Greinar

Hörður Svavarsson

portrait hordur s

Ósæmilegt af landlækni
 

Greinin er rituð í tilefni af svari sem landlæknir, Matthías Halldórsson, sendi Ólafi Skorrdal vegna athugasemda Ólafs við frétt mbl.is um tölfræði SÁÁ. Í greininni er gagnrýnt að landlæknir sneiði að forstöðulækni SÁÁ með órökstuddum hætti. Greinin birtist á vefsvæði höfundar hjá Eyjunni (eyjan.is) og á vef SÁÁ 21. Júní 2009.

Landlæknir sendi frá sér merkilegt plagg þann 15. Júní síðastliðinn. Plaggið er ekki einungis merkilegt fyrir þær sakir að það er ekki til birtingar á heimasíðu landlæknisembættisins heldur á síðu þeirra sem lögleyfa vilja kanbisnotkun á Íslandi, kannabis.net.

Plaggið er merkilegt fyrir það að landlæknir klæðir umfjöllun sína í faglegan búning vitnar til fjölda fræðimanna og tilgreinir langan lista heimilda en um leið notar hann ritsmíð sína til að vega að kollega sínum, öðrum lækni, með ómaklegum og órökstuddum hætti.

Tilefni skrifa landlæknis er að Ólafur Skorrdal, kunnur baráttumaður fyrir lögleyfingu kanabisnotkunar, ritaði landlækni opið bréf í mars og gerði athugasemdir vegna frétta mbl.is af tölfræði og staðhæfingum SÁÁ.

Landlæknir hefur greinilega lagt á sig mikla vinnu við að setja saman svar til Ólafs, lesið margar rannsóknir og fræðirit sem hann grundvallar skoðanir sínar á og er það vel. Með þessu sýnir landlæknir að hann gerir ekki mannamun og allir eiga skilið faglega afgreiðslu hjá embættinu. Það er ekki langt síðna menn í stöðu Ólafs Skorrdal hefðu verið afgreiddir sem rugludallar eða dópistar. Sá tími er sem betur fer liðinn.

Vegna þess hve svar landlæknis er ítarlegt og rökstutt er líka alvarlegra þegar hann fer yfir strikið og vegur að forstöðulækni SÁÁ með órökstuddum dylgjum.

Í öðrum kafla ritsmíðar sinnar tekur landlæknir til umfjöllunar þá fullyrðingu Ólafs Skorrdals að “Yfirlýsingar yfirlæknis Vogs, Þórarins Tyrfingssonar, eru alls ekki studdar neinum vísindalegum rökum, heldur notar hann einungis tölfræði SÁÁ/Vogs, sem, hið minnsta, er lituð fjárhagshagsmunum hans sjálfs...”

Í svari sínu lætur landlæknir undir höfuð leggjast að geta þessa að þau vísindi sem læknisfræðin byggir almennt á notast við aðferðir megindlegrar aðferafræði og eru því ekkert nema tölfræði og góðir siðir, en umkvörtun Ólafs fjallar einmitt um að siðferði forstöðulæknis SÁÁ sé litað af fjárhagslegum hagsmunum hans og tölfræði hans sé ekki vísindi.

Í stað þess að lýsa því yfir að tölfræði SÁÁ sé hafin yfir vafa segir landlæknir að hann hafi ekki efast um hana og tekur að því búnu undir gagnrýni Ólafs um siðferði Þórarins Tyrfingssonar með aðferðum sem ekki eru sæmandi fagmanni, kollega eða embættismanni í stöðu landlæknis.

Landlæknir segir “Óvenjulegt er að formaður samtakanna er jafnframt yfirlæknir, sem setur hann í aðra aðstöðu en flesta aðra yfirlækna. Umræðan um SÁÁ er oft tengd fjárhagsvanda samtakanna og ekki óeðlilegt að yfirlæknirinn sem formaður samtakanna þurfi að beita sér í þeim efnum. Þetta samtvinnaða hlutverk hefur bæði kosti og galla. Þórarinn hefur mikla reynslu af meðferð fíkla og hefur unnið mikið og gott starf á því sviði. Reynsla hans vegur þungt, en stundum heyrist sú gagnrýni að óljóst hvort yfirlæknirinn er að reka áróður vegna fjárhagsvanda stofnunar sinnar eða hvort hann sé að koma upplýsingum um gagnreynda læknisfræði á framfæri.”

Með þessum málflutningi blandar landlæknir saman tveimur aðskildum málum, annarsvegar umræðu um fjármögnun sjúkrastarfsemi SÁÁ og hinsvegar framlagi samtakanna til vísindanna.

Það eru nýmæli í sjálfu sér ef landlækni finnst félög sem þurfa fjármagn til starfsemi sinnar verða með einhverjum hætti ótrúverðug og spyrja má í kjölfar þessara vangaveltna landlæknis hvort rétt sé að hafa fyrirvara á því sem Krabbameinsfélagið og Hjartavernd leggja til umræðu um krabbamein og hjartasjúkdóma svo nefnd séu dæmi um tvö félög sem stunda öflugar fjáraflanir til starfsemi sinnar.

Það sem er þó alvarlegt og hlýtur að vera ámælisvert er að þegar ummæli landlæknis eru lesin í samhengi við umkvörtunarefni Ólafs eru vísindastörf SÁÁ dregin í efa og það er gert með einkar ómálefnalegum hætti.

“...stundum heyrist sú gagnrýni að óljóst hvort yfirlæknirinn er að reka áróður vegna fjárhagsvanda stofnunar sinnar eða hvort hann sé að koma upplýsingum um gagnreynda læknisfræði á framfæri.”

Landlæknir tíundar ekki heimildir fyrir þessum ummælum sem hann hefur stundum heyrt. Ekki er ljóst hvort hann heyrði þessi ummæli stundum í heita pottinum í sundlaugunum eða á einhverjum viðmóta stað en víst er að ekki er hægt að finna nein ummæli í þessa veru með leitarvélum internetsins.

Landlæknir er yfirvald, sérfræðingur á sínu sviði og verður því að teljast traust heimild. Hvort sem fótur er fyrir því eða ekki að ofangreind gagnrýni hafi einhvern tíma átt sér stað eða stundum heyrst, er hún nú staðreynd - og hún er frá landlækni komin. Héðan í frá má efast um öll vísindastörf SÁÁ með þeim fyrirvara að landlæknir hafi haldið því fram (að aðrir hafi haldið því fram) að óljóst sé hvort stofnunin sé að upplýsa um læknisfræði eða stunda óróður.

Það er óþarfi að kynna Þórarinn Tyrfingsson fyrir landsmönnum. Í tæpan aldarfjórðung hefur honum verið trúað fyrir forystuhlutverki hjá SÁÁ og þeir sem til þekkja eru sannfærðir um að samtökin og sjúkrastofnanir þeirra væru ekki til í dag ef Þórarins hefði ekki notið við.

Vegna framsýni Þórarins og atorku hefur verið haldið utan um sjúklingabókhald SÁÁ með þeim hætti að nú er þar til gagnasafn sem er einstakt í sinni röð í heiminum. Þetta vita þeir vísindamenn sem gerst þekkja til vímuefnarannsókna í heiminum og eru áfjáðir í samstarf við Þórarinn Tyrfingsson og SÁÁ.

Tvö undanfarin ár hafa sendiboðar frá National institutes of health og Nida - National Institute on Drug Abuse í bandríkjunum komið gagngert til Íslands til að vinna að samstarfi með SÁÁ. Þessar stofnanir leggja til um 85% af öllu fjármagni sem rennur til vímuefnarannsókna í heiminum og þær starfa undir gríðarlega ströngum faglegum og siðferðilegum stöðlum.

Fyrir tæpu ári kom hingað Dr. Nora Volkow en tímaritið Time útnefndi hana nýlega eina af 100 áhrifamestu einstaklingum í heiminum. Nora sem er forstjóri Nida sagði í þessari heimsókn að íslenskir vísindamenn geti lagt mikið af mörkum í því augnamiði NIDA að bæta meðferðarúrræði vímuefnaneytenda og skilja betur hvernig og af hverju fólk ánetjast fíkniefnum. Hér á landi sé einstakt tækifæri til að fylgjast með hvaða áhrif meðferð hefur á fólk og einnig hefur hún hrifist af þeim gagnagrunnum sem Íslendingar búa yfir.

Þetta fólk treystir tölfræði Þórarins Tyrfingssonar og gögnum SÁÁ en íslenski landlæknirinn sér ástæðu til að hampa því að einhversstaðar hafi hann stundum heyrt að Þórarinn stundi áróður.

  

Eftir að greinin var rituð var svar landlæknis sem vísað er til í greininni sett á vefsvæði embættisins á slóðinahttp://www.landlaeknir.is/Pages/1460

Greinina skrifaði höfundur fyrst undir fyrirsögninni “Ósæmilegur landlæknir” en breytti henni í núverandi horf og gerði eftirfarandi athugasemd neðanmáls.

“Ég bið ( ) landlækni, Matthías Halldórsson, afsökunar á fyrirsögninni “Ósæmilegur landlæknir” það eru e.t.v. stór orð af einstöku tilefni. Ég hef leiðrétt fyrirsögnina.”

Hörður Svavarsson

Opið bréf til Ágústs Ólafs Ágústssonar alþingismanns

Þessi grein er rituð í formi opins bréfs til Ágústs Ólafs Ágústssonar sem var varaformaður Samfylkingarinnar þegar greinin var rituð.

Vorið 2007 mátti litlu muna að frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum væri samþykkt á Alþingi. Engin teljandi umræða var um málið í fjölmiðlum, andstaða lítil á þingi og í raun réð tímaskortur því að frumvarpið var ekki samþykkt. Sumarið 2007 hófst áróður fyrir þessu máli í nokkrum fjölmiðlum og var greinilega verið að undirbúa jarðveg fyrir komandi þing. Við einsleitum fréttaflutningnum brugðust Ari Mathíasson þáverandi framkvæmdastjóri hjá SÁÁ og undirritaður þáverandi vímuefnaráðgjafi og rannsakandi hjá SÁÁ. Má segja að viðbrögðin hafi markað upphaf almennrar og öflugrar andstöðu við frumvarp um sölu á áfengi í matvöruverslunum, sú andstaða átti drjúgan þátt í því að frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á Alþingi vorið 2008.

Greinin var send fjölmiðlum og Ágústi Ólafi Ágústsyni. Hún var fyrst birt á vef SÁÁ í júlí 2007.

19. júlí 2007 

Sæll Ágúst

Ég skrifa þér þessar línur sem flokksbróðir þinn og einn af fáum Áfengis- og vímuefnaráðgjöfum á Íslandi sem hafa starfsréttindi sem slíkir frá Heilbrigðisráðherra. Tilefnið er ummæli sem eftir þér eru höfð í Blaðinu í dag.

Þar er haft eftir þér að:

“…Sagan sýnir þó að þú nærð ekki að stýra neyslu almennings með opinberri verðlagningu, og hátt áfengisverð hér á landi hefur ekki leitt til þess að landinn fari betur með vín. Áfengisstefna, sem gengið hefur út á að takmarka aðgengi almennings að áfengi og halda verðlaginu háu er því gjaldþrota. Ég legg til að í staðin verði tekin upp áfengisstefna sem byggir fremur á forvörnum en bönnum.”

Það er í sjálfu sér er ekkert við það að athuga þó stjórnmálamaður hafi þá skoðun að áfengisverð sé of hátt. Það sjónarmið kanna að vera hluti af pólitískri heildarsýn einstaklingsins, einhverskonar lífssýn sem hver og einn hefur frelsi til að hafa í lýðfrjálsu landi. Þannig finnst sumum sem vilja lækka áfengisverð að einnig ætti að heimila sölu þeirra vímuefna sem fram til þessa hafa verið ólögleg á Íslandi, eins og áfengi eitt sinn var. Margir þeir einstaklingar sem aðhyllast slík sjónarmið hafa haft kjark til að halda þessum viðhorfum á lofti og er það e.t.v. til þess fallið að stuðla að frelsi einstaklingsins til hugsana og annarra athafna í víðara samhengi en takmarkast af umræðunni einni um lögleiðingu vímuefna. Þannig verða merkisberar umræðunnar gjarnan kunnir af frjálslyndum skoðunum og stundum frjálshyggju.

Ég veit ekki hvað rekur þig til að vilja auðvelda aðgengi að áfengi og það má einu gilda, þér er mín vegna frjálst að hafa þessar skoðanir. Hinsvegar koma fram rangfærslur eða öllu heldur vitleysur í yfirlýsingum þínum og það er slæmt.

Sagan sýnir að verðlagning hefur áhrif á neyslu almennings. Hækki verð dregur úr neyslu. Lækki áfengisverð eykst neysla með auknum fjölda ofdrykkjumanna. Enn fremur sýna hagtölur að samhengi er á milli hækkunar á áfengissköttum og verði og fækkunar vandamála sem rekja má til áfengisdrykkju. Þessar staðreyndir ganga þvert á það sem lesa má út úr yfirlýsingum þínum í Blaðinu í dag.

Áfengisstefna sem gengur út á að takmarka aðgengi er eitt af því fáa sem hægt er að fullyrða með óyggjandi hætti að er áhrifarík leið til að draga úr skaða af völdum áfengis. Heimildir eru einnig um að í áfengisbanni sem hér var við líði á seinustu öld fækkaði afbrotum svo mjög að fangageymslur í Reykjavík tæmdust og hægt var að nýta þær sem félagslegt búsetuúrræði. Þó ég vilji ekki fremur en þú mæla með bönnum er ofsagt að áfengisstefna sem takmarki aðgengi sé gjaldþrota.

Loks er vert að benda á að forvarnir eru mjög loðið og óljóst hugtak og áhrif þeirra illmælanleg. Nokkrum fjármunum er nú varið í svokallaðar forvarnir á Íslandi en þrátt fyrir það eykst áfengisneysla ár frá ári.

Með hliðsjón af ofangreindu má gera ráð fyrir að yfirlýsingar þínar í þessu máli séu vanhugsaðar eða að þú hafi notið slæmrar ráðgjafar. Aðgengi að upplýsingum um áfengismál er ágætt, má þar benda á Lýðheilsustöð og SÁÁ. Sérstaklega er vert að benda á: Áfengi - engin venjuleg neysluvara, sem er samantekt úr bókinni Alcohol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy “ En þessa samantekt má finna á slóð Lýðheilsustöðvar;

http://www.lydheilsustod.is/media/afengi/Afengi_engin.pdf

Eins og ég hef áður sagt veit ég ekki afhverju þú leggur svo mikið á þig til að hafa miklar skoðanir á áfengismálum. En ég hef tekið eftir því að þú ert vandaður og trúverðugur stjórnmálamaður og þessvegna má búast við að það sé tekið mark á þér þegar þú gefur út yfirlýsingar á borð við þær sem þú gafst í Blaðinu í dag.

Þér og öðrum stjórnmálamönnum sem vilja hafa svipaðar skoðanir á áfengismálum þarf að vera ljóst að aukið aðgengi táknar aukna neyslu áfengis. Það táknar aukna ofdrykkju með auknum sársauka fyrir börn, maka og aðra fjölskyldumeðlimi ofdrykkjumanna. Aukið aðgengi mun einnig tákna aukinn heilbrigðisvanda sem mun kosta aukin útgjöld til heilbrigðismála. Það er því til mikils að vinna.

Bestu kveðjur,

Hörður Svavarsson

Mánudaginn 26. september síðastliðinn skrifar Marsibil J. Sæmundsdóttir framkvæmdastjóri grein í Morgunblaðið (sem birtist áður á vef framsónarfólks). Greinin er um þörf Marsibil til að meðhöndla unga vímuefnaneytendur, sem hlotið hafa dóm, annars staðar en í því sem hún kallar hefðbundið fangelsi. Marsibil hefur skrif sín á að upplýsa lesendur um að stjórn félags ungra framsóknarmanna í öðru Reykjarvíkurkjördæmanna hafi skorað á dómsmálaráðherra að koma á fót sérhæfðu fangelsi fyrir afbrotamenn sem eru yngri en 25 ára og eiga við vímuefnafíkn að stríða.

Greinin er að mörgu leiti hjartnæm en af lestri hennar verður ekki ljóst hvað gerir stjórn ungra framsóknarmanna í öðru Reykjavíkurkjördæmanna sérstaklega hæfa til að ráðleggja dómsmálaráðherra um vímuefnameðferð. Hitt er þó ljóst öllum sem fylgst hafa með stjórnmálum að stundum hefur það hentað hópum sem átt hafa undir högg að sækja hvað varðar vinsældir almennings, að hefja umræðu um vímuefnavanda og forvarnir í aðdraganda kosninga. Þá eru gerðar miklar kröfur til ráðamanna eða miklu lofað eftir kosningar. 

Það er auðvitað ánægjulegt þegar einstakir áhugamannahópar á borð við stjórn hinna ungu framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður gefa sig út fyrir að hafa áhuga á hagsmunum einstakra minnihlutahópa og það ber auðvitað að þakka. Það virkar þó ekki sérlega geðfellt þegar framkvæmdastjórinn Marsibil, sem vel að merkja rekur einhvers konar meðferðarstöð, talar um vímuefnafíkna afbrotamenn sem markhóp. Það er líka stundum langt seilst eftir tilfinningarökum í grein hennar. Hún talar t.d. um 16 ára börn sem er ekki betur borgið í vistun með ýmiskonar afbrotamönnum. Hve mörg 16 ára börn eru vistuð á Litla-Hrauni? Ætli framkvæmdastjórinn hafi hugmynd um það? Ætli stjórn ungra framsóknarmanna í Reykjavík norður hafi leitað álits sálfræðinga Fangelsismálastofnunar á þessu vandamáli sínu? 
Það gerist allt of oft að fagmenn sem vinna á stofnunum félagslega kerfisins og heilbrigðiskerfisins upplifa það að stjórnmálamenn taka upp á arma sína einhverjar markaðsvænar lausnir, sem stundum eru lausnir við röngum vanda. Allt of oft eru fagmenn hunsaðir. Fagmenn sem vinna að einstökum málaflokkum alla daga, allan ársins hring eru ekki marktækir en þess í stað er látið undan kröfum einstakra háværra þrýstihópa. 

Það verður að hvetja þá sem vilja bæta samfélagið að leita eftir faglegum rökum, skoða tölfræði, vísindalegar niðurstöður rannsókna og tala við þá sérfræðinga sem starfa í viðkomandi málaflokki. Kannski er meiri þörf á að mennta betur fangaverði heldur en að byggja nýtt fangelsi. Kannski ættu þeir sem sinna föngunum að kunna betri skil á vímuefnameðferð og sálgæslu. A.m.k. lýstu fangaverðir því þannig á ráðstefnu um málefni fanga í vor, að lítt væri hlustað á tillögur þeirra. Hugmyndir fangavarða virtust stundum hljóma eins og hvalahljóð úr undirdjúpunum í eyrum ráðamanna. Það starfa vel menntaðir sérfræðingar hjá Fangelsismálastofnun. Þeir sem hafa áhuga á að bæta aðstöðu vímuefnafíkla og fanga, hvort sem þeir eru í Framsókn eða öðrum flokkum ættu að tala við þessa sérfræðinga áður en þeir álykta. 

Ef til vill er það einmitt kostur fyrir ungt fólk sem misst hefur fótanna, eins og Marsibil orðar það, að vera innan um fullorðið fólk sem kann að komast af. Að minnsta kosti verður að draga hugmyndir um "jákvæða jafningjafræðslu" sem öflugt meðferðartæki í fangelsi í efa. Það er hægt að gera margt til að bæta og efla vímuefnameðferð sem er til staðar í samfélaginu. Meðferð sem virkar. Það er brýn þörf fyrir margt í þeim málaflokki, nýtt ungmennafangelsi er þar ekki efst á blaði.

Hvaðan fáið þið þessa meðferð. Hvernig var þessi áfengismeðferð búin til? Hver fann upp á þessari meðferð? Þeir sem starfa að áfengislækningum, læknar, vímuefnaráðgjafar og hjúkrunarfólk, eru gjarnan spurðir að svona spurningum. Sumir eru uppnumdir yfir þeim nýju hugmyndum sem að þeim er rétt þegar þeir koma til meðferðar, eru í einhverskonar vakningu og vilja vita meira. Aðrir eru eðlilega gagnrýnir og vilja ekki krukka í hugmyndaheim sinn nem vita á hverju fræðslan byggir. Svo eru þeir sem telja sig vita hverjar forsendur vímuefnameðferðarinnar eru, hún snúist eingöngu um 12 spor AA, hún sé frá Minnesota, eða þá hún sé svokallaður heilaþvottur, en þegar á hólminn er komið stangast eitthvað í fræðslunni og leiðbeiningunum á við þessar hugmyndir. 

Það er því eðlilegt að sjúklingar sem koma til meðferðar vegna alkahólisma eða annarrar vímuefnafíknar spyrji að því hvaðan meðferðin komi. Það er stórt spurt, en til er einhlítt og einfalt svar. Meginþorri þeirra sem sækir í vímuefnameðferð á Íslandi, leitar til SÁÁ og leggst inn á sjúkrahúsið Vog. Þangað kemur fjórði hver karlmaður í Íslandi fyrir sjötugt og þá er hver einstaklingur aðeins talinn einu sinni, en ekki eins og viðskiptavinur í Kringlunni sem eru talinn í hvert sinn sem hann kemur inn í húsið. Það er stór hluti þjóðarinnar sem leitar sér lækninga hjá SÁÁ og við getum staðfest hvaðan meðferðin þeirra kemur.

Meðferðin hjá SÁÁ kemur úr vísindunum. Læknateymi samtakanna er hámenntað fólk sem tryggir að það sem sett er inn í meðferðina byggir á læknisfræðilegum grunni. Til að læknisfræðin samþykki úrræði, þurfa að liggja fyrir sannfærandi rannsóknir og niðurstöður sem gefa til kynna að rétt sé að beita viðkomandi úrræði. Það er fyrst og fremst læknahópurinn, sem stendur vaktina og skoðar nýjar rannsóknarniðurstöður víða að, vegur þær og metur. Þetta tryggir að meðferðin geti þróast. Ef hún byggði á einhverju öðru, til dæmis því að við vissum að 12 spor AA virkuðu og ekkert annað, eða ef hún byggði eingöngu á sérstökum trúarlegum hugmyndum hefðum við höndlað einhvern algildan sannleik. Þá kæmist ekkert nýtt að. Þá stæði þróun meðferðarinnar í stað, meðferðin væri stöðnuð.

Áfengissjúklinga og aðrir vímuefnafíklar á Íslandi eru margir. Um tvö þúsund og fjögur hundruð sjúklingar eru lagðir inn á Vog árlega. Eins og á öðrum heilbrigðisstofnunum starfa með læknunum aðrar heilbrigðisstéttir hjá SÁÁ. Á Vogi starfa sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar og áfengisráðgjafar. Sú stétt sem starfar í nánustum tengslum við sjúklingana og ber hitann og þungann af því að koma meðferðinni á framfæri eru ráðgjafarnir. Það gefur því auga leið að áfengisráðgjafinn þarf að vera vel að sér og vera þeim kostum búinn að geta miðlað þekkingu sinni. Starf hans skarast bæði við uppeldis og fræðslustéttir annarsvegar og almennar heilbrigðisstéttir hinsvegar. Áfengisráðgjafinn þarf að þekkja vel til fíkniefna, áhrifa þeirra og afleiðinga af notkun þeirra. Hann þarf að kunna nokkur skil á lyfjafræði og sama má segja um líffræði. Ráðgjafinn þarf að hafa innsýn í sálarfræði og geðsjúkdómafræði. Hann þarf að vera vel að sér í þeim aðferðum sem reynst hafa vel til að drepa í dróma þann lífhættulega sjúkdóm sem áfengissýki er. Áfengis- og vímuefnaráðgjafinn þarf að vera fræðari og fyrirmynd.
Hluti íslenskra áfengisráðgjafa fær ágæta kennslu, það er a.m.k. sá hluti sem starfar hjá SÁÁ, þeir undirgangast nokkra akademíska fræðslu og verulega verklega kennslu og þjálfun. SÁÁ hefur haft frumkvæði að þessari fræðslu, en heilbrigðis og menntayfirvöld gera enga kröfu um menntun áfengisráðgjafa. Og gera enga kröfu um að þeir, sem vinna við áfengismeðferð hjá öðrum aðilum kunni eitthvað fyrir sér. Það er bæði móðgun og lítilsvirðing við þann stóra hóp manna, sem er með áfengis- eða aðra vímuefnasýki. Raunar er það svo að áfengisráðgjafar teljast ekki til heilbrigðisstétta, því eins og Landlæknisembættið lítur á málin, teljast þær stéttir til heilbrigðisstétta sem njóta lögverndaðs starfsheitis. Áfengisráðgjafar eru ekki ein af þeim stéttum.

Það eru þrjátíu starfsstéttir sem njóta lögverndaðs starfheitis og þurfa starfsleyfi heilbrigðisráðherra til starfa. Það eru að sjálfsögðu læknar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar. Það eru einnig fótaaðgerðafræðingar, sjóntækjafræðingar og sjúkraflutningamenn, en ekki áfengisráðgjafar. Það eru tannfræðingar, tanntæknar og aðstoðarmenn tannlækna, en ekki áfengisráðgjafar. Það eru matvælafræðingar, næringarráðgjafar og matartæknar, en ekki áfengisráðgjafar. Þessari upptalningu er ekki lokið en niðurstaðan er augljós. Það þarf sérstaka menntun, og það eru gerðar ákveðnar og strangar kröfur, af heilbrigðisyfirvöldum, til þeirra sem starfa innan heilbrigðiskerfisins. Undantekningin eru áfengisráðgjafar. Það er erfitt að koma auga á ástæðu fyrir þessari afstöðu, nema ef vera skyldi undarleg viðhorf yfirvalda til alkahólisma.

Samstarfsvettvangur áfengisráðgjafa er Félag áfengisráðgjafa – FÁR. Það ber að tryggja alkahólistum og öðrum fíklum bestu fáanlegu meðferð. Þess vegna verður Félag áfengisráðgjafa að gera mjög ákveðna kröfu um lögverndun starfheitis og stjórnvöld verða að bregðast við þeirri kröfu. Í dag sitja alkahólistar ekki við sama borð og aðrir sjúklingar í Íslenska heilbrigðiskerfinu.