefnum og fjölskyldum þeirra. Þeir trúa að þeir geti veitt meðferð sem virkar á einstaklinga og fjölskyldur. Áfengisráðgjafar helga sig því að vinna til heilla samfélagsins, skjólstæðinga, starfsgreinarinnar og starfsfélaga.“

Fyrir nokkrum áratugum síðan var starfrækt í heimabæ mínum veitingastaður, þar sem var einnig lítil sjoppa. Matsalan eins og þessi stofnun var kölluð dags daglega hafði uppá fleira að bjóða, þar sá ég í fyrsta sinn spilakassa. Háreistur og glansandi stóð hann og hafði yfir sér þá dulúð sem einungis forboðnir hlutir hafa og nokkrum sinnum fékk maður að setja tíkall í og slá hann inn með virðulegri sveiflu. Aldrei fór það svo að ég auðgaðist á viðskiptum mínum við kassann en það var allt til að styðja góðan málstað, smá plástur á sálina fyrir tapaðan aur. Þetta rifjast stundum upp fyrir mér þegar til mín leitar fólk sem á í spilavanda, fólk sem er stundum á barmi sturlunar vegna þess að það hefur spilað frá sér allt, ekki bara peninga heldur líka fjölskyldu vini, atvinnu og stöðu sína í samfélaginu.

Gera verður skýran greinarmun á sjúklegri spilaáráttu og fjárhættuspili til skemmtunar. En hver er munurinn? Spilafíkn er allt annað en hafa gaman af fjárhættuspili og heldur ekki það sama og eyða til þess miklu fé. Margir sem ég hef rætt við um spilafíkn virðast vaða í þeirri villu að spilafíkill spili sér til óbóta vegna skemmtunar eða af því honum finnist svo gaman að spila. Þetta er jafn fjarlægt sannleikanum og að tunglið sé gert úr osti.

Spilafíkn er mjög illvígur sjúkdómur sem krefst sérhæfðar og markvissrar meðhöndlunar. Það varð oft hlutskipti áfengisráðgjafa og annarra sem komu að vímuefnameðferð að koma spilafíklum til hjálpar því spilafíkn er vel þekkt samfara vímuefnafíkn. Fljótlega kom í ljós að spilafíklar höfðu sérstakar þarfir sem þurfti að koma til móts við þó að margt í vímuefnameðferðinni ætti ágætlega við. Nokkrir ráðgjafar sérhæfðu sig í að hjálpa spilafíklum og upp úr miðjum sjöunda áratugnum var fyrsta sérhæfða meðferðin fyrir spilafíkla sett á laggirnar í Bandaríkjunum. Hún hefur síðan þróast og skapast hefur traustur þekkingargrunnur á spilasjúkdómnum sem byggður er á læknisfræði, félagsfræði og sálfræði.

Spilafíkn hefur verið eitt af viðfangsefnum vímuefnameðferðar SÁÁ frá upphafi og uppúr 1990 var farið að taka sérstaklega á henni í meðferð. Árið 1992 gerði SÁÁ tilraun til að koma sérstaklega til móts við þarfir spilafíkla. Boðið var upp á viðtöl við ráðgjafa sem aflað höfðu sér sérþekkingar á spilafíkn og einnig var sett á laggirnar hópastarf. Frá upphafið var lagt mikið upp úr því að afla fræðslu og ráðlegginga frá færustu sérfæðingum á þessu sviðið og má þar nefna Robert Hunter, Ph.D og Howard O. Cornbleth, báðir brautryðjendur á sviðið spilafíklameðferðar. Þetta hefur skilað því að í dag leita til SÁÁ um 60 einstaklingar á ári sem greinast með spilafíkn. Þeir fá sérhæfða þjónustu sem veitt er mest megnis af ráðgjöfum sem leitað hafa sér menntunar á þessu sviði.


Aðal vandi spilafíklameðferðar er að fá þann sem er haldinn sjúkdómnum til að haldast í meðferð. Spilafíkill sem leitar sér hjálpar er oftast yfirkominn af skömm, óttast að vera dæmdur af samfélaginu og á við margháttaða fjárhagslega, félagslega og sálfræðilega erfiðleika að etja. Hann þarf að takast á við þessa erfiðleika í samfélagi þar sem sjálfsagt þykir og eðlilegt að henda nokkrum krónum í spilakassa eða spila önnur fjárhættuspil.

Til þess að hann geti tekist á við batann þarf að byggja upp meðferðarsamfélag sem samanstendur af meðferðaraðilum (sérfræðingum), þeim spilafíklum sem hafa náð bata og þeim sem eru að leita sér hjálpar. GA samtökin eru nauðsynlegur hluti bata spilafíkilsins. Þar fær hann félagslega endurhæfingu, fræðslu og samfélag meðal jafningja.

Félag Áfengisráðgjafa hefur skrifað undir samstarfssamning við “National Council on Problem Gambling” og hefur þar með tækifæri til að notfæra sér þekkingu samtakanna á spilafíkn og getur boðið ráðgjöfum að taka þau próf sem ráðið bíður uppá. Eitt af megin markmiðum okkar er að gera félagsmönnum kleyft að afla sér þekkingar. Þetta höfum við m.a. gert með því að fá til landsins sérfræðinga sem hafa áratuga reynslu og menntun á sínu sviði. Einn af þessum sérfræðingum er Joanna Franklin sem er ein af virtustu leiðbeinendum spilafíkla ráðgjafar í heiminum. Með hjálp góðra aðila gátum við boðið henni til Íslands í nóvember á síðasta ári þar sem Joanna lagði áherslu á að spilafíklaráðgjöf krefst sérþekkingar, þolinmæði og stuðnings annarra fagaðila s.s. lækna og sálfræðinga.

Undanfarnar vikur hefur margt verið ritað um menntun, gildi og stöðu áfengisráðgjafa á Íslandi og langar mig að leggja orð í belg. 

Þegar ég er stundum spurður að því hvernig gangi að þurrka upp “liðið” á Vogi þá svara ég að það gangi vel, stóri þurrkarinn sé stöðugt í gangi og allar snúrur fullar. Ég pirra mig á því hve fáránlega er spurt og sný mér að öðru. Það er kannski ekki við því að búast að allir viti hvað það er sem ég geri í vinnunni. 

Áfengisráðgjöf er ekki gömul starfsgrein en hefur samt tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Fyrstu áfengisráðgjafarnir voru nær undantekningalaust alkóhólistar sem höfðu eigin reynslu af meðferð og sumir „lentu“ í þessu því þeir vildu gefa til baka það sem þeim hafði verið gefið. Ekki var mikið hugsað um launin í krónum og aurum heldur var það eldmóðurinn sem rak þá áfram, oft í mjög neikvæðu og fordómafullu umhverfi. Það varð íslenskum áfengisráðgjöfum til happs að þeir voru í mjög nánu og persónulegu sambandi við starfsbræður sína í Bandaríkjunum og fengu tækifæri til að mennta sig og auka færni sína með heimsóknum á meðferðarstaði þar í landi, oft á eigin kostnað og með mikilli fyrirhöfn.

Ein af stærstu breytingum í velferðarmálum alkóhólista var tilkoma AA samtakanna árið 1935. Bill W. og Dr Bob, stofnendur AA samtakanna, lögðu strax mikla áherslu á mikilvægi þess að afla þekkingar á alkóhólisma og efla meðferðarstarf. Þekking á viðfangsefninu er grundvöllur þess að árangur náist og ekki er nóg að sú þekking spretti upp af sjálfri sér hún þarf að þola vísindalega skoðun og samræmast vísindalegum vinnureglum. Þetta er það sem áfengisráðgjöf byggir á.
Áfengisráðgjafar eru ekki einungis góðhjartaðir alkar sem vilja hjálpa öðrum heldur heilbrigðisstarfsmenn sem byggja á vísindalegum grunni læknisfræði, sálarfræði og félagsfræði. Þessa þekkingu þarf áfengisráðgjafi að tileinka sér, en samt er það svo að ekki geta allir unnið við áfengiságjöf þrátt fyrir góða menntun. Grunn gildin eru þau sömu og hjá fyrstu áfengiságjöfunum, að vilja láta gott af sér leiða og virðing fyrir einstaklingum og rétti hans til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þegar við byrjum að vinna þá þurfum við að fara í gegnum strangt þjálfunar og skoðunarferli, þar sem við þurfum að sýna að við getum lært, tileinkað okkur þekkingu og fáum tækifæri að máta okkur í starfið. Margir heltast úr lestinni af ýmsum ástæðum, stundum eru væntingar til starfsins aðrar en í raun reynist eða vinnuálagið of mikið.

Margir halda að starf ráðgjafans felist að mestu í því að gefa ráð eins og nafnið bendir til en í starfinu fellst í raun margt annað. Starf ráðgjafans er margþætt, allt frá fyrstu hjálpar sálgæslu til beinna afmarkaðra ráðlegginga um ólíklegustu atriði lífsins, en mestur tími ráðgjafans fer í að veita upplýsingar og fræða. Oft þurfa áfengisráðgjafar að hjálpa fólki að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína og er það siðferðileg skylda okkar að láta okkar eigin viðhorf og skoðanir ekki stýra hvað við ráðleggjum, heldur halda okkur við vísindalega þekkingu og þær siðareglur er við höfum sett okkur.

Áfengisráðgjafa má oft líkja við fararstjóra nema hvað þessi fararstjóri þarf að sannfæra og hjálpa samferðafólki sínu til að fara eftir þeim kortum sem til eru en ekki teikna upp sín eigin eftir því sem á ferðina líður. 

Að lokum vil ég benda þeim sem vilja kynna sér hvað áfengisráðgjafar gera á vefina www.far.is og http://saa.is en þar er að finna margskonar fróðleik.